Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fær um 3,1 milljón króna í greiðslur frá Alþingi frá deginum í dag þar til næsta þing er sett í september. Allan þann tíma verður hún stödd erlendis í námi.
Alþingi var frestað í gær eftir óvenjulangt vorþing. Eins og Heimildin greindi frá í síðustu viku víkja varaþingmenn og allir þjóðkjörnir þingmenn taka sæti aftur að þingi loknu og fá greitt þingfararkaup, Áslaug Arna þar meðtalin, fram að 157. löggjafarþingi sem hefst 9. september samkvæmt starfsáætlun.
Þingfararkaup er 1.611.288 kr. á mánuði og fær Áslaug Arna greiddan fastan ferðakostnað í kjördæmi upp á 43.500 kr. og fastan starfskostnað upp á 58.000 kr. hvern mánuð.
Fær hún því í kringum 3,1 milljón króna í greiðslur frá Alþingi þar til varaþingmaðurinn Sigurður Örn Hilmarsson tekur sæti hennar 9. september ef allt gengur eftir.
Áslaug Arna tilkynnti í vor að hún mundi taka sér leyfi í níu mánuði til að leggja stund á MPA nám við Columbia háskóla. Hún hafði í febrúar beðið lægri hlut í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins gegn Guðrúnu Hafsteinsdóttur.
Hún hafði þegar fengið nokkurra daga laun í júlí þrátt fyrir að vera farin til New York borgar en varaþingmaður tók sæti hennar á fimmta virka degi eftir að hún var flogin út. Munar þar um nokkur hundruð þúsunda króna í greiðslur til Áslaugar Örnu. Hún hafði þá raunar verið skráð fjarverandi við allar atkvæðagreiðslur á Alþingi frá 20. júní.
Athugasemdir