Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Lífið í kassa

Rót­laus míni­mal­ismi er ríkj­andi bygg­ing­ar­stefna.

Lífið í kassa

Byggingarlist okkar tíma snýst að miklu leyti um að byggja fleiri og fleiri kassa, sem staflað er upp í mínimalískum stíl, stundum með litaflákum hér og þar, en oftar hvítir, gráir eða svartir. 

Frægasti kassinn er grænn, settur upp við kassalaga fjölbýlishús við Álfabakka. Liturinn er endurgerð af grænum laufum, stilkum og stráum náttúrunnar, en engar rætur eru á afritinu.

Pixlar

Kassar sjást sjaldan í náttúrunni. En þeir eru skilvirkir og hagkvæmir. Þeir hámarka nýtingu svæðis og eru einfaldir í samsetningu. Í stýrðu umhverfi tekur aðgerðastjórnun, stærðarhagkvæmni og skilvirkni yfir. IKEA sigraði heiminn með því að gera nánast alla framleiðsluna sína þannig úr garði að henni mætti stafla og setja í flata kassa.

Hámarksskilvirkni er að hafa staflana sem hæsta. Þess vegna eru jafnvel yfir sex hæða blokkir reistar utan um þröngar götur, með skuggavarpi sem ýkist upp við norðlæga legu okkar. Ein ástæðan er að við viljum lækka fasteignaverð. En húsnæðiskostnaður hækkar enn um 7% síðasta árið, þótt nýju eignirnar seljist illa.

Þegar kössunum fjölgar í einfaldri og einsleitri útgáfu getur umhverfið okkar verið pixlað. Raunveruleikinn verður í lítilli upplausn, með fáum smáatriðum. Á meðan eykst upplausnin á kassalaga skjáum.

Rannsóknir sýna að fólki líður best í umhverfi sem er ekki of einfalt, stórt og einsleitt, en hefur samt ákveðinn ramma og umlykingu. Það er til þekking um hvernig þetta er best fyrir okkur. Einfaldast og öruggast er hins að byggja hvítu, svörtu og gráu kassana. Sem minnir á suðið sem blikkaði óreiðukennt í sjónvarpinu þegar engin stöð náðist. Stundum eru litir notaðir til að aðgreina sams konar samliggjandi blokkir, þannig að minnir á gömlu stillimyndina í sjónvarpinu, þegar stöðin náðist en ekkert var á dagskrá.

Yfirtaka mínimalisma                                      

Undirliggjandi er kvarði milli strúktúrs og óreiðu. Stýringar og náttúru. Það kostar meira að byggja hús á mannlegum skala, í margslungnara formi en kassa og með smáatriðum sem auðga upplifun, með örlítið minni stöflun.

Leikritið Innkaupapokinn, sem hefur verið sýnt á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu síðustu vikur, fjallar í aðra röndina um átök og andstæður strúktúrs og óreiðunnar, og þess sem við verðum og þess sem við viljum.

InnkaupapokinnFriðgeir Einarsson í hlutverki innkaupapokans, sem er tákn raunveruleikans í töfraleikritinu eftir Elísabetu Jökulsdóttur og leikhópinn Kriðpleir.

Verkið byggir á skáldsögu Elísabetar Jökulsdóttur, Mundu töfrana, sem erfitt hafði reynst að forma í sviðslistaverk. Þar segir frá barni sem festist í Töfragarðinum, og svo frá þrúgandi þunga innkaupapokans, sem gerir stöðugar kröfur. Hann er fulltrúi raunveruleikans, en barnið lifir í töfrunum.

Sjálf bjó Elísabet í litlu einbýlishúsi við Framnesveg í Vesturbæ Reykjavíkur, þegar ákveðið var að stofna þéttingarreit við hlið þess, sem nú heitir Grandatorg og er skuggsæll, steyptur inngarður umkringdur bogahúsi og stórum, kolsvörtum kössum.

Einn kostur mínimalismans í skipulagi og lífsstíl er að hann auðveldar okkur að rífa okkur upp og koma fyrir annars staðar. Rætur hafa ekki gildi þegar eina markmiðið er skilvirk uppbygging, eða strúktúr.

Hámörkun stærðarhagkvæmni, hlutfallslegra yfirburða í framleiðslu og skilvirkni, færir okkur fjær rótum okkar sem lífvera. Við viljum varla vera samgróin grasrótinni, búa aftur undir torfi, en íbúðir og götur í reglubundnum skugga eru ekki íverustaðir fyrir lífverur eins og okkur.

Firring og nostalgía

Þegar fólk tengir ekki við daglegt umhverfi sitt getur það verið hluti af því sem félagsfræðin kallar firringu. Hún á sér margar hliðar. Í Bandaríkjunum leiddi önnur firring, samhliða vímuefnaneyslu og lækkandi lífaldri, til stökkbreytingar MAGA-hreyfingarinnar og trumpisma, sem spratt upp úr annars konar rótleysi og nostalgíu.

Margir Íslendingar fylltust rómantískum söknuði yfir sjónvarpsþáttaröðinni Verbúðinni 2021, sem fjölluðu um hið óreiðukennda og ófullkomna líf níunda áratugarins á landsbyggðinni.

Nú þegar er komin upp arkitektauppreisn á Norðurlöndunum, sem hefur teygt sig til Íslands, gegn rótleysi og andleysi nútímaarkitektúrs og skipulags.

Eftir því sem hæðunum fjölgar og skuggarnir lengjast fer okkur að lengja eftir fyrri tíð og tengslum.

Þétting byggðar, sem er um leið forsenda blómlegs götulífs og almenningssamgangna, er ekki það eina sem getur rofið tengsl okkar við umhverfið, heldur líka andlegt berangur skilvirks mínimalisma: Einsleitnin, einfaldleikinn, og skortur á náttúrulegum svæðum fyrir almenning. Þar sem er alger regla og engin óreiða lifa engir töfrar. 

Mundu töfranaRithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir átti hús við Framnesveg. Nýbyggðir svartir kassar eru nú í umhverfinu.
GrandatorgHús rithöfundarins Elísabetar Jökulsdóttur er fremst með rauðu þaki. Hún flutti þaðan 2020 til Hveragerðis.

Kjósa
10
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Verndar íslenskan menningararf með því að gera við fornbækur
5
Menning

Vernd­ar ís­lensk­an menn­ing­ar­arf með því að gera við forn­bæk­ur

Forn­bóka­safn­ar­inn Ey­þór Guð­munds­son seg­ir mik­il­vægt að vernda þann menn­ing­ar­arf sem ligg­ur í ís­lensk­um forn­bók­um. Það ger­ir hann með verk­efn­inu Old Icelandic Books sem geng­ur út á að vekja áhuga hjá Ís­lend­ing­um og ferða­mönn­um á bók­un­um og mik­il­vægi þeirra. Með­al þeirra bóka og hand­rita sem Ey­þór hef­ur und­ir hönd­um eru Grett­is saga, Jóns­bók og tvö hundruð ára til­skip­un til Al­þing­is frá fyrr­um Dana­kon­ungi.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
3
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu