Íslenska þjóðin hefur í gegnum aldirnar þurft að læra að lifa í sátt við veður og vinda; hættulegt umhverfi sem umlykur okkur öll. Eldgos og jarðhræringar stoppa okkur ekki. Þau eru áföll sem við tökumst á við. Að alast upp á Íslandi felur í sér að alast upp við þessar aðstæður. Flest skiljum við hættuna sem fylgir því að ganga út í óbyggðir, að lifa í nálægð við hafið, og hvað við gerum þegar jörð skelfur.
Það afhjúpar kannski hversu vel okkur hefur tekist, hversu hissa við erum á því þegar bjarga þarf ferðafólki sem tjaldað hefur á miðhálendinu, þegar það gengur á nýstorknuðu hrauni eða það hefur þurft að lifa af landinu – bókstaflega – í Loðmundarfirði í fimm daga. Okkur hefur tekist að mestu leyti að læra að lifa af í aðstæðum sem aðrir týnast í.
Í stað náttúruaflanna, sem við höfum lært að byrgja okkur fyrir, höfum við hins vegar fundið okkur nýjar ógnir – og sumar höfum við hreinlega búið til alveg sjálf.
Einstakur áhugi
Áhugi Íslendinga á stýrivöxtum hlýtur að vera sérstakt fyrirbæri á heimsvísu. Þegar peningastefnunefnd rökstyður ákvarðanir sínar er því streymt beint í hljóði og mynd á stærstu fréttasíðum landsins, og stillt upp á áberandi stað á forsíðum. Greinendur eru fengnir í morgun- og síðdegisþætti í útvarpinu til að spá fyrir um hvað fólkið í Seðlabankanum kemur til með að gera. Um tíma var hægt að veðja á það í alþjóðlegum veðbönkum hvernig þróun stýrivaxta yrði á Íslandi.
Lífsgæði okkar markast enda verulega af vaxtastigi og verðbólgu. Verðbólgan sem nú er verið að reyna að berja á bak aftur hefur verið drifin áfram af fordæmalausum fasteignaverðshækkunum og síhækkandi matarkörfu. Að eiga þak yfir höfuðið og mat á diskinn er samkvæmt mælikvörðum dýrara en það var. Fleiri og fleiri einstaklingar og fjölskyldur eru að kikna undan byrðunum sem þau eru látnar bera, sem hafa í raun aðeins aukist í hávaxtaumhverfinu, sem er ætlað að þrýsta á móti verðhækkunum. Fólkið sem er stillt upp í fremstu línu í baráttunni.
Sama hvert er litið
Merkin um þetta eru úti um allt. Á síðasta ári fjölgaði umsækjendum um aðstoð umboðsmanns skuldara, eins og fjallað er um í Heimildinni í dag. Fleiri umsóknir eru farnar að berast frá fólki í vinnu og þeim sem búa í eigin fasteignum. Það er eiginlega sama hvert litið er, mælikvarðar sýna okkur að það er erfiðara að ná endum saman fyrir venjulegt fólk nú en áður. Þau sem hafa getað lagt fyrir eru í auknum mæli farin að ganga á þann sparnað til að hafa í sig og á. Það er ekki aðeins erfiðara fyrir unga fólkið að kaupa sér fasteign, heldur eru jafnvel þeir sem hafa búið lengi við stöðugleika að sjá sparnaðinn sinn rýrna og mánaðarleg útgjöld hækka hratt.
Það þarf ekki að verja löngum tíma í heitu pottunum eða á Fjármálatips til að komast að því að þessa stöðu þekkja allir. Ef við erum ekki sjálf að takast á við nær óyfirstíganlegt verkefni að halda heimilisbókhaldinu réttun megin við núllið, er einhver í nærumhverfi okkar sem er að því. Samfélagið hefur í raun aðlagast aðstæðum sem skerða lífsgæði stórs hóps fólks. Þeir sem eiga meiri eignir en skuldir sjá verðmæti sín vaxa á meðan þeir sem eru að reyna að kaupa sér þak yfir höfuðið sjá von um að komast út af hömlulausum leigumarkaði fjarlægjast. Við höfum sæst á að við látum suma bera meira af byrðunum en aðra.
Fögnum ákvörðunum
Við sem samfélag höfum smám saman sætt okkur við að svona virki einfaldlega hlutirnir á Íslandi. Smátt og smátt höfum við farið að líta á óstöðugt verðlag og himinháa vexti sem sjálfsagðan hlut af tilverunni hér. Við fögnum og erum jákvæð þegar verðbólga mælist yfir fjórum prósentum, og stýrivextir eru lækkaðir niður í 7,75 prósent. Við gleðjumst af því að verðbólga og vextir eru ekki lengur yfir tíu prósentum. Það er ekki eðlilegt ástand.
Verðbólga undanfarinna missera, eins og svo oft á Íslandi, er fyrst og fremst drifin áfram af húsnæðisverði. Flestum ber saman um að það sé skortur á húsnæði sem sé ástæða þess að fasteignaverð heldur áfram að hækka. Þegar Seðlabankinn hækkar vexti til að kæla fasteignamarkaðinn, eykur það kostnaðinn við nýbyggingar og dregur úr framboðinu. Skorturinn heldur áfram að knýja verð upp á við, sem veldur enn meiri verðbólgu. „Háir stýrivextir byggja ekki hús,“ sagði Halla Gunnarsdóttir, nýkjörin formaður VR, í kvöldfréttum RÚV í vikunni, þar sem hún brást við stýrivaxtalækkun.
Engin töfralausn
Ísland er háð innflutningi á mörgum sviðum. Það á við um matvæli, eldsneyti, nær allar aðrar vörur. Það sem er framleitt á Íslandi er yfirleitt háð hráefni eða aðföngum erlendis frá. Þegar hrávörur eða vörur hækka í verði erlendis, endurspeglast það oft í innlendu verðlagi. Seðlabankinn getur reynt að draga úr innlendri neyslu, en hann ræður ekki við hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu, matvælum eða öðrum innfluttum vörum. Þó við eyðum minna hér heima, halda verðhækkanir utan frá áfram að grafa undan kaupmætti okkar.
Stýrivextir eru engin töfralausn. Það er raunar rannsóknarefni af hverju við höfum ekki dregið þann lærdóm nú þegar, að það þurfi meira til og önnur stjórntæki samhliða himinháum vöxtum. Það er líka rannsóknarefni að við skulum sættast á það sem samfélag að láta hluta okkar bera byrðarnar af verðbólguaðgerðunum fyrir okkur öll. Það krefst hins vegar vinnu stjórnmálamanna að finna aðrar leiðir í baráttunni við verðbólgu.
Lifað við verðbólgu og vexti
Í stað þess að þróa langtímastefnu í húsnæðis- og efnahagsmálum, hafa stjórnvöld ítrekað sett Seðlabankann í hlutverk bjargvættar. En Seðlabankinn hefur takmörkuð tæki, sem bitna helst á skuldugum heimilum. Pólitísk stefnumótun, eins og markviss húsnæðisuppbygging eða beinar aðgerðir til að draga úr verðbólgu án þess að færa byrðarnar á almenning, er erfiðari en einfaldar vaxtahækkanir. Þess vegna hefur verið freistandi að láta Seðlabankann um verkið – jafnvel þótt það bitni mest á þeim sem hafa síst efni á því.
Það er kannski út af þessu öllu sem það er orðið jafnstór hluti af því að vera Íslendingur, að lifa af ógnir náttúrunnar, að lifa við verðbólguna og vexti Seðlabankans.
Athugasemdir (1)