Eitt fárra smáforrita sem ég leyfi að senda mér tilkynningar í símann minn er frá BBC. Nokkrum sinnum á dag kemur ljós á skjáinn þar sem birtist lítill kassi: „Breaking news“.
Oft fæ ég að Donald Trump hafi sagt eitthvað, stundum að Keir Starmer hafi sagt eitthvað eða Donald Tusk. Verst er þegar síminn minn lætur vita af einhverju sem Israel Katz eða Bibi Netanyahu eða Pútín sagði. Allir þessir karlar, alltaf að segja eitthvað. Tromma eitthvað upp. Setja út kassann og byrsta sig. Láta hver annan heyra það og ég fæ tilkynningu um hverja skeytasendingu. Viðbrögðin mín eru orðin stöðluð. „Ja-há,“ segi ég upphátt og dæsi.
„Allir þessir karlar, alltaf að segja eitthvað
Ég leyfi líka netbankanum mínum að senda mér tilkynningar, gmail, messenger og skrafl-appinu mínu. Bankinn sendir mér margar tilkynningar um að ég þurfi að greiða reikning, ja-há, og fáar tilkynningar um að mér hafi borist greiðsla, ja-há. Flestir tölvupóstar sem ég fæ snúast um verkefni sem ég þarf að ljúka eða eitthvað tengt viðhaldi á húsinu, ja-há. Á messenger skiptumst við vinirnir á myndum af köttum sem hafa komið sér í óvenjulegar aðstæður. Þá segi ég upphátt og við sjálfan mig: „Frábært, alveg til fyrirmyndar.“
Það er mikið talað um muninn á upplýsingum og fréttum, á upplýsingum og staðreyndum, það er svo mikið af upplýsingum úti um allt alltaf og alls staðar að það er ómögulegt fyrir okkur að vinna úr þeim. Miðillinn skiptir máli. Ég er með allar heimsins upplýsingar í vasanum og mér líður stundum eins og ég sé að taka þær inn, en miðillinn, síminn minn, gerir engan greinarmun á því að Haukur vinur minn hafi klárað stafina sína á þreföldu orðagildi i skrafli og öllum heimsins harmi. Þetta er sami litli kassi. Þetta er sama bælda dæs: „Ja-há.“
Athugasemdir