Björgólfur Thor Björgólfsson, ríkasti Íslendingurinn, varði tugum milljóna króna í að láta njósna um fjölda fólks. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í kvöld.
Fólkið átti það sameiginlegt að tengjast hópmálsókn fyrrum hluthafa gamla Landsbankans gegn stærsta eiganda bankans sem var Björgólfur Thor. Þá tengdust njósnirnar einnig langvinnum deilum Björgólfs Thors og auðkýfingsins Róberts Wessmann, sem Björgólfur taldi vera að baki hópmálsókninni.
Í Kveik kemur fram að þaulskipulagðar en háleynilegar njósnaaðgerðir hafi farið fram í Reykjavík yfir þriggja mánaða tímabil árið 2012. Þar segir að „persónuupplýsingum um hóp fólks var kerfisbundið safnað, setið um heimili og vinnustaði, földum myndavélum beitt, hópurinn eltur eins og skugginn og ítarleg smáatriði skráð um hagi fólks; sundferðir, bílaþrif og innihald bílskúra.“
Njósnir samhliða lögreglustarfi
Fyrirtækið sem vann þetta fyrir Björgólf Thor var stofnað af tveimur lögreglumönnum, þeim Jóni Óttari Ólafssyni og Guðmundi Hauki Gunnarssyni heitnum. Þeir stofnuðu saman fyrirtækið PPP sf. Árið 2011 en höfðu báðir starfað sem lögreglumenn í hátt í áratug.
Í Kveik kom meðal annars fram að verkefninu sinnti enn annar lögreglumaður sem tók njósnirnar að sér gegn greiðslu meðfram starfi sínu sem lögreglumaður; Lúðvík Kristinsson sem einnig hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Landssamband lögreglumanna og starfað í sérsveitinni. RÚV greindi frá því fyrr í dag að honum, án þess þó að nafngreina hann þá, hafi verið leystur undan vinnuskyldu sinni í gær vegna gruns um njósnir.
Jón Óttar er hvað þekktastur fyrir störf sín fyrir Samherja. Hann starfaði fyrir útgerðarfélagið frá árinu 2013, bæði sem ráðgjafi fyrirtækisins í Namibíu þar sem hann var í samskiptum við aðila sem grunaðir eru um að hafa þegið mútur frá útgerðarfélaginu, en einnig þegar Samherji tók við varna gegn Seðlabanka Íslands vegna ásakana um gjaldeyrisbrot.
Myndavél falin í kókómjólkurfernu
Kveikur greinir frá því að meðal þeirra sem njósnirnar beindust að var Vilhjálmur Bjarnason sem síðar settist á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann var einn af hluthöfum gamla Landsbankans, en á þriðja hundrað fyrrum hluthafa höfðuðu skaðamótamálið. Umfangsmesta eftirlitið fór fram við skrifstofur lögmannstofunnar Landslaga í Borgartúni en þar hafi virst markmiðið að standa fulltrúa hópmálsóknarinnar og fulltrúa Róberts Wessmann að verki við að hittast. Við skrifstofur Landslaga voru teknar upp á annað hundrað klukkustundir af efni en þar var bílaleigubílum, sem skipt var reglulga út, lagt nálægt húsinu og myndavél falin í kókómjólkurfernu í bílunum.
Í Kveik kom fram að Bjórgólfur Thor hefði ekki svarað fyrirspurnum vegna málsins, og boðuð var frekari umfjöllun á RÚV næstu daga.
Athugasemdir