K
arl Héðinn Kristjánsson, stjórnarmaður í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins, hefur sagt af sér sem forseti ROÐA, ungliðahreyfingar flokksins.
Hann tekur ekki fram hvort hann muni halda áfram í framkvæmdastjórn flokksins.
Karl Héðinn tilkynnti um þetta á Facebook síðu sinni í dag. „Ég vil hér með tilkynna að ég hef stigið til hliðar sem forseti ROÐA,“ skrifar Karl Héðinn. „Sú ákvörðun var tekin eftir umhugsun og með hagsmuni hreyfingarinnar að leiðarljósi. Ég er ótrúlega stoltur af því sem við höfum byggt saman undanfarin ár, og þakklátur fyrir samstarfið, baráttuna og traustið sem mér hefur verið sýnt.“
Karl Héðinn greindi frá því nýverið að hann hefði átt í sambandi við unga konu þegar hann starfaði innan ungliðahreyfingar Pírata. „Á síðustu vikum hefur komið upp umræða vegna sambands sem ég átti, þegar ég var 22 ára gamall, við töluvert yngri manneskju. Þetta samband átti sér stað utan vettvangs ROÐA og löngu áður en ég tók að mér forystuhlutverk í félaginu. Enginn innan hreyfingarinnar hefur lýst neikvæðri reynslu af mér, en ég geri mér grein fyrir því að sambandið og þögn mín um það hefur vakið gagnrýni og óöryggi, sérstaklega í hreyfingu sem leggur áherslu á jafnrétti, öryggi og traust,“ skrifar hann.“
„Mér finnst mikilvægt að segja þetta skýrt: Ég hef aldrei litið á neina manneskju sem „auðveldan feng“ né ætlað mér að nýta aðstæður mér í hag. Þótt það hafi aldrei verið ætlunin geri ég mér nú betur grein fyrir því hvernig slíkt samband getur vakið áleitnar spurningar og það ber að taka alvarlega. Ég geri mér jafnframt grein fyrir því að dómgreind mín hefði átt að vera betri á sínum tíma og að þögn mín um sambandið í upphafi þátttöku minnar í ROÐA hefur valdið skiljanlegu óöryggi,“ bætir Karl Hérðinn við.
Eins og áður segir tekur Karl Héðinn ekki fram hvort hann muni sitja áfram í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins. „Ég lít svo á að ábyrgð felist ekki aðeins í gerðum, heldur líka í gagnsæi, viðkvæmni og viljanum til að læra og vaxa,“ skrifar hann. „Ég harma mjög að aðrir upplifðu vanlíðan í tengslum við þetta mál og vona að þessi yfirlýsing skýri afstöðu mína og fyrirætlanir. Framtíð mín liggur áfram í félagslegri baráttu, en ég mun nú beina athygli minni að öðrum sviðum, leggja mitt af mörkum með nýjum hætti og einbeita mér að því sem ég get best. Bæði innan flokksins og í öðrum félagslegum og skapandi verkefnum. Með hlýju og von um samstöðu í áframhaldandi baráttu.“
Athugasemdir