Verð á nautakjöti hefur hækkað hratt á þessu ári og hafa margar vörur í þeim flokki hækkað meira á þessu ári en á átta mánuðunum þar á undan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verðlagseftirliti ASÍ.
Þar segir að innlend dagvara hækkar mun hraðar en erlend en verðlag á dagvöru hækkar um meira en hálft prósent þriðja mánuðinn í röð, samkvæmt mælingum verðlagseftirlitsins, en hækkunin milli mars og apríl var um 0,61%. Þó er útlit fyrir að hækkanirnar séu að dragast saman að magni og umfangi.
Á grafinu hér að neðan eru birtar vörur úr flokknum „nautakjöt“ sem verðlagseftirlitið hefur gögn fyrir hjá Bónus og Krónunni aftur til maí í fyrra. Hækkunin í byrjun þessa árs vegur þungt og tekur hún meðal annars til hækkana á hamborgurum.
Einnig gæti orðið dýrara að bjóða upp á bernaise-sósu með steikinni. Verð á Stjörnueggjum hækkaði um 9% í maí. Verð á Nesbú-eggjum hefur hækkað hægar en uppsöfnuð árshækkun er engu að síður 6,5% að meðaltali í stærstu fjórum verslunarkeðjunum; Bónus, Krónunni, Hagkaup og Nettó.
Athugasemdir