Fjármálaráðherra nýtur meira trausts nú en nokkurn tímann í mælingum markaðsrannsóknafyrirtækisins Maskínu. Ráðherrann, Daði Már Kristófersson, utanþingsráðherra úr Viðreisn, stekkur upp í trausti um 21 prósentustig frá janúar til október á þessu ári, samkvæmt nýbirtri könnun, og bera nú 46% mikið traust til hans, en 27% vantreysta honum.
Allir aðrir ráðherrar falla í traustmælingunni. Mest fellur Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra. Hann hrapar í trausti um 32 prósentustig og bera nú aðeins 16% mikið traust til hans, minna en til nokkurs annars ráðherra. Á sama tíma segjast 27 prósentustigum fleiri bera lítið traust til innviðaráðherrans en í janúar, sem leiðir hann í vantraust hjá 41% þjóðarinnar.

Mest vantraust til Flokks fólksins
Landsmenn bera afgerandi minnst traust til ráðherra Flokks fólksins. Af þeim nýtur menntamálaráðherrann Guðmundur Ingi Kristjánsson trausts 17% landsmanna en 55% vantreysta honum. Vantraust á menntamálaráðherranum eykst um 23 prósentustig, en í fyrri mælingu í janúar var Ásthildur Lóa Þórsdóttir í ráðherrastólnum, áður en hún sagði af sér eftir umfjöllun Ríkisútvarpsins um ástarsamband hennar við pilt, sem varð barnsfaðir hennar fyrir 35 árum.
Litlu minna vantraust hefur Inga Sæland, félags og húsnæðismálaráðherra, eða 52%.

Forsætisráðherra með mikið traust
Sögulega séð er traust til ráðherra mikið. Þannig eru fleiri sem treysta forsætisráðherra en vantreysta. Um 60% treysta Kristrúnu Frostadóttur, en 24% vantreysta henni, sem er hækkun úr 15% í janúar. Skýr skil eru milli forsæstisráðherratíðar frá árinu 2008. Þannig mældist Geir Haarde mest með vantraust 64% landsmanna, Jóhanna Sigurðardóttir fór mest í 65% vantraust og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í 82%. Bjarni Benediktsson fór sömuleiðis í 64% vantraust og var alla sína tíð með langt um minna traust en vantraust.
Tveir forsætisráðherrar skera sig úr með afgerandi meira traust en vantraust, Kristrún Frostadóttir og Katrín Jakobsdóttir, en sú síðarnefnda endaði í meira vantrausti en trausti undir lok sinnar tíðar.
Kristrún hefur mest traust þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu, en á Austurlandi mælist hún með minnst traust, þar sem 44% vantreysta henni. Af aldursflokkum er það ungt fólk, á aldrinum 18 til 29 ára, sem treysta henni minnst. Þriðjungur fólks á þeim aldri vantreysta henni.
Engum heilbrigðisráðherra treyst meira
Alma Möller er sá heilbrigðisráðherra sem þjóðin treystir best frá því mælingar Maskínu hófust. Alls treysta 53% landsmanna þessum fyrrverandi landlækni, en 25% vantreysta henni, sem er hækkun um fimm prósentustig frá janúar.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur sett á oddinn áætlun um að ná niður vaxtakostnaði ríkisins með aðhaldskröfu í ríkisútgjöldum, sem hefur mætt andstöðu verkalýðsfélaga. Blikur eru hins vegar á lofti í efnahagsmálum vegna tollamála, minnkandi útflutnings til Bandaríkjanna, þrálátrar verðbólgu, skerðingar í starfsemi Norðuráls og gjaldþrots flugfélagsins Play, svo eitthvað sé nefnt.
Daði Már Kristófersson er með doktorsgráðu í hagfræði og er eini hagfræðimenntaði fjármálaráðherrann á öldinni, ef frá er talinn Geir H. Haarde, sem hafði mastersgráðu í hagfræði, en Geir vék fyrir Árna Mathiesen 2005, sem var menntaður dýralæknir og reyndist njóta trausts 5,5% landsmanna í mælingu Maskínu í desember 2008.













































Athugasemdir