Ríkisstjórn Þýskalands samþykkti í dag aðgerðapakka sem ætlað er að draga úr skrifræði í landi sem er alræmt fyrir íþyngjandi verklagsreglur og pappírsvinnu.
Áætluninni er ætlað að draga úr skriffinnsku fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga. Hún felur í sér minni kröfur um skýrslugjöf, aukna stafræna væðingu og einfaldaðar reglur um heilsu og öryggi.
Stafræna ráðuneytið sagði í yfirlýsingu að ríkisstjórn Friedrichs Merz kanslara hefði þegar kynnt til sögunnar ívilnunaraðgerðir að andvirði þriggja milljarða evra (450 milljarða króna) frá því hún tók við völdum í maí.
Nýja pakkanum er ætlað að styrkja þessar aðgerðir með 50 aðgerðapunktum, svo sem hraðari skipulagsferlum og einfaldaðri vinnulöggjöf.
Í frumvarpinu er einnig lofað að draga úr skýrslugjöf um sjálfbærni, flýta fyrir þróun farsímanets Þýskalands og uppbyggingu ljósleiðara, sem og innleiða stafræna fasteignasamninga.
Til viðbótar við þessa 50 punkta eru átta aðgerðir sem ráðuneytið sagði að hægt væri að innleiða strax og myndu spara 100 milljónir evra.
„Ríkisstjórnin hefur nú áþreifanlega áætlun um að draga úr skrifræði til langs tíma,“ sagði Karsten Wildberger, stafrænn ráðherra.
„Þetta er árangur sem Þýskaland hefur ekki séð í mörg ár,“ sagði hann.
Í september hvöttu samtök atvinnulífsins ríkisstjórnina á neyðarfundi með Merz til að draga úr skrifræði sem lið í aðgerðum til að endurlífga erfitt efnahagslíf.
Viðbrögð atvinnulífsins við pakkanum voru blendin.
Joerg Dittrich, forseti Sambands þýskra iðnaðarmanna (ZDH), sagði að ríkisstjórnin hefði sýnt að hún „tæki baráttuna gegn skrifræði alvarlega“.
En Thilo Brodtmann, framkvæmdastjóri samtaka verkfræðiiðnaðarins VDMA, sagði að áætlanirnar „stæðust ekki væntingar“.












































Athugasemdir