Erfðagreining hefur staðfest að eldislaxar hafa veiðst í sex laxveiðiám allt frá Reykjadalsá í Borgarfirði yfir í Blöndu í Austur-Húnavatnssýslu.
Eftir slysasleppingu laxa í Dýrafirði í ágúst vaknaði grunur um að fjöldi eldislaxa hefðu veiðst í Haukadalsá inn af Hvammsfirði, skammt frá Búðardal. Í ljós hafði komið að gat var á sjókví Arctic Sea Farm „í nokkurn tíma án þess að framleiðandi hafi tilkynnt um tilvist þess til Matvælastofnunar“. Var málið litið „alvarlegum augum“.
Nú hefur rannsókn leitt í ljós að eldislax fannst í Haukadalsá, Hrútafjarðará, Blöndu, Miðfjarðará, Vatnsdalsá og Reykjadalsá í Borgarfirði. Að auki er einn lax sem veiddist í byrjun október í Ytri-Rangá á Suðurlandi, í upprunagreiningu.
Ekkert sjókvíaeldi er í þeim landshlutum þar sem laxveiðiárnar renna til sjávar og er því ljóst að eldislaxinn hefur ferðast langa leið.

Athugasemdir