Staddur suður í Þýskalandi rakst ég á dögunum á rit Marshalls Rosenbergs: Gewaltfreie Kommunikation: Eine Sprache des Lebens. Þennan titil má þýða á okkar gamla tungumál: Samskipti án ofbeldis, tungumál lífsins. Þessi höfundur varð víðfrægur fyrir rit sín og fyrirlestra en hann var uppi á árunum1934-2015. Í þessu riti leggur hann upp með að okkur ber að tileinka okkur samskiptatækni. Þegar fólk hefur átt í samskiptaerfiðleikum ætti það að geta talað saman á uppbyggilegan og ofbeldislausan hátt. Auðvitað er alltaf skynsamlegt þegar einhver ágreiningur kemur upp að ræða málin og kappkosta að finna góða lausn og semja með því að gefa eitthvað eftir. Það reynist oft betra og hagkvæmara en að þurfa að leita til dómstóla. Þetta mætti einnig útfæra í deilum milli þjóðfélagshópa og jafnvel landa. Því miður hefur ekkert verið þýtt á íslensku eftir þennan merka höfund og verður að bæta sem fyrst úr.
„Því miður er heiminum stjórnað að mestu leyti af misvitrum stjórnmálamönnum“
Marshall Rosenberg er stofnandi þeirra merku samtaka Center for Nonviolent Communication (CNVC) sem oft hafa látið til sín taka. Á heimasíðu þeirra, https://www.cnvc.org má fræðast nánar um þessi samtök.
Því miður er heiminum stjórnað að mestu leyti af misvitrum stjórnmálamönnum. Sumir þeirra virðast ekki hafa önnur ráð í hendi sér en takmarkalaust ofbeldi til að halda völdum. Þeir standa margir hverjir mjög ótraustum fótum og eru undir áhrifum frá lobbyistum á vegum hergagnaframleiðenda sem sjá enga framtíð í friðarviðræðum né skynsömum lausnum milli deiluaðila. Er nokkuð annað að óttast að allur þessi ófriður veður nú uppi um allan heim?
Eg minnist þess að hafa rekist í laganámi á merka lagagrein fyrir meira en hálfri öld sem er að finna í einum mikilvægustu lögum okkar á Íslandi. Þau eru frá árinu 1938 og fjalla um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar er deiluaðilum sett ofureinföld skýr regla sem er skynsamleg: Deiluaðilar skulu forðast að magna deiluna meðan á vinnudeilu stendur.
Já, það væri æskilegt að sem flestir tileinki sér slíkan hugsunarhátt fremur en að láta byssurnar og sprengjurnar tala sínu máli. Í blóðugum styrjöldum er enginn sigurvegari, allir eru í tapliðinu. Ætli svonefndur sigur í sérhverju stríði sé ekki dýrari verði keyptur en að semja um ásættanlegar lausnir sem kosta ef til vill ekki nema örlítið brot af stríðskostnaðinum?
Á næsta ári má minnast þess að 250 ár verða liðin frá sjálfstæðisyfirlýsingu 13 fylkja sem var upphaf Bandaríkjanna. Núverandi forseti BNA verður að hverfa frá rangri hugsun sinni um hlutverk forseta BNA. Ella skýtur skökku við þá meginhugsun sjálfstæðisyfirlýsingarinnar sem engin tengsl hefur við einræðistilburði sem þessi maður hefur sýnt landsmönnum sínum og ekki síst allri veröldinni. Hann sýndi af sér ófyrirgefanlegt dómgreinarleysi með því að láta verða fyrsta verk sitt í embætti í janúar s.l. að náða ofbeldismennina sem réðust í Þinghúsið 6.1.2021.
„Hann hefur reynst vanhæfur sem forseti í réttarríki“
Hann hefur sýnt af sér ótrúlegt skilningsleysi og grimmd gagnvart þeim sem hann er ekki sammála. Hann vill takmarkalausan vígbúnað sem stjórnast af græðgi til að innlima og stjórna öðrum löndum. Verður þá öll orðræða hans ekki eins og hver önnur þversögn miðað við það sem gerðist 4.7.1776? Á næstu árum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1776 kom BNA sér upp mjög merkri stjórnarskrá sem var upphaf mikillra tímamóta í sögu mannkyns. Þar voru fyrst í sögunni mótaðar lagareglur um mannréttindi. Að vísu voru mannréttindi takmörkuð við hvíta, þrælahald varð ekki upprætt fyrr en nær öld síðar. Þannig nutu hvorki frumbyggjarnir indíánarnir né þrælarnir frá Afríku neinna mannréttinda. Stjórnarskrá BNA með öllum viðaukunum hefur þá haft gríðarleg áhrif, fyrst sem hvati að stjórnarbyltingunni miklu í Frakklandi sem hófst 14.7.1789. Þar varð mikill suðupottur nýrra hugmynda um frelsi og mannréttindi. Bæði stjórnarskrá BNA sem og allar byltingarnar í Mið-Evrópu hafa haft gríðarleg áhrif um alla veröld. Nánast allar stjórnarskrár eru mótaðar meira og minna af hvoru tveggja.
Nú þyrfti æðsti maðurinn í BNA sem sýnir aldrei neitt annað en andlit frekjunnar og reiðinnar, annað hvort að læra af öllum mistökunum sínum eða segja af sér. Hann hefur reynst vanhæfur sem forseti í réttarríki. Og mættu fleiri harðstjórar í heiminum taka pokann sinn og yfirgefa valdastólana.
„Á upphafsárum nasismans í Þýskalandi gerðist slíkt hið sama, valdhrokinn virðist hafa haft ótrúleg góð áhrif fyrst í stað en snérist brátt upp í andstæðu sína“
Vísindamenn og menntamenn í BNA eru á flótta frá háskólasamfélaginu undan valdi Donalds Trumps og setjast nú að í öðrum löndum, einkum Kanada og Frakklandi. Þar hafa þeir verið boðnir velkomnir til starfa enda þekking þeirra metin að verðleikum. Það segir sitt. Á upphafsárum nasismans í Þýskalandi gerðist slíkt hið sama, valdhrokinn virðist hafa haft ótrúleg góð áhrif fyrst í stað en snérist brátt upp í andstæðu sína.
Er einhver von á að Donald Trump sjái að sér, taki til baka allar heimskulegu ákvarðanir sínar og stýri BNA með hófsemi og skilningi fremur en hrokanum og heimskunni? Við ættum að hætta að kaupa amerískar vörur eins og Coca Cola, sígarettur og annan áþekkan óþarfa. Síðar gætum við bætt við ýmsum þekktum bandarískum vörur sem við getum verið án en fengið jafngóðar ef ekki betri annars staðar frá.
Athugasemdir (1)