Það er mjög gaman að verða faðir. Það er það besta sem ég hef gert. Það er ný tilfinning sem kemur, sem maður hélt að maður myndi vera búinn að upplifa. En svo þegar maður lendir í því sjálfur þá er eitthvað nýtt sem kviknar. Einhver ný tegund af ást.
Ég er með litla strákinn minn og við erum að fá okkur ís. Hann verður tveggja ára núna í júní. Ég er 46 ára, svo ég telst seinn að eignast fyrsta barn. Ég hefði ekki viljað sleppa þessu. Þetta er einn af leyndardómum lífsins, sem maður uppgötvar þegar maður eignast barn.
Maður finnur að maður hefur aldrei elskað svona mikið. Það er bara þannig tilfinning. Þú myndir gera allt. Maður hefur kannski ekki fundið það beint með kærustur og svoleiðis. Jú, jú, maður elskar auðvitað. En þetta er eitthvað dýrslegt sem kviknar. Því maður er dýr. Þetta er eitthvað sem maður veit ekki hvað er – eitthvað sem býr í genunum okkar – að vernda sitt og vilja því fyrir bestu. Þar kemur svona ólýsanleg ást. Skilyrðislaus ást. Það er þannig sem þú finnur.
Ég bjóst ekki við því að það myndi hafa svona mikil áhrif á mig. Bara á fæðingardeildinni þá kemur þetta. Við þurftum að vera á spítalanum í einhverja þrjá daga. Og á degi tvö þá fór ég á einhverja bensínstöð að ná í Subway-samloku og ég fór bara að hágráta. Ég vissi ekki af hverju. Tilfinningarnar eru þannig.“
Athugasemdir