Það mikilvægasta sem ég hef lært er að byrja á að bjarga sjálfum mér og mínum nánustu áður en heiminum skal bjargað. Það getur verið erfitt að sitja aðgerðalaus hjá þegar óréttlætið í heiminum er yfirgengilegt. En stundum er betra heima setið en af stað farið, að horfa til þess sem raunverulega er hægt að hafa áhrif á.
Ég ólst upp á gestkvæmu pólitísku heimili þar sem talað var um stjórnmál frá morgni til kvölds. Það voru bara tvær óskráðar reglur um það hvenær stjórnmál skyldu ekki rædd. Undir fréttatímum útvarps og sjónvarps skyldi ríkja algjör þögn og hlustað af athygli. Engan skyldi heldur trufla þegar Morgunblaðið var lesið spjaldanna á milli.

Foreldrar mínir þoldu ekki óréttlæti og yfirgang. Þegar maður tekur þann vegvísi með sér inn í lífið og brennur fyrir réttlæti og betri heimi er erfitt að sitja hjá. Um leið og flutt var á mölina og tækifæri gafst til fór ég að taka virkan þátt í ungliðastarfi stjórnmálaflokks og stúdentapólitíkinni. Jafnt nótt sem nýtan dag var unnið að bættum hag stúdenta. Hugtökin manngildi, frelsi og atorka voru höfð að leiðarljósi. Hagur heildarinnar var hafður í forgrunni miklu frekar en minn eigin.
Frá því að ég kom loksins út úr skápnum liðu ekki nema nokkrar vikur þar til ég var farinn að taka virkan þátt í mannréttindabaráttu Samtakanna ’78 og stofnaði ásamt fleirum Félag samkynhneigðra stúdenta. Við virkjuðum á þriðja hundrað félagsmanna til verka. Heilu misserin var unnið dag og nótt að réttarbótum og viðhorfsbreytingum í samfélaginu. Það tókst eftir erfiðar glímur við þingheim, kirkju og suma fjölmiðla. En þó að sigrarnir séu sætir þá ganga allir sárir frá slíkum bardaga.
„Það sem ég hef hins vegar lært er að það sem skiptir mestu máli er að huga að þeim sem næst manni standa og undirbúa þau fyrir lífið
Lektorsstarf við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands leiddi mig strax til þátttöku í jafnréttisnefnd háskólans. Við tók viðamikið verkefni að útvíkka jafnréttisstefnuna þannig að hún yrði að mannréttindastefnu sem næði til allra hópa háskólasamfélagsins. Í kjölfarið fylgdi Reykjavíkurborg og fjölmargir aðrir aðilar og mótuðu mannréttindastefnu fyrir alla þá ólíka hópa sem mynda samfélagið.
En hugurinn fer að leita til þess sem mestu máli skiptir fyrir mann sjálfan og þá sem næst manni standa. Það er sjálfhvert hugarfar, en hvernig á að vera hægt að bjarga öðrum án þess að hugsa fyrst um sjálfan sig og sína nánustu?
Þegar hrunið skall á og nær allt samfélagið fór á hvolf tókum við Felix þá ákvörðun að passa enn betur upp á að eyða sem mestum tíma með unglingunum okkar. Á leið heim úr skólanum var þeim brugðið við að horfa á elda loga í miðbænum og rúður brotnar í Alþingishúsinu. Við lögðum okkur fram um að sitja saman við morgunverðarborðið, vera heima þegar þau komu úr skólanum, borða kvöldmat og eyða kvöldunum með þeim. Lykilatriðið var að hlusta ekki á fréttatímana í samverustundum. Það var erfitt fyrir fréttafíkilinn sem ólst upp við það að steinþegja yfir hverjum einasta fréttatíma.
Við höfðum reyndar gert slíkt hið sama eftir árásina á tvíburaturnana í New York. Ég man enn eftir því að hafa slökkt á sjónvarpinu um leið og krakkarnir komu heim úr skólanum 11. september 2001 og að taka þá ákvörðun að hlusta ekki á fréttir með þeim næstu dagana. Nóg var nú samt umrótið. Um daginn kom það upp úr kafinu að dóttir okkar sem er manna minnugust man ekki eftir árásunum. Hún fór ekki á mis við neitt.

Þetta þýddi þó engan veginn að blessuð börnin væru vafin inn í einhverja bómull. Þau máttu þola það að á meðan vinir þeirra fóru á sólarstrendur í sumarfríum voru þau dregin á söfn til minningar um barnauppreisnina í Soweto í Suður-Afríku og helförina í Þýskalandi. Ég held að þau hafi líka lært ýmislegt í Pride-göngum hér heima og erlendis – þar sem saman fer gleði yfir þeim árangri sem hefur náðst með mikilvægum pólitískum skilaboðum. Þessar heimsóknir voru á okkar eigin forsendum og höfðu mikil áhrif á unga fólkið.
Ég er löngu hættur að kveikja á fréttatíma Ríkisútvarpsins yfir kvöldmatnum. Það er ekki hægt að eiga uppbyggilega samverustund með barnabörnum undir stöðugum fréttum af ódæðisverkum. Það þýðir samt ekki að við stingum hausnum í sandinn yfir ólýsanlegri skelfingu á Gaza og Úkraínu og annars staðar í heiminum.
Hvað getum við gert? Við getum að sjálfsögðu haldið áfram að þrýsta á íslensk stjórnvöld að gera eitthvað sem einhverju nemur í þessum málum. Við getum talað fyrir mannréttindum í tíma og ótíma á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Rétt eins og fíkill fellur maður svo reglulega og fer enn eina ferðina að taka virkan þátt í stjórnmálum og mannréttindabaráttu til að bjarga heiminum. Það sem ég hef hins vegar lært er að það sem skiptir mestu máli er að huga að þeim sem næst manni standa og undirbúa þau fyrir lífið. Þannig að þau geti tekist á við óvæginn heim og komist klakklaust frá þeirri glímu.
Athugasemdir