Konur eru í öllum æðstu embættum landsins. Ísland trónir á toppi þeirra þjóða þar sem jafnrétti mælist mest í heimi. Samkvæmt mælikvarðanum vantar ekki nema örlítið upp á til að Íslendingar fái tíu í einkunn. Hvers vegna missa konur þá heilsuna fyrr en karlar – og hverfa jafnvel alfarið af vinnumarkaði langt fyrir aldur fram?
Undirliggjandi viðhorf
Árangurinn í jafnréttismálum er afrakstur persónulegra fórna sem baráttukonur hafa fært í gegnum tíðina, pólitískrar stefnumótunar, aðgerða og þrotlausar vinnu. Engu að síður ríkja ákveðnar þversagnir í jafnréttismálum hér á landi. Þrátt fyrir öflugt velferðarkerfi og lagalegt jafnrétti er vinnumarkaður kynskiptur, þar sem efnahagsleg völd og áhrif kvenna eru minni en karla. Ekki hefur dugað til að marka stefnu eða setja lög, enda verða undirliggjandi viðhorf til kvenna ekki leiðrétt með lögum.
Skakkt gildismat
Hér á landi er lítill hópur manna með margfalt hærri laun en annað fólk. Um er að ræða forstjóra stórra fyrirtækja sem fá margir hverjir árangurstengdar greiðslur, kaupauka, kauprétti og jafnvel keypt starfsréttindi ofan á himinhá grunnlaun. Rökin fyrir því eru að þeir beri svo mikla ábyrgð, en þrátt fyrir það hækka launin óháð því hvort virði fyrirtækisins hækkar eða lækkar undir þeirra stjórn. Úttekt Heimildarinnar í fyrra leiddi í ljós að árið 2023 kostuðu 20 forstjórar samtals 2.048 milljónir, eða 98 milljónir að meðaltali á hvert félag.
Marel var eitt af þessum 20 fyrirtækjum. Þrátt fyrir að virði félagsins hefði hríðfallið og það ítrekað sent frá sér afkomuviðvaranir vegna þess að reksturinn var ekki í takt við áætlanir, fengu fráfarandi forstjóri og arftaki hans samtals 355 milljónir á einu ári. Tryggingafélagið VÍS greiddi þremur forstjórum 148,6 milljónir. Fasteignafélagið Reginn greiddi tveimur mönnum 135,4 milljónir. Í fjárfestingarfélaginu SKEL sat einn maður að 193,4 milljóna króna greiðslum.
Til samanburðar er taxti leikskólastjóra með yfir 240 börn á leikskóla 971 þúsund á mánuði, sem gera 11 milljónir á ári. Hæsti mögulegi taxti leikskólastjóra, með hámarksábyrgð, menntun, reynslu og 16 prósent persónulegt álag, eru 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt rúmar 20 milljónir á ári. Ef hámarkslaun leikskólastjóra væru dregin af launum forstjóra SKEL væru enn eftir rúmar 173 milljónir af árstekjum hans 2023. Hann væri einn mánuð og eina viku að vinna sér inn fyrir hámarkslaunum leikskólastjóra í heilt ár, en leikskólastjóri á hámarkslaunum tæp 10 ár að ná árslaunum forstjórans.
Hlutverk forstjóra SKEL er að skapa verðmæti fyrir hluthafa. Því er lýst á þá leið að fjárfestingasjóðurinn þrói núverandi eignasafn með langtíma verðmætasköpun að leiðarljósi. Forstjórinn er með ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lögmannsréttindi. Undir hann heyra sex starfsmenn. Hlutverk leikskólastjóra er að leiða vinnustað sem sinnir uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri, þar sem velferð og hagur barna er hafður að leiðarljósi, börnum er búið hollt og hvetjandi umhverfi, sem og örugg náms- og leikskilyrði. Að baki liggur fimm ára nám leikskólakennara auk meistaranáms í stjórnun menntastofnana eða önnur sambærileg menntun. Á leikskóla með 200 börn starfa um 85 starfsmenn.
Forsíðuumfjöllun Heimildarinnar fjallar um stöðu kvenna. Þar bendir forseti Alþingis, Þórunn Sveinbjarnardóttir, á hvað það endurspeglar skakkt gildismat þegar það þykir sjálfsagt að fá svo miklu hærri upphæðir fyrir að sýsla með peninga heldur en að sinna börnum og gamalmennum. Á hátekjulista Heimildarinnar, þar sem tekið er mið af launagreiðslum, fjármagnstekjum og arðgreiðslum til eigenda fyrirtækja, eru aðeins tíu konur á lista yfir 50 tekjuhæstu einstaklinga landsins.
Það er eitt. Konur eiga mun erfiðara með að komast í stjórnunarstöður á almennum vinnumarkaði en í opinbera geiranum. Hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra er lágt, hlutfall kvenkyns stjórnarmanna er lágt og hlutfall kvenkyns stjórnarformanna er enn lægra. Þegar litið er til þeirra fyrirtækja sem velta mestum fjármunum í íslensku samfélagi eru konur varla sýnilegar. Ef konur komast áfram þá er það iðulega á forsendum karla, þær þurfa að leggja sig harðar fram og eru dæmdar harkalega af mistökum sínum. Allt tekur þetta sinn toll af konum. „Körlunum þykir þetta klárlega ekki vandamál. Þeir sjá ekkert athugavert við þetta. Þeir segja að konur þurfi aðeins að bíða og vera þolinmóðar, þetta komi eftir 10 til 15 ár – þá þurfi að setja kynjakvóta til að hjálpa körlunum,“ segir Ásta Dís Óladóttir, prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
Kerfisbundið vanmat á kvennastörfum
Svo er það hitt. Kerfisbundið vanmat á kvennastörfum, sem er og hefur verið viðvarandi vandi allt frá upphafi.
Það var fyrst árið 1720 sem Alþingi hóf vinnu við að stemma stigu við launamisrétti í algengustu störfum þess tíma, með samþykkt sem kvað á um að konur sem ynnu karlmannsverk með slætti, róðri eða torfristu skyldu fá karlmannslaun. Þrátt fyrir það fengu vinnukonur á sveitabæjum almennt helmingi lægri laun en vinnukarlar. Eða minna. Sama átti við í störfum sem tengdust veiðum þar sem konur fengu lægri laun en karlar í fiskverkun og sjómennsku. Í kjarasamningum 20. aldarinnar var launamisréttið fest í sessi, með ákvæðum um sérstakan launataxta fyrir fullorðna karla annars vegar og lægri taxta fyrir konur og unglingspilta. Á sjötta áratugnum var farið að aðskilja konur frá unglingspiltum og hækka laun þeirra. Árið 1958 fullgilti Ísland samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar um að greiða körlum og konum jöfn laun fyrir sömu störf eða jafnverðmæt störf. Fimmtán árum síðar voru lög sett um jafnlaunaráð, sem tiltaka að konum skuli greidd laun fyrir jafnverðmæt og öðru leyti sambærileg störf. Það var síðan ítrekað með jafnréttislögum. Í núgildandi lögum er kveðið á um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Í ár verða liðin 50 ár frá einum stærsta útifundi Íslandssögunnar sem fór fram á Lækjartorgi kvennafrídaginn 24. október 1975. Fátt hefur blásið konum eins mikinn byr í brjóst og samstaðan sem birtist þar, þegar um 90 prósent íslenskra kvenna mótmæltu kynbundnu misrétti. Ástæðurnar voru þessar: Ef vantaði starfsmann til illa launaðra og lítilsmetinna starfa var auglýst eftir konu, meðallaun kvenna við verslunar- og skrifstofustörf voru aðeins 73 prósent af launum karla við sömu störf og kynferði umsækjanda réði oft meira um stöðuveitingu en menntun og hæfni. Engin kona átti sæti í aðalsamninganefnd Alþýðusambands Íslands. Mismunur á meðaltekjum verkakvenna og verkakarla var 30 þúsund krónur á mánuði, eða um 132 þúsund krónur í dag. Bændakonur voru ekki fullgildir aðilar að samtökum stéttar sinnar. Vinnuframlag bændakvenna í búrekstri var metið á 175 þúsund krónur á ári, eða 772.599 krónur á ári á verðlagi dagsins í dag, eða 64.383 krónur á mánuði. Algengt var að sagt væri um húsmæður: Hún gerir ekki neitt, hún er bara heima. Starfsreynsla þeirra var einskis metin á vinnumarkaði. Auk þess var vísað til þess að ákveðnir menn sem höfðu ákvörðunarvald um stofnun dagvistarheimila fyrir börn töldu þau aðeins til þess fallin að auka á leti kvenna. Niðurstaðan var því sú að framlag kvenna til samfélagsins var lítils virt.
Í dag er atvinnuþátttaka hér á landi með því mesta sem gerist á heimsvísu. Alls eru um 70 til 80 prósent kvenna á vinnumarkaði. Þrátt fyrir það eru atvinnutekjur kvenna enn töluvert lægri en karla. Munurinn þar á er um 21 prósent. Helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og kerfisbundið vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Laun eru að meðaltali lægri í stéttum þar sem konur eru í meirihluta. Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa frá árinu 2020 má sjá mynd af launum 12 atvinnugreina eftir kynjum. Ef sá helmingur sem hefur lægri laun er skoðaður skipa konur 7 af 12 flokkum. Þessir sjö flokkar eru síðan skipaðir 72 prósentum þeirra kvenna sem eru í úrtakinu. Á móti eru karlar 75 prósent þeirra sem skipa þær stéttir sem tilheyra hærri helmingnum. Árið 2020 var óleiðréttur launamunur 13 prósent á almennum vinnumarkaði, 11 prósent hjá ríkinu og 5 prósent hjá sveitarfélögunum – en þar hefur starfsmat verið innleitt. Konur sem starfa við ræstingar og umönnun barna fá lægstu launin í íslensku samfélagi. Þess utan eru vinnudagar kvenna af erlendum uppruna lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi og laun þeirra lægri.
Samhliða aukinni menntun og þátttöku kvenna í atvinnulífinu hefur ábyrgð á börnum og heimili ekki flust í sama mæli yfir á karla. Almennt vinna konur meiri ólaunaða vinnu við heimilisstörf og umönnun ættingja en karlar, á meðan þeir vinna fleiri vinnustundir við launaða vinnu. Hagur karla gæti því falist í að auka jafnrétti á vinnumarkaði, til að draga úr fjárhagslegum hvata til aukinnar vinnu. Um leið gætu þeir orðið virkari þátttakendur í fjölskyldulífinu, sinnt heimili, börnum og nánum aðstandendum betur.
Kynbundinn launamunur festi sig í sessi vegna hugmynda samfélagsins um karlkyns fyrirvinnu. Eins og þekktur tónlistarmaður orðaði það í fyrra: „Ég held að maðurinn eigi að vera career-driven“ og leggja alla sína orku í það og hún á að vera „nurturing“. Karlar næðu ekki eins langt ef bæði hjónin væru á atvinnumarkaði. Út frá þessum hugmyndum þótti eðlilegt að greiða konum lægri laun en körlum. Enn er grunnt á þessum hugmyndum. Aðeins um fjórðungur karla lýsti sig ósammála því að karlar beri frekar ábyrgð á því að afla tekna í spurningakönnun meðal forstöðumanna ríkisins árið 2009. Þá tók 41 prósent karla ekki afstöðu til spurningarinnar.
Nú eru nokkrir mánuðir síðan ungur maður sem fór í framboð til þings og náði kjöri fyrir Miðflokkinn lýsti þeim hugmyndum að „allir karlar myndu vilja geta haldið uppi heimili sínu án þess að konan þyrfti að vinna. Að sjálfsögðu myndu þeir vilja það,“ hélt hann áfram. „Það er æðsta takmark.“
Niðurstaðan er sú að konur búa enn við launamisrétti, rúmum 60 árum eftir að launajafnrétti var leitt í lög.
Virði kvenna
Misrétti gegn íslenskum konum birtist ekki aðeins í mati á virði þeirra á vinnumarkaði. Það birtist ekki síst í mati á virði þeirra inni á heimilum og í nánum samböndum, þar sem enn er allt of algengt að konur sæti kynbundnu ofbeldi, þrátt fyrir allan árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum. Í forsíðuumfjöllun Heimildarinnar bendir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, Gyða Margrét Pétursdóttir, á að í fræðunum sé talað um að kynbundið ofbeldi sé það sem segir mest um strúktúrinn í samfélaginu.
Umræðan um kynbundið ofbeldi rataði í pontu Alþingis þegar varaþingmaður Miðflokksins opnaði sig um reynslu sína af heimilisofbeldi: „Fyrsta höggið, fyrsta sjokkið, lausar tennur þegar hann keyrir höfuð hennar af fullum þunga ofan í jörðina á meðan tjaldstæðagestir horfa á en gera ekki neitt. Löggan sem sagði: Kæra hann? Já, já, viltu ekki bara sofa á þessu í nótt og koma aftur á morgun? Hún vaknar reglulega með hann ofan á sér, brýtur öll mörk.“ Hún hafi orðið svo þreytt að það væri einfaldara að halda friðinn, spila leikinn, láta undan. „Hún er konan sem stendur hér í pontu Alþingis í dag. Fjórtán ár af ofbeldi. Það er ástæða fyrir því að ég á Schäferhund. Ég get treyst því að hann verji mig. Það gerir kerfið ekki.“
Rúmri viku síðar kynnti dómsmálaráðherra aðgerðaáætlun í jafnréttismálum: „Í ljósi þess hver árangur okkar er í jafnréttismálum þá er staðan hvað varðar ofbeldi gegn konum mikil þversögn – mikil og alvarleg þversögn. Það er ótrúlegt hversu algengt það er í íslensku samfélagi að konur og stúlkur verða fyrir ofbeldi. Ofbeldi sem þær verða fyrir vegna kynferðis síns. Þessi staða er svartur blettur á okkar samfélagi.“
Heilsu kvenna hrakar oft langt fyrir aldur fram. Stærsti hópurinn á örorkulífeyri eru konur sem komnar eru yfir fimmtugt. Í aldurshópnum 50 til 66 ára eru konur að jafnaði um 20 til 30 prósent fleiri en karlar með örorkumat.
Alla sína starfsævi þurfa konur að hafa meira fyrir því en karlar að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði, sem er þó grundvöllur frelsis. Án þess er hætt við að þær eigi erfiðara með að stíga út úr skaðlegum aðstæðum. Ef konum tekst að klífa metorðastigann þá þurfa þær oftar en ekki að leggja harðar að sér en karlar í sömu stöðum. Á sama tíma bera þær almennt þyngri byrðar varðandi heimilishald og umönnun barna. Fyrir utan hvað það er stór hópur kvenna sem glímir við afleiðingar ofbeldis sem hefur áhrif á heilsu þeirra og velferð.
Athugasemdir