Sjávarútvegsfélagið Síldarvinnslan, sem skráð er í kauphöllina, hefur gefið frá sér „jákvæða afkomuviðvörun“ vegna afkomu umfram væntingar.
Í viðvöruninni er boðað að hagnaður verði um 2,4 milljörðum meiri en áður var spáð, eða á bilinu 11,9 til 12,8 milljarðar króna, en ekki 9,6 til 10,4 milljarðar.
„Við vinnu stjórnenda á 9 mánaða uppgjöri félagsins hefur komið í ljós að hagnaður verði nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Helstu ástæður má rekja til betri afurðaverða en áætlanir gerðu ráð fyrir auk þess sem reksturinn hefur almennt gengið vel á árinu og veiðar verið að hluta umfram áætlanir,“ segir í tilkynningu Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, forstjóri félagsins, lýsti því í vor að Síldarvinnslan hefði hagnast um 70 milljarða króna frá árinu 2014, á sama tíma og hann varaði við áhrifum veiðigjalda.
„Það er háð mikil orrahríð gegn sjávarútvegi nú um stundir. Einhverra hluta vegna kjósa ráðamenn að fara fram með vanhugsaðar og illa útfærðar tillögur um skattahækkanir sem ekki þola skoðun, í stað rökstuðnings og gagna. Farið er fram með rangar staðhæfingar um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjárfestingar þeirra gerðar tortryggilegar.“
Þá sagði hann að Síldarvinnslan hefði fjárfest fyrir 80 milljarða króna. Þar af 32 milljarða króna í aflaheimildum og sjávarútvegsfélögum, fyrir 14,4 milljarða í fiskeldisfélaginu Arctic Fish á Vestfjörðum, 19 milljarða í skipum og 14,6 milljarða í fasteignum og tækjabúnaði.















































Athugasemdir