„Þetta er stærsta breyting á eftirlitsumhverfi fyrirtækja sem ráðist hefur verið í svo áratugum skiptir” segir Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Jóhann Páll ásamt Hönnu Katrínu Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, kynntu í dag á sameiginlegum fundi ráðuneytanna áform um að gera leyfisveitingar og eftirlit með matvælum, hollustuháttum og mengunarvörnum einfaldara og skilvirkara auk þess að bæta þjónustu.
Samræmt eftirlit á landsvísu
Samkvæmt fyrirhuguðum breytingum verður ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum færð frá heilbrigðiseftirliti til Umhverfis- og orkustofnunar og ábyrgð á eftirliti með matvælum færist frá heilbrigðiseftirliti til Matvælastofnunar. Þannig verða eftirlitsaðilar tveir í stað ellefu
Jóhann Páll og Hanna Katrín lögðu áherslu á að markmið breytinganna væri ekki fækkun eða tilfærsla opinberra starfa milli landshluta. Þvert á móti verði lagt upp með að standa vörð um störfin á landsbyggðinni og leitast við að tryggja að störfin haldist í heimabyggð. Eftirlit á landsvísu verður samræmt og þjónusta þannig bætt til muna. Þá verður útgáfa starfsleyfa miðlæg og á vegum fyrrgreindra stofnana.
Meginhvatinn einföldun og skilvirkni
Þau sögðu að meginhvatinn við fyrirhugaðar breytingar sé að gera ferli vegna eftirlits og leyfisveitinga einfaldara og skilvirkara og bæta þjónustu. Lengi hefur verið bent á að núverandi fyrirkomulag sé flókið að uppbyggingu, ábyrgðarsvið sé á tíðum óljóst, oft sé ósamræmi í aðferðarfræði og erfitt fyrir þjónustuþega að nálgast upplýsingar. Á undanförnum árum hafi fjöldi greininga og skýrslna varpað ljósi á að breytinga sé þörf.
„Við erum að einfalda regluverkið og gera eftirlit með matvælum, hollustuháttum og mengunarvörnum traustara og skilvirkara með hagsmuni atvinnulífsins og neytenda að leiðarljósi” sagði Hanna Katrín.
Langur aðdragandi og áminning
Málið á sér langan aðdraganda og framkvæmd eftirlits með matvælum hefur verið til skoðunar í meira en áratug. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur í formlegu áminningarbréfi bent á að fyrirkomulag matvælaeftirlits á Íslandi standist ekki kröfur EES-samningsins. Helstu áhyggjuefni varða skort á samræmi, skýrri ábyrgð og yfirstjórn eftirlits.
Áform ráðherranna byggja meðal annars á vinnu stýrihóps sem skipaður var fulltrúum ráðuneytanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Samtaka atvinnulífsins og innviðaráðuneytisins. Þá sátu áheyrnarfulltrúar frá Matvælastofnun og Umhverfis- og orkustofnun einnig fundi hópsins og tóku virkan þátt í rýni. Áformaskjal verður lagt fram í samráðsgátt síðar í þessari viku þar sem hægt er að senda inn umsagnir.
Skýrslu stýrihópsins má lesa með því að smella hér.
Athugasemdir