Meirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur í nefndaráliti lagt til að breyta tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og ráðherra; hann vill taka Kjalölduveitu úr verndarflokki og setja í biðflokk. Ef þetta gengur eftir hefur ný ríkisstjórn glatað tækifæri til að sýna að hún tekur náttúruvernd alvarlega. Varanleg og víðtæk vernd Þjórsárvera hefur verið baráttumál í yfir hálfa öld. Það er í raun ótrúlegt að enn skuli ekki hafa náðst víðtæk samstaða um að slá skjaldborg um þetta einstaka svæði.
Rökstuðningur meirihlutans fyrir að fara ekki að leiðsögn þeirra sem best til þekkja er að skýrleika skorti á að málsmeðferðarreglum laga um rammaáætlun hafi verið fylgt. Verði þetta samþykkt verður það í annað sinn sem Alþingi hindrar frekari vernd Þjórsárvera og skapar óvissu um framtíð veranna, og veikir forsendur fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs. Þessi afgreiðsla er vísbending um að náttúruvernd standi veikum fótum hjá nýrri ríkisstjórn gegn ofurvaldi virkjunaraflanna. Er nefndarafgreiðsla málsins atlaga að verunum eða afleikur sem tekst að leiðrétta?
Þjórsárver eru þjóðargersemi
Það er rík ástæða til að vernda Þjórsárver. Þau eru veröld andstæðna. Jökullinn og vatnið sem frá honum streymir sem ár, lækir, kvíslar og tjarnir, eru lífæð gróðurs og dýra. Á þeim svæðum sem lífæðin nær ekki til gapa auðnir og eyðimörk. En í verunum er gróður hins vegar samfelldur, öflugur og fjölbreyttur og fuglar fylla loftin. Víða undir gróðrinum er sífreri sem mótar fagurt munstur í landinu. Landslagið er stórfenglegt! Kerlingarfjöll í vestri, bungur Hofsjökuls í norðri og austar Arnarfell hið mikla. Sprengisandur og Tungnafellsjökull taka við þegar litið er til austurs. Í fjarska gnæfa Vatnajökull og Hágöngur sem vörður í landinu. Þetta eru mögnuð víðerni. Í greiningu rammaáætlunar voru verin metin sem eitt af verðmætustu svæðum hálendisins. Að hjarta Þjórsárvera fara ekki margir, en í jaðrinum er talsverð umferð. Verin gætu orðið einn af hornsteinum Hálendisþjóðgarðs. Ef marka má þar til bæra erlenda sérfræðinga, gæti svæðið og umhverfi þess átt heima á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna ásamt Þingvöllum, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarði.
„Í anddyri veranna verði komið fyrir nýju, gruggugu uppistöðulóni og vatn tekið af Dynk, einum glæsilegasta fossi landsins
Verði Kjalölduveita að raunveruleika er árfarvegi Þjórsár raskað og röskun vegna virkjana sem fram til þessa hefur verið bundið við landið austan árinnar færist yfir á vesturbakkann. Dyrnar til að reisa frekari mannvirki vestan við Þjórsá verða opnaðar. Í anddyri veranna verði komið fyrir nýju, gruggugu uppistöðulóni og vatn tekið af Dynk, einum glæsilegasta fossi landsins, og tveimur öðrum stórfossum Þjórsár. Náttúruverndarfólki er því verulega brugðið við þau tíðindi sem berast frá ríkisstjórnarflokkunum.
Boðið upp á áframhaldandi átök
Verkefnastjórnir bæði þriðja og fimmta áfanga rammaáætlunar komust að þeirri niðurstöðu að Kjalölduveita væri einfaldlega ný útgáfu af Norðlingaölduveitu sem búið var að afgreiða í verndarflokka af Alþingi eftir annan áfanga rammaáætlunar árið 2013. Áhrifasvæði sem um ræðir væri svo verðmætt og áhrif mannvirkja svo neikvæð að það ætti heima í verndarflokki.
Landsvirkjun hefur, þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu, haldið Kjalölduveitu til streitu og beitt sér af þunga gagnvart stjórnvöldum og þingmönnum í því skyni að ná sínu fram. Þessi þrýstingur Landsvirkjunar og hræðsluáróður um yfirvofandi rafmagnsskort, gæti hafa átt þátt í því að ríkisstjórnarflokkarnir tóku þessa afstöðu. Til að réttlæta afstöðuna segir í umsögn meirihlutans, að líta beri á Kjalölduveitu sem sjálfstæðan virkjunarkost sem skuli fá fulla málsmeðferð hjá öllum faghópum rammaáætlunar og verkefnisstjórn. Það hafi ekki verið gert. Ekki er í umsögninni tilgreint hvaða lagagrein meirihlutinn telur að verkefnisstjórn rammaáætlunar hafi hunsað. Sú greinin er heldur ekki auðfundin við lestur laganna. Þá ber þess að geta að ráðuneyti umhverfismála vísaði viðlíkri gagnrýni á bug þegar hún fyrst kom fram við afgreiðslu á rammaáætlun 3.
Baráttan um verndun Þjórsárvera hófst fyrir liðlega hálfri öld. Með vel rökstuddri tillögu verkefnisstjórnar og tillögu ráðherra til Alþingis stóðu vonir til að friður hefði loks skapast um þessa hálendisvin. Ætla ríkisstjórnarflokkarnir að missa af þessu tækifæri?
Áhrifasvæði Kjalölduveitu, anddyri Þjórsárvera, verður nú ef að líkum lætur flutt úr verndarflokki í biðflokk. Verði það niðurstaða Alþingis bjóða ríkisstjórnarflokkarnir upp á áframhaldandi átök um verndun Þjórsárvera.
Athugasemdir