Heimildin hefur hlotið þrjú verðlaun í alþjóðlegu hönnunarsamkeppninni Best of News Design, sem haldin er af The Society for News Design (SND). Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi hönnun og sjónræna framsetningu í blaðaútgáfu um allan heim. Að baki hönnun verðlaunasíðanna stendur Jón Ingi Stefánsson, hönnunarstjóri Heimildarinnar.

Tvær forsíður Heimildarinnar hlutu Awards of Excellence fyrir myndræn og áhrifamikil vinnubrögð. Önnur þeirra sýnir stórbrotna yfirlitsmynd Golla, ljósmyndara Heimildarinnar, af hrauni sem flæðir yfir Grindavíkurveg í eldgosinu á Reykjanesi. Hin forsíðan er grafísk framsetning með nöfnum barna sem hafa verið drepin í átökum á Gasasvæðinu.
Þriðju verðlaunin eru veitt fyrir framsetningu fréttaumfjöllunar um fyrirtækið Running Tide, sem birtist í Heimildinni í fyrra. Sú umfjöllun hlaut einnig verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku á Blaðamannaverðlaunum Íslands og er því komin með alþjóðlega viðurkenningu fyrir gæði og dýpt í blaðamennsku.

Verðlaunin frá Society for News Design eru með þeim virtustu á sviði blaðahönnunar og eru veitt út frá faglegri úttekt á sjónrænni framsetningu, frumleika og áhrifamætti. Þetta er í annað sinn sem Heimildin vinnur til verðlauna Best of News Design. Á síðasta ári var forsíða þriðja tölublaðs Heimildarinnar verðlaunuð.


Athugasemdir (1)