Á sex þotum flugu starfsmenn einnar verðmætustu útgerðar landsins til Póllands á dögunum. Vinnslunni var lokað í þrjá daga svo hægt væri að gera vel við starfsfólk, sem hefur unnið baki brotnu við að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Sjómenn og fiskverkafólk á Íslandi býr nefnilega til raunveruleg verðmæti. Útflutningsvirði íslenskra sjávarafurða eru veruleg og eru sannarlega ein af grunnstoðum íslenska velferðarsamfélagsins. Það veltur svo margt á sjávarútvegi, segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og hafa að mörgu leyti rétt fyrir sér. Sjávarútvegur hefur gegnt lykilhlutverki á Íslandi.
Öll umræða um sjávarútveg og hvað sanngjarnt er að greitt sé fyrir aðgengi að auðlindum hafsins virðist hins vegar líka velta á útgerðinni. Hvort sem er Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi eða einstaka útgerðarmönnum. Rétt áður en þoturnar sex tóku á loft frá flugvellinum á Akureyri veitti forstjóri útgerðarinnar viðtal. Það er ekki oft sem þessi forstjóri gefur færi á sér, en nú þótti honum ástæða til og gaf færi á sér í forsíðuviðtali við eina sérhæfða viðskiptablaðið á Íslandi – Viðskiptablaðið.
„Íslenskur sjávarútvegur mun ekki líta eins út eftir eitt ár og hann gerir í dag,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, „það er stefnt mjög ákveðið að því að færa vinnsluna úr landi, það er ljóst.“ Svo benti hann lesendum Viðskiptablaðsins á að það væri stutt yfir hafið. Tveimur vikum seinna sýndi Þorsteinn Már fram á hversu stutt væri yfir hafið, þegar hann leigði áðurnefndar sex þotur til að fljúga öllum starfsmönnum Samherja til Póllands.
Þetta er í þriðja sinn sem Samherji stöðvar alla starfsemi sína til að bjóða á árshátíð í Póllandi. Í þetta sinn fór með, samkvæmt tilkynningu á vef útgerðarinnar, landslið tónlistarfólks til að sjá til þess að allir skemmtu sér konunglega. Það er þó ekki bara af því að Pólland sé fallegt og ríkt af menningu sem það varð fyrir valinu. Leiða má að því líkur að umfangsmikil starfsemi systurfyrirtækis Samherja í Póllandi – Atlantatex – sé ekki síst ástæðan fyrir því hvað Samherjamönnum líkar vel við landið.
Eiga þriðjung aflaheimilda
Þorsteinn Már lýsti vonbrigðum sínum í viðtalinu með það að íslenskur sjávarútvegur hafi verið persónugerður í nokkrum einstaklingum sem stunda útgerð. En af hverju skyldi það vera? Þegar kvótakerfið var fyrst sett á seint á síðustu öld, var markmiðið að koma í veg fyrir ofveiði og síendurtekið hrun fiskistofna. Í raun var það gert með því að ýta undir hagræðingu í greininni og fela hinum frjálsa markaði og einkaframtakinu að sjá um hagræðinguna. Gögn Fiskistofu sýna að stærstu útgerðirnar í dag fari með yfir 70 prósent afla, en sömu útgerðir, eða fyrirrennarar þeirra, fóru aðeins með rúmlega 30 prósent við upphaf kerfisins.
Stærsta einstaka útgerðin á Íslandi – Brim – er að uppistöðu í eigu eins manns, sem á í þokkabót heila útgerð í viðbót. Bræðrasynir hans eru meðal stærstu hluthafa í Brimi og þeir eiga einnig sína eigin útgerð, sem þeir fengu frá föður sínum. Næst tærsta útgerðin, sem vill svo til að er Samherji, er í raun fjölskyldufyrirtæki, eftir að Þorsteinn og frændi hans, Kristján Vilhelmsson, gáfu börnunum sínum útgerðina. Sama má segja um Ísfélagið, sem er þriðja stærsta útgerð landsins. Það er í raun sameinuð útgerð, að uppistöðu í eigu fjölskyldu útgerðarkonunnar Guðbjargar Matthíasdóttur úr Eyjum. Þessi þrjú fyrirtæki og viðhengi þeirra eiga þriðjung aflaheimilda í dag.
Brothættar byggðir
Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Árið 1997 var birtur listi yfir kvótahæstu útgerðirnar. Þar tróndi Samherji Þorsteins Más á toppnum með 4,32 prósenta aflahlutdeild. Í dag eru aflaheimildir Samherja 8,57 prósent. Meira en tvöfalt meiri. Í krafti hagnaðar sem fékkst með aðgengi að þessari verðmætu auðlind sem fiskurinn í sjónum er, hefur rekstur sjávarútvegsfyrirtækja gengið giftusamlega hjá mörgum, á meðan aðrir hafa gripið tækifærin og selt sig úr greininni.
Það er því kannski engin tilviljun að þegar rætt er um hagsmuni útgerðarinnar er það skilningur alls venjulegs fólks að í raun sé verið að ræða um hagsmuni nokkurra fjölskyldna. Fólki sem hefur atvinnu af sjávarútvegi hefur nefnilega fækkað á síðustu árum, sem og fjölda báta sem gerðir eru út. Samkvæmt Hagstofunni voru 9.925 starfandi við fiskveiðar, fiskeldi og fiskiðnað árið 2015. Í fyrra hafði þeim fækkað niður í 7.978, eða um tæplega tvö þúsund manns. Byggðir allt í kringum landið hafa nú verið úrskurðaðar brothættar vegna þess að þar þrífst ekki fiskvinnsla, enda geta sjálfstæðar vinnslur ekki keppt við þær sem eru í fullri eigu útgerðanna og geta keypt hráefni á miklum afslætti.
Ekki þorskur heldur olía
En hvernig ætli þessu sé farið í öðrum greinum sem ganga út á að nýta sameiginlegar auðlindir? Það vill svo til að svarið birtist viku síðar í sama sérhæfða viðskiptablaði, þar sem fjallað var um mikla auðlind í hafinu úti fyrir Íslandsströndum. Ekki þorskur heldur olía.
„Þessi leyfi eru þannig að ríkið tekur helminginn af rekstrarhagnaðinum,“ sagði fyrrverandi stjórnarformaður Eykon Eneryg, sem var eitt þriggja fyrirtækja sem freistaði gæfunnar við leit á olíu á Drekasvæðinu hér strax eftir hrun, í viðtali við Viðskiptablaðið. Tilefnið eru endurnýjaðar hugmyndir um að Ísland geti orðið olíuríki. „Ef við við hefðum haldið okkar striki en ekki hætt árið 2018 þá værum við núna byrjuð að framleiða olíu,“ sagði Heiðar Guðjónsson og bauð upp á reikningsdæmi: „Ef þetta eru tíu milljarðar tunna og framleiðslukostnaðurinn 20 til 25 dollarar á tunnuna og heimsmarkaðsverðið 65 dollarar þá eru 450 til 500 milljarðar dollara til skiptanna. Þessi leyfi eru þannig að ríkið tekur helminginn af rekstrarhagnaðinum. Íslenska þjóðin væri þá að fá 225 til 250 milljarða dollara yfir um 20 ára tímabil. Þetta eru um það bil öll útgjöld ríkisins í 20 ár.”
Fjárhæðirnar eru stjarnfræðilegar. Tólf og hálfur milljarður dollara er jafnvirði 1.619 milljörðum íslenskra króna.
Draumurinn um olíu
Draumurinn um að finna olíu kviknaði óvænt strax í kringum efnahagshrunið árið 2008, þegar Össur Skarphéðinsson, sem þá var nýlega sestur á ný í ráðherrastól eftir áratuga fjarveru frá völdum, hóf undirbúning þess að gefa út leyfi til olíuleitar norðaustur af Íslandi. Stefnan var að fara sömu leið og Norðmenn og safna í digran olíusjóð, sem myndi stækka bæði fljótt og örugglega með sölu á svörtu gulli sem í hugum margra var bara í seilingarfjarlægð.
Það kom reyndar fljótt í ljós að það var ekkert svo auðvelt að finna olíu á Drekasvæðinu. Hugmyndir sínar kynnti Össur strax árið 2007 en það reyndist ekki vera fyrr en 2009 að hægt væri að gefa út leyfi. Það leiddi þó ekki til olíuleitar og beið það því Steingríms J. Sigfússonar, sem hafði sest í stól atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, að úthluta fyrstu leyfum til olíuleitar árið 2013. Olían reyndist þó ekki í neinni seilingarfjarlægð, og draumar okkar um að verða olíuríki í anda Noregs eða Sádi-Arabíu urðu að engu árið 2018 þegar kínverska olíufélagið og það norska, sem höfðu fengið tvö af þremur olíuleitarleyfum, gáfust hreinlega upp. Þriðji leyfishafinn, Eykon Heiðars Guðjónssonar, þótti ekki hafa tæknilega, jarðfræðilega eða fjárhagslega burði til að halda olíuleit áfram og afturkölluðu íslensk stjórnvöld því þeirra leitarheimild.
Sömu kröfur til sjávarútvegs
Ef Ísland ákveður að skipta um kúrs og láta loftslagsaðgerðir sökkva í von okkar um tugmilljarða árlegan gróða af olíuleit, mun sjávarútvegurinn blikna í öllum samanburði. En hvað ef sömu kröfur yrðu gerðar til auðlindanýtingar þorskstofnsins og olíulindanna? Rekstrarhagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja var 89.973 milljónir árið 2023. Ef sömu formúlu og Heiðar Guðjónsson kynnti lesendum er beitt, myndi það þýða 44.986 milljónir króna. Það er mjög langt frá þeim hugmyndum ráðherra sjávarútvegs og fjármála að láta skrambi hóflegan verðmiðann fyrir afnot af sameiginlegri auðlind ráðast af raunverulegu virði afurðanna. Hvað með að líta þorskinn sömu augum og olíuna?
Athugasemdir (4)