Breska dagblaðið The Guardian og franska fréttaveitan AFP hafa fjallað um vanda Climeworks sem Heimildin greindi frá sem og fréttastofa Svissneska ríkissjónvarpsins SRF sem greindi frá því fyrir helgi að Climeworks hafi tilkynnt um hópuppsagnir í vikunni.
Þá hefur annar stofnandi Climeworks og forstjóri, Jan Wurzbacher, birt færslu á Linkedin þar sem hann upplýsir að loftsuguverið ORCA hafi fangað innan við þúsund tonn af CO2 á síðasta ári og á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Fyrirtækið hefur gætt þess vandlega að halda því til haga í öllu kynningarefni og fjölmiðlaviðtölum að vélin geti fangað 4000 tonn, en frá upphafi hefur hún aðeins náð innan við einum fjórða af því magni. Það sama á við um loftsuguverið Mammoth sem átti að geta fangað 36.000 tonn árlega, en fangaði einungis 105 tonn á fyrstu tíu mánuðunum eftir að það var opnað. Bæði ORCA og Mammoth eru í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði.
Athugasemdir