Friedrich Merz, sem er væntanlega næsti leiðtogi Þýskalands, boðaði nýtt varnarbandalag Evrópuríkja í umræðum í neðri deild þýska þingsins, Bundestag, í morgun.
Þetta varnarbandalag innifeli fleiri viljug ríki en þau sem falla innan Evrópusambandsins.
Merz, sem er formaður Kristilegra demókrata, sagði að tillaga hans um gríðarlega aukningu útgjalda til varnarmála væri nauðsynleg vegna „árásarstríðs Vladimirs Pútín gegn Evrópu“. Mikil aukning hernaðarútgjalda væri „ekkert annað en fyrsta stóra skrefið í átt að nýju evrópsku varnarbandalagi“.
Það bandalag innifæli „lönd sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu en hafa mikinn áhuga á að byggja upp þessa sameiginlegu evrópsku vörn með okkur eins og ... Bretland og Noregur“.
Um leið boðaði Merz sjálfbærni Evrópu í vopnaframleiðslu, með þeim hætti að varnarmálasamningar ættu að vera gerðir við evrópska framleiðendur „hvenær sem mögulegt er“.
„Við verðum að endurbyggja varnargetu okkar,“ sagði hann við þingmenn og bætti við að þetta ætti að gera með „sjálfvirkum kerfum, með sjálfstæðu evrópsku gervitunglaeftirliti, með vopnuðum drónum og með mörgum nútímalegum varnarkerfum“ sem pöntuð eru frá fyrirtækjum á meginlandinu.
„Þetta er stríð gegn Evrópu og ekki bara stríð gegn landamærahelgi Úkraínu,“ sagði Merz við þýska þingið fyrir atkvæðagreiðslu um áætlanir sem fela einnig í sér gríðarlega nýja fjármögnun fyrir innviði.
Merz þarf tvo þriðju hluta atkvæða í Bundestag til að aflétta hömlum á útgjöldum og heimila lántökur vegna stóraukinna útgjalda til varnarmála.
Athugasemdir