Það mikilvægasta sem ég lærði í barnæsku kom frá ömmu Sigrúnu en það var Gullna reglan, það að koma fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig.
Frá því að ég man eftir mér lifði amma eftir þessari reglu og hún krafðist þess sama af sínu fólki. Ég valdi þessa setningu sem fermingarsetninguna mína og hef reynt mitt besta til að lifa eftir henni síðan þá. Þó að þetta hafi verið mikilvægur lærdómur lærði ég ekki síður mikilvæga lexíu þegar ég var komin hátt á fimmtugsaldur. Og það var ekki manneskja sem kenndi mér það, heldur heimsfaraldurinn Covid-19 af öllum hlutum.

Frá því að ég hóf háskólanám á síðustu öld einkenndist lífið af markmiðum hvort sem það var að klára doktorinn, fá stöðu, fá æviráðningu, landa stórum rannsóknarstyrkjum eða birta í bestu félagsfræðitímaritunum. En ég gleymdi aldrei því sem amma kenndi mér, ég gleymi aldrei fólkinu mínu og dýrmætasta árið mitt var árið áður en amma dó, þegar ég valdi að eyða frekar tíma með henni en að leggja megináherslu á ferilinn fyrsta árið sem ég var í akademískri stöðu í Bandaríkjunum.
„Mér var lífsómögulegt að standa upp úr sófanum ef það var fyrir sjálfa mig
Þó ég hafi alltaf haft skýra sýn varðandi minn akademíska feril var ég alltaf betri að gera hluti fyrir aðra og þá sérstaklega þegar kom að hreyfingu og hollum lífsvenjum. Þér var óhætt að treysta á mig að sækja þig fyrir sex að morgni ef við ætluðum saman í ræktina, en mér var lífsómögulegt að standa upp úr sófanum ef það var fyrir sjálfa mig.
Það var síðan haustið 2019 að ég var í rannsóknarleyfi í Þýskalandi og orðin dugleg að ganga á jafnsléttu. Ég hafði átt FitBit í nokkur ár og eins og einkennir minn persónuleika var ég góð í að valda því ekki vonbrigðum. Það vildi fá 10.000 skref á dag, þannig að það fékk 10.000 skref á dag.
Þarna var farin að blunda í mér löngun að stunda meiri útivist og jafnvel að fara upp á fjall. Í þeim tilgangi skoðaði ég reglulega ýmsa gönguhópa en fann alltaf afsakanir, oftast tímaleysi, fyrir að komast ekki. En svo kom mars 2020 og heimurinn stöðvaðist. Loksins hafði ég tíma til að hugsa um hvað ég vildi í raun og veru í lífinu.
Ég hef alltaf verið mjög félagslynd en líka sóst eftir ró og eigin félagsskap. Og af honum fékk ég nóg vorið 2020. Ég gaf mér tíma til að skoða gönguhópa og var fljót að hafna öllum sem ætluðu að láta mig enda á Hvannadalshnjúki. Það var hins vegar eitthvað sem gerði það að verkum að ég staldraði við hópinn Göngur og jóga, það var eins og ég vissi að hann ætti eftir að breyta lífi mínu.
„Fjöllin kenndu mér að ég má setja sjálfa mig og mína vegferð í fyrsta sætið
Þrátt fyrir að hafa alltaf verið vinamörg reyndi ég ekki að fá neinn með mér. Innra með mér vissi ég að ég yrði að gera þetta á eigin forsendum. Ég var svolítið óttaslegin þegar ég mætti í fyrsta skiptið en óttinn vék fljótlega fyrir gleðinni að vera úti og að gera það sem mig hafði lengi langað, en aldrei þorað. Að ganga á fjöll. Lítil í fyrstu, en yfir tíma hafa þau hækkað, orðið brattari og kílómetrunum hefur fjölgað.
Síðan þá hef ég margoft farið út fyrir þægindarammann og sigrað tinda sem ég átti aldrei von á að sigra. Stelpan sem hélt að hún myndi aldrei ganga á Úlfarsfellið, hvað þá Esjuna, hefur ekki enn hitt fjall sem henni líkar ekki við og langar stöðugt á fleiri. En það sem er mikilvægasti lærdómurinn er að fjöllin kenndu mér að ég má setja sjálfa mig og mína vegferð í fyrsta sætið.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin skilgreinir heilsu sem góða líkamlega, andlega og félagslega heilsu og fjöllin hafa bætt mig á öllum þeim sviðum. Ég hef fundið fyrir því hvernig líkaminn styrkist, hvernig vöðvar birtast á ólíklegum stöðum, en ég finn líka að ég er glaðari, jákvæðari og jafnvel skemmtilegri.

Ég hef fundið að fimm dagar án fjalla eru ekki í lagi, en eftir það kemur óþreyjan í líkamann og ég verð leiðari og það er þyngra yfir mér. Á fjöllum hef ég líka styrkt tengslin við fólkið mitt og kynnst nýjum vinum, ekki síst mínum dásamlegum fararstýrum sem hafa hvatt mig áfram, glaðst yfir sigrum mínum og verið til staðar þegar óttinn er við það að ná yfirhöndinni.
Það er ekki síður mikilvægt að ég hef kynnst sjálfri mér betur, lært að ég get allt sem ég ætla mér og hvað mér líður vel í eigin félagsskap. Ég hef lært að ég þarf lítið annað í lífinu en gott fjall og auðvitað Excel-skjal þar sem ég skrái allar mínar fjallgöngur samviskusamlega, hvort sem ég sigraði fjallið eður ei. Því ég hef lært að það er allt í lagi að ná ekki alltaf árangri, það er í lagi að vera hrædd og óörugg, það er í lagi að snúa við ef þér líst ekki á aðstæður.
Það sem er mikilvægast er að halda áfram, geta aðeins meira í dag en í gær, að skora á sjálfa sig en sýna sér líka mildi. Fjallgöngurnar hafa ekki breytt viðhorfi mínu til annarra en þær hafa kennt mér að koma vel fram við sjálfa mig og að finna gleðina í litlu og stóru sigrunum og ekki síður ósigrunum. Þá skiptir ekki máli hvort ég rölti upp Úlfarsfellið mitt í hundraðasta skiptið eða er komin upp í 4.500 metra hæð í Afríku.

Ég man enn þegar ég horfði á sólarupprásina á Kilimanjaro nálægt toppi Mt. Meru og hugsaði til ömmu og Gullnu reglunnar. Ég vissi að ég var enn í grunninn stelpan sem amma mótaði með sínum gildum, ég hefði bara bætt því við að koma fram við sjálfa mig eins og ég vil koma fram við aðra.
Þar sem ég nálgaðist toppinn, buguð en glöð, horfði ég ákveðnu augnaráði yfir á Kilimanjaro og hugsaði: „Ég sé þig, Kili, ég á eftir að hitta þig, Kili, og ég á eftir að standa á toppi þínum einn daginn og horfa hingað yfir. Og það verður góður dagur.“
Athugasemdir