Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovison, var kölluð þjóðhátíð í íslenskum fjölmiðlum í aðdraganda þess að Ísland tók þátt í fyrsta skiptið árið 1986 með laginu Gleðibankinn. „Ég er ekki frá því að Gleðibankinn eigi eftir að fara sigurför um heiminn,“ sagði í fjölmiðlapistli DV tveimur mánuðum fyrir keppnina þar sem fyrirsögnin var: „Gæti jafnvel unnið Eurovision.“
Íslendingar voru stórhuga sem endranær. Það var sannkölluð þjóðhátíð í hvert skipti sem Eurovision var haldið; götur Reykjavíkurborgar voru tómar því allir voru heima að horfa á „okkur“ keppa til sigurs. Ýmsum veitingastöðum var lokað meðan á keppninni stóð „en annars staðar urðu menn sér úti um sjónvarpsskerm og sátu matargestir og fylgdust spenntir með yfir súpudiskunum“, að því er segir í umfjöllun DV eftir að Gleðibankinn var í beinni útsendingu frá Bergen, og Íslenska óperan aflýsti sýningu á Il Trovatore þetta kvöld. Ég á æskuminningu af ilminum af hvítlaukssmjöri þegar mamma eldaði humar því við vorum að fara að horfa á Eurovision. Það voru næstum því jólin.
„Tíminn líður hratt á gervihnattaöld
Hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld
Ertu stundum hugsandi yfir öllum gulu miðunum
Þú tekur kannski of mikið út úr Gleðibankanum“
Endurreisn Evrópu
Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, sem stendur fyrir keppninni, var stofnað árið 1950 með það að markmiði að efla samvinnu milli opinberra fjölmiðla í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina þegar Evrópa þurfti á sameiningartákni að halda til að styrkja bönd fyrrum óvina. Það má því rekja upphaf Eurovison til endurreisnar Evrópu á rústum stríðsátaka og þjóðarmorðs.
Fyrsta söngvakeppnin var haldin árið 1956 og var sýnd á sjónvarpsstöð sambandsins, Eurovison, og bar þá heitið Eurovision Song Contest Grand Prix. Á rásinni var til að mynda sýnt frá íþróttamótum, leikritum og söguþáttum. Dagskránni var ætlað að höfða til allrar Evrópu en vinsældirnar voru takmarkaðar – þar til söngvakeppnin var haldin. Í dag tengjum við nafnið Eurovision mun frekar við keppnina sjálfa en samnefnda sjónvarpsstöð þar sem hún var upphaflega sýnd.
Sambandið heimilar mun fleiri þjóðum en þeim sem tilheyra Evrópu að taka þátt í keppninni, löndum sem tengjast Evrópu á einhvern hátt, til að mynda í gegnum söguna, menningu eða fjölmiðlasamstarf. Þannig taka í dag þátt í keppninni lönd á borð við Armeníu, Ástralíu og Ísrael.
Helför þá og nú
Ísraelsríki var stofnað 14. maí 1948. Í gær, 15. maí, var alþjóðlegur minningardagur um Nakba, eða Hörmungarnar. Nakba markaði upphaf þjóðernishreinsana á Gaza og stríðsglæpa Ísrael. Fyrir tveimur árum, á 75 ára minningarafmæli Nakba, samþykktu níutíu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að minnast Nakba. Þrjátíu voru á móti, fjörutíu og sjö sátu hjá – þar á meðal Ísland. Fyrir Palestínumenn er Nakba ekki ein dagsetning: Nakba stendur enn yfir.
Þegar Ísrael lýsti yfir sjálfstæði árið 1948 töldu margir gyðingar að þar rættust nær 2.000 ára draumar um að snúa aftur til lands sem þeir höfðu verið reknir frá af Rómverjum. Helförin í síðari heimsstyrjöldinni hafði aukið alþjóðlega samúð með gyðingum og stuðning við stofnun ríkis þeirra.
En fyrir palestínska araba markaði þessi yfirlýsing upphaf mikilla hörmunga. Tugir og hundruð þúsunda höfðu þegar verið hraktir frá heimilum sínum í aðdraganda sjálfstæðisyfirlýsingarinnar, og þegar Bretar drógu sig formlega út úr Palestínu daginn eftir, brutust út átök milli hins nýstofnaða Ísraelsríkis og nágrannaríkja Araba. Herir frá Egyptalandi, Sýrlandi, Jórdaníu og Írak gripu inn í átökin, en markmið þeirra var að koma í veg fyrir að ríki gyðinga festi rætur á landi sem þegar var byggt af palestínsku samfélagi. Palestínumenn voru lítt búnir undir átök og voru yfir 700 þúsund manns hrakin burt eða flúðu heimili sín. Þetta var byrjunin. Nakba.
Að mati Ísrael markaði árið 1948 hetjulega baráttu fyrir tilverurétti gyðinga eftir helförina og margra áratuga ofsóknir í Evrópu og víðar. Það sem Palestínumenn kalla Hörmungarnar kalla Ísraelar Sjálfstæðisstríðið.
„Þú skalt syngja lítið lag
Um lífsgleðina sjálfa í brjósti þér
Og láttu heyra að þú eigir litið gleðihús
Kósi lítið lag, sem gæti gripið mig og hvern sem er
Þú leggur ekki inn í Gleðibankann tóman blús“
Viðrar vel til loftárása
Það var líkt og margir Íslendingar vöknuðu upp af draumi þegar meðlimir Hatara héldu uppi Palestínufána í beinni útsendingu Eurovison frá Tel Aviv þegar tilkynnt var um úrslit í símakosningunni árið 2019. Palestína hvað? Þeir höfðu þó áður opinberlega gagnrýnt Ísraelsstjórn áður en þeir fóru út og lýstu sig andsnúna hernáminu á Vesturbakkanum og hernaðaraðgerðum á Gaza. Það höfðu margir aðrir líka gert, og jafnvel var hvatt til sniðgöngu keppninnar sem þarna var haldin í landi sem stóð í stríði.
Meðlimir Hatara voru ýmist lofaðir eða fordæmdir fyrir gjörninginn, sem vakti athygli um allan heim. RÚV hafði ítrekað við Hatara að ekki mætti vera með pólitísk skilaboð í keppninni. Stuttu eftir að myndunum hafði verið sjónvarpað um alla Evrópu mættu öryggisverðir og heimtuðu að Hatari afhenti borðana.
Menningarmálaráðherra í Ísrael sagði við fjölmiðla að hún teldi uppátækið hafa verið mistök af hálfu Hatara og bætti við að pólitík og menningu ætti ekki að blanda saman. Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva fordæmdu jafnframt gjörninginn og sagði hann brot á reglum keppninnar. Á sama tíma viðraði hins vegar vel til loftárása.
„Hatrið mun sigra
Evrópa hrynja
Vefur lyga
Rísið úr öskunni
Sameinuð sem eitt“
Hashtag-samstarf
Í ár eru það ungir menn sem kalla sig VÆB sem eru fulltrúar Íslands í keppninni og þeir syngja um að róa á bát í gegnum öldurnar þar sem ekkert getur stoppað þá. Þeir eru hressir og skemmtilegir, ekki með neitt pólitískt vesen. Rétta væb-ið, segja sumir. Ísland komst áfram úr undankeppninni í vikunni og keppir á laugardag. Hagkaup kynnti til leiks samstarf milli verslunarinnar og VÆB með það að markmiði „að skapa Eurovision-stemningu í hæsta gæðaflokki“, en samstarfið snýr að svonefndri VÆB-kistu sem fæst í verslunum Hagkaups og inniheldur meðal annars heita ídýfu með rjómaosti, salsasósu ásamt úrvali af snakki og ostum.
Þá birtist frétt í vikunni á mbl.is með fyrirsögninni „Eurovision-partí sprengja snakksöluna“ þar sem fjallað er um að kaupmenn séu ekki síst þeir sem fagni því að Ísland hafi komist áfram og að mikið hafi verið um „aukapantanir á snakki og ídýfum í matvöruverslanir fyrir laugardagskvöldið þegar úrslitakeppnin fer fram“. Þetta er raunar allt venju samkvæmt. Það eina sem er breytt er að Íslendingar eru kannski farnir að stilla væntingum sínum til árangurs Íslands í Eurovision í hóf.
Samkvæmt könnun Maskínu sem birt var í vikunni spá Íslendingar framlagi okkar 23. sæti í lokakeppninni. Þar taka 26 þjóðir þátt. Það er því af sem áður var þegar 16. sætið þótti hin mesta hneisa. Þó kemur fram meiri bjartsýni í þessum niðurstöðum en í þeim frá árinu á undan þegar Hera Björk keppti í Malmö. Þá var mjög þrýst á hana og RÚV að sniðganga keppnina þar sem Ísrael er meðal þátttökuþjóða. Sams konar þrýstingur er nú en það er eins og sumum finnist það bara vera gamlar fréttir. Jafnvel óþarfar.
Hera hefur greint frá því að hún hafi fengið ógrynni af mjög ógeðfelldum skilaboðum vegna þátttöku hennar í fyrra. Hún hafi engu að síður setið eftir með þá tilfinningu að það væri rétt að fara út; hún hafi staðið frammi fyrir tveimur slæmum valkostum – að fara eða ekki, og ákvörðunin um að fara hafi falið í sér vonarglætu.
„Fyrir mér er Eurovision eitthvað sem á að veita okkur gleði og hamingju og svona pínu pásu á þessu lífi sem getur verið mismunandi erfitt,“ sagði hún fyrir keppnina á síðasta ári í viðtali á Bylgjunni. „Við erum öll sammála um að morð á almennum borgurum eru ólíðandi en það liggur á borði ráðamanna,“ bætti hún við.
Þau stórtíðindi bárust hins vegar fyrir keppnina í fyrra að Gísli Marteinn Baldursson ákvað að draga sig til hlés frá því að lýsa keppninni, eins og hann hafði gert með hléum frá árinu 2003. „Til að svara þeim sem hafa spurt: Ég mun ekki lýsa Eurovision í ár. Ástæðan er framganga Ísraels á Gaza og viðbrögð keppninnar við henni, aðallega skortur á þeim. Fyrir mér snýst Eurovision um stemningu og gleði og ég finn fyrir hvorugu í keppninni í ár,“ skrifaði hann á samfélagsmiðla í fyrra.
„Við erum ekki með þjóðarmorð
Gísli Marteinn lýsir heldur ekki keppninni í ár. Hann birtist hins vegar sem lýsandi Improvison, söngvakeppni þar sem öll lögin eru búin til á staðnum, sem haldið var í Þjóðleikhúskjallaranum í vikunni og leiddi áhorfendur í gegnum kvöldið „úr stúkunni“. Viðburðurinn var rétt að hefjast þegar hann taldi upp allt það skemmtilega sem yrði á dagskrá kvöldsins, en eitt yrði þó ekki á dagskránni: „Við erum ekki með þjóðarmorð“, og uppskar mikil fagnaðarlæti.
Hversdagurinn
En það er ekki bara fáni Palestínu sem er bannaður. Eurovision hefur bannað keppendum og sendinefndum að bera Pride-fána á opinberum vettvangi – ákvörðun sem ýtir undir skömm og jaðarsetningu á tíma þar sem sýnileiki hinsegin fólks um alla Evrópu og víðar er lífsnauðsynlegur. Þetta bann er tilefni skoðanagreinarinnar „Eurovision: Is the gay world cup giving up on its gays?“ sem birtist í Dazed á dögunum, en Eurovison hefur löngum verið óopinber hátíðardagur hinsegin fólks um allan heim.
Hinsegin samfélagið hefur sakað keppnishaldara um hræsni í þessu sambandi, að þeir reyni að halda fram pólitísku hlutleysi á meðan keppnin er haldin í löndum þar sem mannréttindi eiga undir högg að sækja, og á meðan sumum þátttökulöndum er veitt skjól fyrir gagnrýni. Og á meðan sum lönd – lesist: Ísrael – fá að syngja og tralla á meðan ríkisstjórn þeirra er að fremja þjóðarmorð.
Þegar þessar línur eru skrifaðar berast þær fregnir frá Gaza að minnst fimmtíu hafi látist eftir loftárásir Ísraela um nóttina. Daginn áður voru áttatíu Palestínumenn drepnir í sprengjuárásum. Hugtakið „hversdagslegt“ fær nýja merkingu.
Reikna má með að á annað hundrað milljónir manna fylgist með úrslitakvöldi Eurovision á laugardag í beinni útsendingu. Það er líka hægt að fylgjast með helförinni á Gaza í beinni útsendingu, í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Snakk og ídýfa á tilboði.
Athugasemdir