Ríkisstjórnin kynnti í dag röð aðgerða og áætlana sem ætlað er að bregðast við bæði skorti á íbúðum og spennu á húsnæðismarkaði – svokallaðann húsnæðispakka. Pakkinn felur í sér breytingar á lánakerfum, skattalegum hvötum og regluverki með það að markmiði að gera almenningi auðveldara að eignast húsnæði og draga úr uppkaupum fjárfesta á íbúðum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti pakkann á blaðamannafundi síðdegis í dag. Vel fór á með þeim við kynninguna og hrósaði Kristrún þeim Daða og Ingu og ráðuneytum þeirra fyrir góð samskipti í vinnunni við pakkann.
Samkvæmt því sem þau kynnti ætlar ríkisstjórnin ætlar að veita áframhaldandi heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól íbúðalána. Raunar á að gera þá ráðstöfun varanlega varanleg. Þannig geta allir íbúðaeigendur nýtt séreignarsparnaðinn til að greiða niður húsnæðislán sín næstu tíu árin. Svo á að efna til samráðs um leiðir til að auka þátttöku almennings í séreignarsparnaði.
Þá boðar ríkisstjórnin endurbætt hlutdeildarlánakerfi, með mánaðarlegri úthlutun, tryggðri fjármögnun og rýmri skilyrðum, þannig að fleiri geti nýtt sér úrræðið til að komast inn á húsnæðismarkað.
Draga úr hvötum íbúðasafnara
Áhersla er lögð á að draga úr hvötum til að safna íbúðum í fjárfestingarskyni. Frá 1. janúar 2027 verður dregið úr skattfrelsi söluhagnaðar hjá þeim sem eiga margar íbúðir.
Í dag er slíkur hagnaður nær alfarið undanþeginn skatti og aðeins 0,2 prósent söluhagnaðar einstaklinga af íbúðarhúsnæði var skattlagður árið 2024, samkvæmt upplýsingum sem stjórnvöld veittu við kynningu pakkans. Þá verður afsláttur af fjármagnstekjuskatti vegna leigutekna helmingaður; lækkaður úr 50 prósent í 25.
Að mati stjórnvalda mun þetta draga úr þenslu á húsnæðismarkaði og gera aðrar fjárfestingar sem stuðla að verðmætasköpun eftirsóknarverðari.
Auk þess hyggst ríkisstjórnin leggja fram svonefnt „Airbnb-frumvarp“ sem takmarkar skammtímaleigu við lögheimili og eina aðra fasteign utan þéttbýlis. Það er þó ekki ný aðgerð, því áður hafa þessi áform verið kynnt af ríkisstjórninni.
Draga úr vægi verðtryggingar
Ríkisstjórnin boðar ekki beinar aðgerðir til að bregðast við vaxtadómi Hæstaréttar, sem úrskurðaði að loðin ákvæði lánasamninga sem gera bönkum kleift að byggja vaxtaákvarðnir sínar á huglægum þáttum væru ólögmæt.
Ríkisstjórnin segist þó vera í samstarfi við Seðlabanka Íslands til að eyða þessari óvissu, og vonast er til að ný viðmið verði birt á næstu dögum, sem geti legið til grundvallar verðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum.
Í kjölfar vaxtamálsins hefur myndast talsverð óvissa á lánamarkaði og hafa nokkrar lánastofnanir tímabundið stöðvað veitingu verðtryggðra íbúðalána á meðan unnið er að því endurskipuleggja lánaframboð sem samræmist lögum.
Í framhaldinu hyggst ríkisstjórnin draga skipulega úr vægi verðtryggingar á Íslandi. Daði Már sagði verðtrygginguna „barn síns tíma“ og að hún drægi úr krafti stýrivaxta Seðlabankans.
Nýjar reglur um lágmarkshraða afborgana verða kynntar og taka gildi 1. janúar 2027. Stefnt er að því að þessi breyting fari fram með góðum fyrirvara og að önnur, öruggari lánaform komi í stað verðtryggðra lána. „Þetta er eitt skref á vegferðinni,“ sagði Daði en bætti við að sýnin væri skýr.
Styðja við nýtt fjögur þúsund íbúða hverfi
Ríkisstjórnin boðar líka talsverðar breytingar á stjórnsýslu húsnæðismála. Tugmilljarða eignir Húsnæðissjóðs verða seldar til að lækka skuldir ríkisins og áform eru um lagabreytingar sem fela í sér skráningarskyldu leigusamninga og sameiningu Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Þá er liður í áætlunum að hraða uppbyggingu á 4.000 íbúða hverfi í Úlfarsárdal. Það verður byggt upp í sérstöku innviðafélagi. Samkvæmt kynningunni er meginforsenda þessarar uppbyggingar sú að íbúðirnar muni að mestu leyti henta ungu fólki og fyrstu kaupendum. Ríkið ætlar að veita stofnframlög til þessarar uppbyggingar og hlutdeildarlán eiga svo að nýtast þeim sem kaupa þær.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri tók þátt í fundinum þegar þessar aðgerðir voru kynntar. Hún og Inga þökkuðu hvor annarri fyrir samstarfið við vinnslu tillagnanna. Inga sagði upbyggingu í Úlfarsárdal væri fyrsta skref þess samkomulags sem meirihlutinn í borginni hefði sammælst um, þegar Flokkur fólksins gekk til liðs við Samfylkingu, Sósíalista og Vinstri græna í nýjum meirihluta í borgarstjórn í febrúar.
Hækka stofnframlög
Ríkisstjórnin hyggst samhliða þessu öllu hækka stofnframlög til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga, eins og þess sem standa á að nýja hverfinu í Úlfarsárdal, úr 30 prósent í 35. Markmiðið er að tryggja að framlögin nýtist að fullu til uppbyggingar fleiri almennra íbúða á viðráðanlegu verði.
Viðbótarframlag ríkisins vegna íbúða fyrir námsmenn, öryrkja og félagsíbúða sveitarfélaga hækkar svo líka úr fjórum prósentum í fimm til að hraða uppbyggingu leiguíbúða sem þjóna tekjulægri hópum og draga þannig úr húsnæðisskorti.
„Þetta er fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnar og það kemur annar í byrjun næsta árs,“ sagði Kristrún og sagði að sá pakki ætti að liðka fyrir byggingu nýrra hverfa og uppbyggingu á lóðum í eigu ríkisins. Þá boðaði hún að ríkið myndi breyta húsnæði í sinni eigu í íbúðir. Slíkt verður kynnt síðar.
















































Athugasemdir