Sex íbúðir munu rísa á grasbala á horni Krummahóla og Vesturhóla í Efra-Breiðholti en íbúar við Krummahóla segjast fyrst hafa heyrt af áformunum nú í júní.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar segir hins vegar að reglulegt samráð um uppbyggingu í Breiðholti hafi farið fram síðan 2015 en stærsti hlutinn átti sér stað sumarið 2020 þegar Covid-19 heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Engar athugasemdir hafi borist varðandi Krummahóla í öllu ferlinu.
Þann 18. júní síðastliðinn fengu íbúar Krummahóla 1 til 29 bréf frá umhverfis- og skipulagssviði um að arkitektar myndu ganga í hús 23. júní til að kynna tillögurnar. Nágrannarnir tóku á móti arkitektunum á reitnum sjálfum og ræddu við þau sem einn hópur.
Tveimur dögum eftir heimsókn arkitektanna voru áformin kynnt kjörnum fulltrúum í umhverfis- og skipulagsráði og degi síðar birti Reykjavíkurborg frétt um víðtæka uppbyggingu í Breiðholti sem var sögð unnin „í samráði við íbúa og hagaðila í Breiðholti“.
Þar kom fram að samkvæmt hverfisskipulagsuppdrætti hafi staðið til að byggja 12 íbúðir á þessum reit en að nú yrðu þær sex fjölskylduvænar íbúðir í formi rað- og parhúsa á tveimur hæðum og byggingarmagn minnkað úr 1.472 m² í 810 m².

Kom íbúum í opna skjöldu
Helga Björnsdóttir hefur búið í húsi við Krummahóla í tuttugu ár. Hún segist hafa komið af fjöllum með þessi áform borgarinnar og ekki heldur kannast við að áður hafi til staðið að byggja tólf íbúðir á reitnum.
„Það var ekki búið að segja okkur neitt og þetta mikla samráð við fólk er eitthvað málum blandið,“ segir hún. „Við vissum ekki að það ættu að koma neinar íbúðir hérna. Þetta er bara hóll og þegar við fluttum hingað var trjágróður uppi á hólnum. Það var mikið af krökkum hérna og þau léku sér þarna.“
„Innviðirnir í hverfinu þola ekki mikið meira“
Síðan þá hafi reitnum að hluta til verið breytt í bílastæði. „Fyrir nokkrum árum settu þau upp rafmagnshleðslustöð sem er mikið notuð. Fólk getur lagt bílunum sínum þarna og þó að það sé falleg hugsun og þörf að fækka bílunum þá þarf eitthvað að koma á móti. Það eru engir merkilegir hjólastígar hérna inni í hverfinu og það er ekkert gert í því að koma samgöngunum í almennilegt form. Það er eins og það sé byrjað á öfugum enda. Innviðirnir í hverfinu þola ekki mikið meira.“
Helga segir bréfið um heimsókn arkitektanna hafa komið íbúum í opna skjöldu og að nágrannarnir hafi talað sig saman. „Það var hiti í fólki,“ segir hún. „Okkur var sagt að fylgjast með á samráðsgáttinni og senda inn ábendingar. Þetta er allt saman eldra fólk sem er ekki á samfélagsmiðlum. Meirihluti íbúanna hérna er af erlendu bergi brotinn og fylgist líklega ekki vel með samráðsgátt Reykjavíkurborgar.“
Hún segir að íbúum líði eins og þeim sé stillt upp við vegg. „Þau segja að tillögurnar hafi verið sýndar í Mjódd og fundað um þær í Gerðubergi en það var á Covid-tímanum,“ segir Helga.
Skoðar að flytja burt
María Ásgeirsdóttir hefur búið í götunni frá 1990. „Ég hef alið upp börnin mín hérna og barnabörnin leika sér í garðinum hjá mér. Ég er ekki að fara að vera með börnin hérna með byggingakrana í garðinum. Þetta er mikil ógn,“ segir hún.
„Ég bý akkúrat við hliðina á þessu,“ segir María um byggingarsvæðið. „Þetta er alveg upp við mig og á eftir að hafa mikil áhrif því ég get ekki notið þess að vera úti í garði. Það á að vera bílastæði alveg við grindverkið hjá mér. Fyrir mér eru þetta eignaspjöll og ég er mjög ósátt.“

María segir að bréfið frá umhverfis- og skipulagssviðið hafi komið henni að óvörum. „Okkur var tjáð að þetta hefði verið kynnt áður. En þetta var aldrei kynnt fyrir okkur og enginn vissi um þetta,“ segir hún um heimsókn arkitektanna.
„Þetta er fjölmennasta hverfið í Reykjavík og þau ætla að auka enn við“
„Ég spurði ítrekað hvað við gætum gert. Okkur var sagt að þetta færi í gáttina hjá Reykjavíkurborg og þar gætum við skrifað kvörtunarbréf. En meirihlutinn af fólkinu sem býr hérna í götunni er ekki að fara að skrifa bréf. Þetta eru eldri borgarar, öryrkjar og útlendingar. Mér finnst vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur fyrir sex íbúðir.“
María segist vona að hlustað verði á íbúana. „Þetta er fjölmennasta hverfið í Reykjavík og þau ætla að auka enn við,“ segir hún. „Ég er ekki viss um að ég geti hugsað mér að búa hérna og er farin að skoða fasteignaauglýsingar. Þetta kemur það mikið við mig. Svona rask tekur tíma og framkvæmdirnar eru við gluggann hjá mér.“
Tveir fasar samráðs frá 2015
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og skipulagssviði hófst fyrsti fasi samráðs hverfisskipulags í Breiðholti í september 2015 og stóð fram til vorsins 2017. Þá hafi verið haldnir íbúafundir og Gallup myndað fimm rýnihópa.
„Allir þessir viðburðir voru auglýstir í útvarpi, á heimasíðum, Facebook og fjölmiðlum“
Annar fasi samráðsins hafi staðið frá 15. júlí til 31. ágúst árið 2020. „Markmiðið annars fasa samráðsins var að gefa íbúum tækifæri til þess að bregðast við og betrumbæta vinnutillögurnar sem byggðu á ábendingum og athugasemdum íbúa sem fram komu í fyrsta fasa samráðsins,“ segir í svari umhverfis- og skipulagssviðs. „Tillögurnar voru kynntar á kynningarsíðu, með sýningu á tillögunum í Gerðubergi og í göngugötunni í Mjódd. Einnig var farið í hverfisgöngur um þau svæði sem snertu vinnutillögurnar. Kynningarfundir voru haldnir í streymi vegna Covid-19. Allir þessir viðburðir voru auglýstir í útvarpi, á heimasíðum, Facebook og fjölmiðlum. Einnig var kynningarbæklingi dreift í hús.“
Engar athugasemdir frá Krummahólum
Hverfisskipulag fyrir Efra-Breiðholt tók formlega gildi 4.maí 2022 að því fram kemur í svari borgaryfirvalda. Síðan hafi verið ákveðið að kynna íbúum Krummahóla áformin með heimsóknum arkitektanna nú í júní. „Við vildum kynna þessar tillögur sérstaklega fyrir íbúum sem búa næst þessum reitum til að fá tækifæri til að útskýra hugmyndirnar vel og til að heyra þeirra skoðanir og benda þeim á í hvaða ferli þau geta beint sínum athugasemdum,“ segir í svarinu.

Í svarinu kemur einnig fram að engar athugasemdir hafi komið varðandi Krummahóla í öllu ferlinu. „Í samráðsferli hverfisskipulags við íbúa Efra-Breiðholts og þá þar með talið íbúa Krummahóla, var reynt að ná til sem flestra í öllu hverfinu,“ segir í svarinu. „Íbúum Krummahóla gafst tækifæri til að rýna, skoða og koma með athugasemdir við fyrirhuguðum skipulagsbreytingum er snerta þeirra nærumhverfi eins og öllum öðrum íbúum í hverfinu.“
Athugasemdir