Munið þið þegar nettröll voru nokkrir þrotaðir karlar og konur á áttræðisaldri og þeirra aðaliðja var að setja Íslandsmet í hrútskýringum með því að þykjast vita betur en 99,999% allra loftslagsvísindamanna heims? Fæst þorðu að tjá sig um útlendinga eða trans fólk.
Nú er tíðin önnur og að segjast vilja halda landinu hvítu er orðið jafnlítið mál og að segjast vilja kaffið sitt hvítt. Það er ekki orðað nákvæmlega svona en fólk segir kannski: Ég vil bara ekki þessa menningu hingað. Íslensk börn keyra um á vespum með hnífa og hafa gert árum saman. En ef börnin eru af erlendum uppruna þá er vandinn þeirra menning. Innflytjendur eru heilt yfir ólíklegri til að fremja glæpi en innfæddir, það er búið að rannsaka það, ég er með kvittanir fyrir því. Næsta mál.
Nýverið fannst fjöldagröf með fimmtán palestínskum sjúkraliðum. Þeir voru teknir af lífi, einn af öðrum, samanbundnar hendur, upp við vegg. Ekki fyrsta fjöldagröfin. Ekki sú síðasta. Í hérlendum fréttum kom fram að ísraelska hernum þótti fórnarlömbin grunsamleg. Hvað ef fréttaflutningur hefði verið eins af fórnarlömbum Rússa í Bucha? Hefði ekki allt orðið vitlaust?
Þá stóðu vestræn ríki (eðlilega) tárvot í stafni og töluðu fyrir frelsinu. Nú er eins og þau séu á ættarmóti þar sem þekktur níðingur er búinn að gyrða niður um krumpaðan rassinn og dreifir miðum með tölvuteiknuðu barnaklámi en samt halda allir áfram að senda börnin í pössun. Það er betra að halda sambandinu góðu. Fyrir hvern?
Á sama tíma er hófsama miðjan og mannúðlega hægrið á Íslandi að loka eina skýlinu fyrir heimilislaust flóttafólk, hætta samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM), leyfa lögreglunni að njósna um alla af því bara (viva le fasismi) og opna brottfararúrræði fyrir flóttafólk. (Ekki úrræði ef þú hefur ekki val!) Hversu langt á pendúllinn að sveiflast? Svo eru fjármögnuð vopnakaup fyrir marga milljarða í nafni friðar á meðan að vopnaframleiðendur hlæja sig í svefn.
Nej, hold nu op, ég vil bara ekki þessa menningu hingað …
Athugasemdir (1)