Það bar svo til á síðasta ári að alþjóðlegur sýnileikadagur trans fólks og páskadagur féllu á sama daginn, 31. mars. Þetta var tilviljun, enda er fyrrnefndi dagurinn alltaf haldinn 31. mars en páskadagur er fyrsti sunnudagur eftir að tungl verður fullt næst eftir vorjafndægur. Það er því breytilegt hvaða dag páskarnir eru. Í ár er páskadagur til að mynda 20. apríl en fyrir tveimur árum var hann 9. apríl. Þetta er nokkuð sem flest fólk getur skilið. En síðan eru það þeir sem neita að viðurkenna staðreyndir sem einmitt það.
Á síðasta ári var Donald Trump, nú Bandaríkjaforseti, í kosningabaráttu og kallaði talsmaður hans eftir því að Joe Biden, þáverandi Bandaríkjaforseti, myndi biðja kristna og kaþólikka afsökunar. Af hverju? Því Biden vildi fagna bæði alþjóðlegum sýnileikadegi trans fólks og páskadegi á sama deginum. Fyrir síðustu páska, eða fyrir sýnileikadaginn, hafði Biden sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist vilja heiðra hugrekki trans fólks og framlag þess til bandarísks samfélags. Þá sendi hann trans fólki þau skilaboð að það væri elskað og á það væri hlustað: „Þið tilheyrið. Þið eruð hluti af Bandaríkjunum, og öll ríkisstjórnin, og ég sjálfur, stöndum með ykkur.“ Falleg skilaboð, ekki satt? Eðlileg og viðeigandi.
En upplýsingaóreiðan fór í gang; rangfærslurnar og lygarnar. Trump sagði í fyrra: „Hvað í fjandanum var Biden að hugsa þegar hann lýsti því yfir að páskadagur væri sýnileikadagur trans fólks?“ og bætti við: „Algjör vanvirðing við kristna.“ Fleiri tóku undir: „Er Biden að gera gys að kristinni trú með því að gera páskadag að sýnileikadegi trans fólks?“ En það gerði Biden alls ekki, eins og fram hefur komið hér og raunar víða í heimspressunni. Fréttastofa Reuters sá ástæðu til að skrifa frétt með fyrirsögninni: „Staðreyndavakt: Biden ákvað ekki að sýnileikadagur trans fólks skyldi árlega fara fram á páskadag.“ Trump og hans fólk hélt þó áfram að fullyrða staðfastlega, og ranglega, að þetta væri dæmi um linnulausar árásir Biden og ríkisstjórnar hans gegn kristni.
Reyn Alpha Magnúsar, forseti samtakanna Trans Ísland, sagði af þessu tilefni að í markhópi Trumps væri fólk með mikinn trúarhita og því væri auðvelt fyrir hann að herja á trans fólk með þessum hætti, með því að láta líta svo út „að Biden taki trans fólk fram yfir Jesú“. Sem hann var auðvitað alls ekki að gera.
Í fyrsta Jóhannesarbréfi segir: „Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur.“
Hætta á mismunun og ofbeldi
Á fyrsta degi í embætti á sínu seinna kjörtímabili, 20. janúar, undirritaði Trump tugi forsetatilskipana. Þar á meðal tilskipun sem trans fólk hefur sagt vera atlögu að því að þurrka út tilvist sína; að nú er einungis hægt að skilgreina sig sem karlkyns eða kvenkyns á vettvangi hins opinbera. Afleiðingin birtist meðal annars í því að trans karlar sem afplána fangelsisdóma verða fluttir í kvennafangelsi og trans konur í karlafangelsi. Bandaríska utanríkisráðuneytið gefur ekki lengur út vegabréf með merkingunni X fyrir þau sem hvorki skilgreina sig sem karl né konu, og tilskipunin kvaddi á um að allir yrðu skilgreindir eftir úthlutuðu kyni. Þannig hefur til að mynda verið hætt að verða við beiðnum um breytingu á kynmerkingu úr Karl í Kona, eða öfugt.
Fyrir fólk eins og mig, sem er fædd kona og upplifi mig sem konu, hljómar þetta í fyrstu kannski ekki sem neitt stórmál. En fyrir þau sem hafa upplifað sig í líkama af röngu kyni er þetta ekki bara stórmál, heldur grundvallaratriði þegar kemur að því að virða kynvitund einstaklingsins og viðurkenna tilvist hans; að virða manneskjuna sem það sem hún er. Þá getur það hreinlega verið hættulegt fyrir fólk þegar kyn þess í skilríkjum passar ekki við útlit eða kynvitund, ekki síst þegar fólk er að ferðast og þarf að sýna skilríki á landamærum eða hjá yfirvöldum. Og ótal dæmi eru um að trans fólki sé mismunað eða það jafnvel orðið fyrir ofbeldi vegna ósamræmis milli útlits og skráningar á opinberum skjölum. „Trans fólk er bara að reyna að lifa af,“ sagði Mikelle Cao, bandarísk trans kona við USA Today, sem óttast ekki bara ferðalög til útlanda heldur einnig innan Bandaríkjanna.
„Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða
Í Mattheusarguðspjalli segir: „Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.“
Hinsegin flóttafólk frá Bandaríkjunum
Þann 29. janúar, níu dögum eftir embættistöku Trumps, sendu Samtökin '78 frá sér yfirlýsingu þar sem þau kölluðu eftir því að íslensk stjórnvöld standi við eigin yfirlýsingar um stuðning við mannréttindi hinsegin fólks og fordæmi tilskipun Bandaríkjaforseta sem hreinlega afneiti tilvist trans fólks og intersex fólks. Þá er tekið fram að í beinu samhengi við þróun mála í Bandaríkjunum hafi samtökin fengið til sín holskeflu fyrirspurna frá bandarísku hinsegin fólki um hvernig hægt sé að flytja til Íslands. „Ef fram fer sem horfir gætu íslensk stjórnvöld staðið frammi fyrir því innan tíðar að þurfa að taka afstöðu til þess hvort taka eigi á móti hinsegin flóttafólki frá Bandaríkjunum. Svo alvarleg er staðan,“ segir í yfirlýsingunni.
Íslenska utanríkisráðuneytið sá í aprílbyrjun ástæðu til að gefa út sérstakar ferðaleiðbeiningar fyrir hinsegin fólk. „Alvarlegt bakslag hefur átt sér stað í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim, þar á meðal í lýðræðisríkjum í Evrópu og í Bandaríkjunum,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í tilkynningu frá ráðuneytinu vegna þessara leiðbeininga. „Engin manneskja á að þurfa að lifa í ótta um ofsóknir eða ofbeldi vegna þess hver hún er eða hvernig hún skilgreinir sig.“
Í ferðaleiðbeiningunum sjálfum er ekkert land nefnt. Þar segir hins vegar skýrt, um dvöl erlendis: „Gætið varúðar og verið meðvituð um mögulegar áhættur.“ Þá segir í leiðbeiningunum, opinberum ferðaleiðbeiningum til hinsegin fólks, að „gott er að vista símanúmer hjá sólarhrings neyðarvakt borgaraþjónustunnar“. Það númer er 5450112, með viðskeytinu 354 þegar fólk er erlendis.
„Þú átt skjól hjá mér“
Á alþjóðlegum degi sýnileika trans fólks, 31. mars síðastliðinn, var Þorgerður Katrín meðal þeirra sem tóku þátt í sýnileikaherferð hagsmunasamtakanna Trans vina þar sem hún sat fyrir á mynd og hélt á bolla með trans fánanum og orðunum: „Þú átt skjól hjá mér.“ Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, gerðu slíkt hið sama.
Þess var ekki langt að bíða að forspá Samtakanna '78 rættist. Forsíðuviðtal Heimildarinnar í liðinni viku var við bandaríska trans konu, Alexöndru, sem flúði hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd. Hún baðst undan því að eftirnafn hennar yrði birt í viðtalinu af ótta við yfirvöld í Bandaríkjunum. „Útlendingastofnun skilgreinir Bandaríkin sem öruggt upprunaland og þar af leiðandi var umsókn hennar tekin í flýtimeðferð og metin bersýnilega tilhæfulaus. Henni er síðan refsað með brottvísun og endurkomubanni, sem gildir líklega fyrir allt Schengen-svæðið,“ sagði skipaður talsmaður Alexöndru, Davor Purusic, í samtali við Heimildina vegna málsins. Samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar var lögreglu veitt heimild til að flytja Alexöndru úr landi. Henni var hins vegar veittur frestur til að fara sjálfviljug úr landi, og kaus hún að gera það – með níu ára son sinn. Markmið hennar var að draga ekki athygli að sér, og ungum syni, á landamærunum með því að fara út í lögreglufylgd. Hennar stærsti ótti var að við endurkomuna til Bandaríkjanna yrði hún gerð að víti til varnaðar. „Ég er skelfingu lostin. Ég er ekki aðgerðasinni, ég er bara að reyna að lifa mínu lífi,“ sagði hún í viðtalinu við Heimildina. Í næsta nágrenni við heimili þeirra í Minnesota bjó trans maður sem hvarf fyrr í vetur. Nú hafa sjö menn verið ákærðir fyrir að frelsissvipta hann í mánuð og pynta hann til dauða.
Í Mattheusarguðspjalli segir: „Allt sem þið viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“
Ekki lengur öruggt upprunaríki
Trans kona var handtekin í þinghúsinu í Flórída í marsmánuði eftir að hún notaði salerni merkt konum. Þar, og í fleiri ríkjum Bandaríkjanna, eru í gildi lög sem banna trans fólki að nota salerni í samræmi við kynvitund sína. The New York Times hefur eftir sérfræðingum í mannréttindum að þetta sé fyrsta þekkta tilvikið þar sem einhver hefur verið handtekinn fyrir að brjóta gegn þessum lögum. Trans konan, Marcy Rheintgen, sagðist hafa vísvitandi brotið lögin, og lýsti því hvernig hún upplifði orðræðu kjörinna fulltrúa um trans fólk sem afmennskandi.
Stjórn Trans Ísland hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem harðlega er gagnrýnd ákvörðun Útlendingastofnunar að synja trans konu, Alexöndru, og syni hennar um alþjóðlega vernd og vísa þeim aftur til Bandaríkjanna. Í yfirlýsingunni segir enn fremur: „Líkt og bent hefur verið á er löngu orðið ljóst að Bandaríkin eiga ekki heima á lista yfir örugg upprunaríki þegar um er að ræða einstaklinga sem búa við jaðarsetningu, á borð við trans fólk. Við hvetjum dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra eindregið til að beita sér fyrir því að tekið verði á móti trans fólki á flótta, hvaðan sem það kemur. Núverandi listi yfir „örugg“ ríki nær einfaldlega ekki utan um raunveruleika trans fólks. Ef Ísland vill halda áfram að standa vörð um gildi mannréttinda og jafnréttis í því alvarlega bakslagi sem við horfum upp á á alþjóðavísu þá dugir ekki að stinga hausnum í sandinn.“
Úr fyrra Kórintubréfi: „Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.“
Dymbilvikan í Hvíta húsinu
Fox News greindi frá því um helgina að í Hvíta húsinu væri verið að skipuleggja „stórkostlega“ dymbilviku þar sem Trump sýnir páskunum „þá virðingu sem þeir eiga skilið“. Í fréttinni segir að þessi miklu hátíðarhöld í dymbilvikunni komi í kjölfar þess að Biden hafi „lýst páskunum 2024 yfir sem sýnileikadegi trans fólks“. Sem eins og áður segir er rangt.
Á skírdag stendur Trump fyrir guðsþjónustu fyrir starfsfólk Hvíta hússins þar sem presturinn Greg Laurie, einn áhrifamesti evangelíski prestur Bandaríkjanna, er meðal þeirra sem taka þátt í bæn, ritningarlestri og altarisgöngu. Eftir að Trump varð fyrir banatilræði á landsþingi Repúblikana í fyrra, þegar kosningabaráttan um forsetaembættið stóð sem hæst, sagðist Trump sannfærður um að Guð hefði bjargað sér til að gera Bandaríkin stórkostleg aftur. Daginn eftir að Trump tók við embætti tók Laurie undir þessi orð á heimasíðu safnaðar síns: Guð hlífði Trump forseta.
Á samfélagsmiðlinum X segir Laurie frá því að honum sé boðið í sérstaka páskamáltíð og guðsþjónustu í Hvíta húsinu þar sem þeir muni biðja saman, lesa úr ritningunni og upphefja nafn Jesú. Þetta segir hann sérstaklega mikilvægt á tímum þegar „sannleikurinn er á reiki“ og sterk andstaða við að upprisa Jesú Krists sé heiðruð – „sérstaklega eftir að páskadagurinn í fyrra var kallaður sýnileikadagur trans fólks. Heiðrum Guð í bæn og vísum fólki á Krist.“
Trump birti á sunnudag opinber skilaboð sín sem forseti á vef Hvíta hússins þar sem hann sagðist í dymbilvikunni, ásamt Melaniu eiginkonu sinni, ætla að sameinast kristnu fólki í bæn. Í þessum skilaboðum frá Trump segir einnig að í dymbilvikunni muni ríkisstjórn hans endurnýja loforð sitt um að verja kristna trú í skólunum, hernum, á vinnustöðum, sjúkrahúsum og í stjórnsýslunni. Aldrei munu þau víkja frá því að standa vörð um trúfrelsi, verja mannlega reisn og nærveru Guðs í almenningsrýminu.
„Vinur er sá er til vamms segir“
Við grípum aftur niður í yfirlýsingu Samtakanna '78 þar sem bent er á að utanríkisstefna Íslands hefur síðustu ár einkennst af því að Ísland kalli eftir virðingu fyrir mannréttindum hinsegin fólks víða um heim: „Sú áhersla hlýtur einnig að gilda þegar vinaþjóðir eiga í hlut. Það er skylda Íslands og ábyrgð að tala skýrt fyrir mannréttindum þegar þau eru brotin og halda á lofti þeim gildum um frelsi sem íslenskt samfélag hefur í hávegum. Vinur er sá er til vamms segir. Ísland tók nýlega sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og hefur því sérstaklega gott tækifæri til þess að standa með bandarísku hinsegin fólki og varpa ljósi á mannréttindabrot bandarískra stjórnvalda, sem ekki sér fyrir endann á.“
Úr fyrra Kórintubréfi: „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“
Gleðilega páska.
Og hvað hefur það gert þeim sem ofsækja það ?