Bandaríska innflytjendalögreglan, ICE, hefur handtekið breska álitsgjafann Sami Hamdi, ógilt vegabréfsáritun hans og ætlar að vísa honum úr landi í stað þess að leyfa honum að ljúka fyrirhugaðri fyrirlestraröð í Bandaríkjunum, að sögn embættismanns í Heimavarnarráðuneytinu.
Tricia McLaughlin, upplýsingafulltrúi Heimavarnaráðuneytisins, sagði á samfélagsmiðlinum X að ICE hefði Hamdi í haldi. „Með Trump sem forseta verður þeim sem styðja hryðjuverk og grafa undan þjóðaröryggi Bandaríkjanna ekki leyft að vinna hér eða heimsækja þetta land,” skrifaði hún.
Hamdi flutti ræðu á hátíðarkvöldi Samtaka um samband Bandaríkjanna og íslams (Council on American-Islamic Relations, CAIR) í Sacramento í Kaliforníu á laugardag og átti að tala á öðrum viðburði samtakanna í Flórída í gær. Samtökin, sem eru stærstu hagsmuna- og réttindasamtök múslima í Bandaríkjunum, sögðu í yfirlýsingu að hann hefði verið handtekinn á alþjóðaflugvellinum í San Francisco vegna gagnrýni hans á þjóðarmorð Ísraels í Palestínu.
Íhaldssamir áhrifamenn höfðu hvatt stjórn Trumps til að vísa Hamdi úr landi. Hamdi hefur komið fram sem greinandi og álitsgjafi á breskum sjónvarpsstöðvum og gagnrýnt harðlega þjóðarmorð á Palestínumönnum af hálfu Ísraels. CAIR krafðist lausnar hans á sunnudag og sakaði stjórn Trumps um að hafa handtekið hann vegna gagnrýni hans á ríkisstjórn Ísraels.
Fréttastofa Reuters náði ekki tali af Hamdi. Edward Ahmed Mitchell, aðstoðarframkvæmdastjóri CAIR, sagði að Hamdi hefði áður hafnað því að styðja íslamska vígamenn og að lögfræðingar samtakanna hefðu ekki náð í hann síðdegis á sunnudag.
„Að ræna áberandi breskum múslimskum blaðamanni og stjórnmálaálitsgjafa í fyrirlestraferð um Bandaríkin vegna þess að hann þorði að gagnrýna þjóðarmorð ríkisstjórnar Ísraels er augljós árás á tjáningarfrelsi,” sagði CAIR í yfirlýsingu.
Íhaldskonan Laura Loomer lýsti því á sunnudag yfir að hún ætti heiðurinn af handtöku Hamdi. Loomer, sem er náin Trump Bandaríkjaforseta, þakkaði utanríkisráðherranum Marco Rubio fyrir handtökuna og sagðist hafa tilkynnt honum um ógn af „íslamskri innrás“.
Trump-stjórnin hefur víkkað út skilgreiningar á hryðjuverkamönnum og heitið að leita bæði uppi andfasista, merkta Antifa, og meint stuðningsfólk þeirra. Auk þess hafa meintir fíkniefnasmyglarar verið skilgreindir sem óvinahermenn og lýstir réttdræpir af Bandaríkjaforseta, sem hefur staðið að aflífun á um 40 þeirra með loftárásum á Karíbahafi og Kyrrahafi síðustu vikur.
Síðan í janúar hefur stjórn Trumps hrundið af stað umfangsmiklum aðgerðum gegn innflytjendum, þar á meðal aukinni skimun á samfélagsmiðlum, ógildingu vegabréfsáritana hjá fólki sem hún segir hafa stutt morðið á íhaldssama aktívistanum Charlie Kirk, og brottvísunum nemenda á vegabréfsáritunum og grænkortshafa sem hafa lýst stuðningi við Palestínumenn og gagnrýnt framgöngu Ísraels í stríðinu á Gaza.
Herför Ísraels á Gaza, sem hófst í kjölfar árásar palestínska vígahreyfingarinnar Hamas á suðurhluta Ísraels 7. október 2023, hefur kostað tugþúsundir Palestínumanna lífið og lagt stór svæði í rúst. Ísrael segir að herförin beinist gegn Hamas og að reynt sé að forðast mannfall óbreyttra borgara, en rannsóknarnefnd SÞ taldi í síðasta mánuði að Ísrael hefði framið þjóðarmorð á Gaza. Ísrael hafnar þeirri ásökun.















































Með Donald Trump virðist vera komin önnur sjónarmið en áður tíðkuðust.