Vart hefur farið framhjá mörgum að þegar vinnuveitandi minn til áratuga, Samherji, var borinn þungum og alvarlegum sökum af fjölmiðlum árið 2019 rann mér blóðið til skyldunnar. Mér þótti þá og þykir enn sú gagnrýni sem fyrirtækið varð fyrir óréttmæt. Enginn er yfir gagnrýni hafinn. En gagnrýni þarf að vera málefnaleg og réttmæt. Það dugar ekki að halda því fram að „gögnin tali sínu máli“ og án frekari rökstuðnings.
Það er þó nákvæmlega þannig sem Aðalsteinn Kjartansson ástundar sína blaðamennsku. Hann segir ekki frá því hvað gerðist í raun veru. Þess í stað byggir Aðalsteinn allan sinn málflutning upp með þeim hætti að hann segir lesendum hvað þeim eigi að finnast um þau mál sem hann fjallar um hverju sinni. Í mínum augum er það ekki blaðamennska.
Þá þegar spjótin beinast að honum þá slær hann ryki í augu lesenda og endurtekur sömu klisjukenndu frasana aftur og aftur sem engin innstæða er á fyrir. Nýlegur leiðari hans sem birtist í Heimildinni 14. mars sem var titlaður, „Að teygja sig of langt“ er gott dæmi um slíkt vinnubrögðin sem Aðalsteinn viðhefur. Skoðum það nánar.
Aðalsteinn segir: „Á sama tíma og annars staðar er reynt að verja fjölmiðla, vill formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þingmenn rannsaki þá. Ekki dugi þriggja ára rannsókn lögreglunnar sem leiddi ekkert annað í ljós en það að rétt var haft eftir þeim sem lýstu sér sem „skæruliðadeild“ Samherja, þegar það talaði frjálslega um að ná sér niður á þeim sem ljóstraði upp um stórfelldar mútugreiðslur útgerðarinnar.“
-
Fjölmiðlar í hinum stóra heimi hafa einmitt tekið til í sínum ranni þegar upp hefur komist um rotin epli. Þannig var gerður skurkur í Þýskalandi þegar upp komst að Claas Relotius, margverðlaunaður blaðamaður, hafði skáldað fréttir. Fjölmiðlar á Norðurlöndum tóku greinar úr birtingu og bækur úr sölu þegar í ljós kom að vinur Aðalsteins, Lasse Skytte, hafði viðhaft sambærileg vinnubrögð og Aðalsteinn í umfjöllun sinni um Samherja, sem var augljóslega innblásinn af skrifum Aðalsteins og annarra sem mest hafa haft sig frammi í umfjöllun um fyrirtækið á síðustu árum. Í þessu samhengi má rifja upp að Aftenposten baðst afsökunar á umfjöllun sinni um fyrirtækið og starfsheiður Skytte stendur laskaður eftir. BBC setti á fót nefnd til að taka á móti ásökunum eftir að upp komst um slæleg vinnubrögð þar á bæ fyrir nokkrum árum. Það eru því á engan hátt óþekkt eða óeðlilegt að vinnubrögð fjölmiðla séu gagnrýnd og um þau fjallað.
-
Þá ber að árétta að rannsókn á því sem kallað hefur verið byrlunarmálið var hætt en hún ekki felld niður. Á þessu tvennu er regin munur. Lögreglu- og sakamálarannsóknir eru felldar niður ef ekki eru taldar líkur á að rannsóknin leiði til sakfellingar. Rannsókn er er hætt ef ekki er grundvöllur til að henni sé fram haldið. Lögreglustjórinn á Norðausturlandi lýsti því að sakborningar hefðu verið ósamvinnuþýðir ( líkt og kom fram í staðfestingarbréfi ríkissaksóknara) og að stafrænum sönnunargögnum hefði verið eytt (líkt og kom fram í tilkynningu lögreglunnar á Facebook í september í fyrra).
Aðalsteinn segir: „Niðurstöður þeirrar rannsóknar er afdráttarlaus [sic], jafnvel þó að lögreglan sjálf hafi viljað gefa annað til kynna í fordæmalausri yfirlýsingu þegar hún felldi málið niður. Allt sem haft var eftir starfsmönnum og ráðgjöfum Samherja í fréttum um „skæruliðadeildina“ var satt og rétt haft eftir. Líklega er umfjöllun Stundarinnar og Kjarnans, fyrirrennara Heimildarinnar, sú eina sem lögregla hefur staðfest með ítarlegri og áralangri rannsókn að sé sannleikanum samkvæm.“
-
Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að ekkert ólöglegt var í samtölum mínum við vini mína og að hvorki einka- né almannahagsmunir hefðu réttlætt birtingu þeirra. Það er staðreynd og kemur fram í staðfestingarbréfi ríkissaksóknara, en sem tók undir þessa tilteknu athugasemd lögreglunnar um réttmæti birtingar einkasamtala með vísan í almannahagsmuni. Meira um það síðar.
-
Í lögregluskýrslu í málinu nr. III/2.4.1 er fjallað um skoðun lögreglu á WhatsApp-samskiptum mínum sem og tölvupóstinum mínum. Þar segir orðrétt: „Við skoðun á umfjöllun fréttaskýringum Kjarans [sic] og Stundarinnar um kæranda er nokkuð ljóst að þær hafi verið unnar upp úr gögnum sem finna má í ofangreindum spjallgrúppum, sem og tölvupósti kæranda.“ Síðan staðfestir lögregla að tiltekin ummæli hafi verið orðrétt. Lögreglan staðfestir ekki að allt hafi verið réttmætt. Málið er að fyrir liggur að í sumum tilfellum var klippt innan úr samskiptum og í öðrum tilfellum voru samskipti tekin úr samhengi. Dæmin hér að neðan eru aðeins örfá af mörgum, en sýna vel hvernig vinnubrögð Aðalsteinn telur ásættanleg, en ég tel skelfileg:
-
Í grein Aðalsteins „Skæruliðadeildin leitaði til Kristjáns Þórs og taldi hann sinn mann“, var samtal mitt við vinkonu mína sett upp, „orð fyrir orð“. Hins vegar var feitletraði textinn klipptur út í umfjöllun Aðalsteins:
AMC: Svo ég leyfi mér að sletta svona í morgunsárið: I have a cunning plan
PS: Haha ok ok 😊
AMC: og ég þarf þína hjálp í því
PS: What can do for you my Lady svo ég sletti aðeins
AMC: https://www.visir.is/g/20202038092d/helga-vala-ordlaus-yfir-kastljosi-kvoldsins
AMC: I call bullshit
AMC: Þarna er bleikur fíll og ég held að við eigum að benda á hann
AMC: En bleiki fíllinn er ekki sá sem flestir halda
PS: Hun stefnir í að vera einn af okkar ómerkilegustu þingmönnum og eru margir á þeim bekk fyrir
PS: En hvað ertu að spá
AMC: Þarna er verið að setja upp leikrit
AMC: Helga Vala gagnrýnir RÚV og framgöngu þeirra.
AMC: Og „rífst“ svo við dóttur sína á netinu
AMC: Þetta er leikrit
AMC: Þetta gerir henni kleift að segja seinna meir að hún sé enginn varðhundur RÚV þegar hún tekur upp hanskann fyrir þá
PS: Sammála eru að reyna að slá ryki í augu fólks
AMC: akkúrat
AMC: og ég hefði talið nauðsynlegt að við höfum það „on record“ að við höfum séð þetta blöff. En ég held að við eigum samt ekki að gera mikið úr því.
AMC: Það sem mér datt því í hug og vildi bera undir þig er eftirfarandi:
PS: Og þess vegna velur hún að gagnrýna Einar en ekki neinn úr Kjarnafjölskyldunni sem er búin að hreiðra um sig á RÚV
AMC: Væri það nokkuð úr takti fyrir þig að deila þessari frétt og segja eitthvað á þessa leið: „Frábær leiksigur þeirra mæðgna. Nú er búið að gera Helgu Völu kleift að taka upp hanskann fyrir RÚV þegar fram í sækir án þess að verða kölluð varðhundur. Frammistaðan verðug Edduverðlaunum. Er ekki annars RÚV sem úthlutar þeim?“
PS: Góð hugmynd fer í málið 😊
AMC: Þú auðvitað notar þín orð og hefur þetta eins og þú telur rétt
AMC: en ég held að það sé ágætt að hafa þetta á skrá
-
Einnig er rétt að nefna annað dæmi úr því að Aðalsteinn vísar í ummæli vinkonu minnar um að „stinga, snúa og strá salti í sárið“, en þau ummæli voru klippt úr samhengi. Eins og ég hef áður lýst opinberlega nýttum við okkur litbrigði íslenskrar tungu en e.t.v. eiga tréhestar, snauðir af skopskyni og sligaðir af meintum siðferðislegum yfirburðum sínum, erfitt með að skilja slíkt. En hér eru ummælin í heild sinni. Sem fyrr fylgdu feitletruðu orðin ekki með í fréttaflutningi verðlaunablaðamannanna:
PS: Þú ert svo blóðþyrst 🤣🤣
AMC: Hehe já ég veit
AMC: Ég vil stinga, snúa og strá salti í sárið
PS: Sem segir mér að þú veist eitthvað sem þú getur staðið við að við leggjum fram
AMC: Jabb
AMC: Auðvitað
AMC: Við höfum það
Aðalsteinn segir: „Morgunblaðið hefur á undanförnum vikum flutt ítrekaðar fréttir af ásökunum starfsmanns Samherja í garð blaðafólks.“
-
Þetta er einfaldlega rangt. Morgunblaðið byggði á gögnum frá lögreglu. Í þau fáu skipti sem eitthvað byggðist á mér var það skýrt tekið fram að það væru mínar vangaveltur.
Aðalsteinn segir: „Engar vísbendingar koma fram í lögreglurannsókninni um að sími annars þeirra, sjómannsins Páls Steingrímssonar, hafi verið afritaður.“
-
Þetta er eins rangt og hugsast getur. Fyrir liggur játning og lýsing eins sakbornings á hvernig hún afhenti starfsmönnum Ríkisútvarpið síma sinn og að hann hafi verið fórum stofnunarinnar í sólarhring. Þá liggur fyrir, eins og Aðalsteinn bendir á sjálfur í greininni, bara aðeins ofar, að ljóst er að unnið var upp úr þessum samtölum. Varla er Aðalsteinn að halda því fram að þeir hafi með öðrum hætti brotist inn í samskiptin, því þau var hvergi annars staðar að finna en á símanum mínum. Ef svo er þá hlýtur aðkoma blaðamannanna að vera ennþá alvarlegri en ella. Það sér allt skynsamt fólk.
Aðalsteinn segir: „Vilhjálmur virðist vilja skipa sér í hóp þeirra sem telja nauðsynlegt að beita öllum tiltækum ráðum til að varpa ljósi á hvernig blaðamenn gátu fjallað um samfélagslega mikilvægar fréttir. Þetta gerist þrátt fyrir að fyrir liggi fordæmalaus og ítarleg rannsókn lögreglunnar á því hvort blaðamenn hafi gert nokkuð rangt. Niðurstaða lögreglu var skýr: Engar vísbendingar fundust um að blaðamenn hafi farið út fyrir hlutverk sitt, hvað þá brotið lög.”
-
Þetta er líka rangt. Í staðfestingarbréfi ríkissaksóknara er einmitt sagt að hvorki einka- né almannahagsmunir hafi réttlætt dreifingu og birtingu einkasamskipta minna og ekki hafi verið rætt um neitt ólöglegt.
-
Ef engar vísbendingar væru um að blaðamenn hefðu brotið lög þá hefði rannsóknin verið felld niður, en ekki hætt. Orðrétt segir í yfirlýsingu lögreglu þegar rannsókn var hætt 26. september 2024: „Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum.“ Skýrara verður það varla.
-
Niðurstaðan um að hætta rannsókn byggði þar að auki á því að sakborningarnir hefðu verið ósamvinnuþýðir sem torveldaði rannsóknina. Þetta kemur m.a. fram í staðfestingarbréfi Ríkissaksóknara.
Aðalsteinn segir: „Þegar allt kom til alls viðurkenndi lögregluembættið á Norðurlandi eystra að lokum að það eina sem sneri að blaðamönnum í rannsókninni hafi verið fréttaskrif.“
-
Þetta er vitaskuld líka rangt. Ákvæði 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga fjalla um að „hnýsast í, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi.“ Aðalsteinn viðurkennir að hann hafi séð þau gögn sem hann byggði fréttaskrif sín á. Það liggur fyrir að Aðalsteinn skýrði frá, birti og dreifði í heimildarleysi gögnum. Það liggur líka fyrir að það var ekki réttlætanlegt með vísan til almanna- eða einkahagsmuna eins og lögreglan og ríkissaksóknari lýstu yfir með afdráttarlausum hætti.
Aðalsteinn segir: „Fyrst og fremst er þetta tækifæri fyrir nefndina til að skoða af alvöru hvers vegna framkvæmdarvaldið lét hjá líða að bregðast við þegar svokölluð „skæruliðadeild“ Samherja stóð í skipulögðum aðgerðum gegn uppljóstraranum í Samherjamálinu, með það fyrir augum að hræða hann frá því að ferðast til Namibíu og bera þar vitni í dómsmáli sem höfðað hefur verið á hendur þeim sem tóku við mútum frá Samherja. Sú frétt er sú eina sem lögreglan lét vera að fjalla um í rannsókn sinni á blaðamönnum.“
-
Lögreglan tiltók sérstaklega, og ríkissaksóknari tók undir, að „Þessar fréttir sem skrifaðar voru upp úr spjallþráðum og öðru innihaldi símans voru að mati embættisins á engan hátt þannig að þessi hegðun væri réttlætanleg með tilliti til almanna eða einkahagsmuna. Í þessum spjallþráðum og einkagögnum sem fréttirnar voru birtar upp úr var hópur af fólki sem vann hjá Samherja að tjá hugsanir sínar og skoðanir um menn og málefni tengt vinnuveitanda þeirra og tjá sig að einhverju leyti um tiltekið fjölmiðlafólk. Að auki voru þau að skipuleggja greinarskrif og viðbrögð við fjölmiðlaumfjöllun og lögreglurannsókn sem vinnuveitandi þeirra var undir. Þessir aðilar sem þarna voru í samskiptum virðast á engan hátt hafa verið að skipuleggja neinar ólögmætar aðgerðir gegn einu eða neinum og í rauninni ekki tala um neitt sem var ólöglegt.“ Skýrara og afdráttarlausara getur það ekki verið.
Staðreyndin er sú að stórfjölmiðlar á Íslandi, að undanskildu Morgunblaðinu, ólíkt áðurnefndum fjölmiðlum í Þýskalandi, Norðurlöndum og Bretlandi, hafa heykst á því að upplýsa málið. Þeir hafa vanrækt að draga allt fram í dagsljósið um vinnubrögð Aðalsteins og félaga hans. Blaðamannafélagið hefur farið fram fyrir skjöldu í að réttlæta vinnubrögð Aðalsteins, enda stýrt af gömlum vinnufélaga og Aðalsteinn lengst af varaformaður félagsins. Ekki var því mikils að vænta þaðan. Lögmaður Blaðamannafélags starfar á sömu stofu og lögmaður Aðalsteins. Því ljóst að hann myndi aldrei gerast gagnrýninn á blaðamennina. Eftir stendur að leita til annarra stjórnvalda. Sérstaklega þar sem ótvírætt er að Ríkisútvarpið, opinber stofnun, átti beina aðkomu að málinu og var einn megingerandinn.
Ég hóf þessa grein á tilvitnun um að „gögnin tala sínu máli.“ Það er ástæða fyrir því. Áður en Aðalsteinn komst yfir einkasamskipti mín, átti ég margsinnis orðastað við hann á samfélagsmiðlum vegna umfjallana hans um Samherja, sérstaklega um fullyrðingar um að Samherji ætti félag á Marshall-eyjum að nafni Cape Cod Ltd. Ég þráspurði hann um heimildirnar fyrir því. Milli þess sem hann eyddi út spurningum mínum svaraði hann „gögnin tala sínu máli.“ Ég skoðaði gögnin. Ekkert studdi þessa fullyrðingu. Þvert á móti kom fram í gögnunum frá DNB banka í Noregi hvernig eignarhaldi Cape Cod væri háttað enda hafði bankinn allar upplýsingar um það. Þá neitaði bankinn síðar meir að láta Samherja fá skýrslu um rannsókn sína á viðskiptum Cape Cod í gegnum bankann vegna þess að „félagið væri alls ótengt Samherja.“ Enn og aftur, skýrara verður það ekki.
Leiðari Aðalsteins er að mínu mati birtingarmynd afar brenglaðs hugarfars um hlutverk og vinnubrögð fjölmiðla. Öllum geta orðið á mistök en Aðalsteinn sér ekki risavaxinn bjálkann í eigin auga, en er óþreytandi í leit sinni að ímynduðum flísum í auga náungans.
Að lokum skal því haldið til haga að ég skrifaði þessa grein en naut til þess dyggrar aðstoðar vina minna enda mér alltaf mikilvægt að það sem ég læt frá mér sé satt og rétt og vel skrifað. Ég tel það vera til marks um vönduð vinnubrögð og ekkert annað.
Páll Steingrímsson, skipstjóri.
-
Aðalsteinn Kjartansson hefur aldrei hitt eða talað við Lasse Skytte. Páll hlýtur því að vera að fara mannavillt, þegar hann vísar til vináttu þeirra.
-
Engar efnislegar athugasemdir hafa verið gerðar við fréttaflutning af Samherjamálinu eða vinnubrögðin þar að baki.
-
Engar athugasemdir hafa verið gerðar við Aðalstein, hvorki af hálfu lögreglu né saksóknara, um að hann hafi eytt nokkru. Að honum vitandi átti engin gagnaöflun sér stað í stafrænum gögnum hans eða annarra blaðamanna. Engu hefur verið eytt.
-
Aldrei hefur því verið haldið fram að lög hafi verið brotin. Lögreglan rannsakaði þó ekki ummæli sem fjölluðu um hvernig koma ætti í veg fyrir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar fyrir dómi í Namibíu. Svo virðist sem lögregla hafi annað hvort horft framhjá þeim ummælum eða að búið hafi verið að fjarlægja þau úr WhatsApp þegar símtæki Páls var afhent lögreglu.
-
Kenning og afstaða lögreglunnar var sú að almenningur hafi ekki átt að fá upplýsingar um það hvernig Samherji beitti starfsfólki sínu og ráðgjöfum gegn uppljóstrara Samherjamálsins, blaðamönnum og öðrum þeim sem tjáðu sig um mál fyrirtækisins opinberlega. Lögreglan rannsakaði það hins vegar ekki og kemur fram í rökstuðningi lögreglu fyrir ákvörðunum sínum, sem sjá má úrdrátt úr í staðfestingu ríkissaksóknara á að loka málinu, að lögregla hafi valið að reyna einungis að fá úr því skorið hvort og þá hver hafi afritað símtæki Páls. Það var því ekki til rannsóknar hvort einka- eða almannahugsmunir hefðu réttlætt birtingu.
-
Aldrei hefur öðru verið haldið fram en því að lögreglan hafi komist að því að rétt hafi verið haft eftir í samtölum.
-
Birt brot úr samtalinu breytir engu um samhengi ummælanna.
-
Morgunblaðið fjallaði vissulega ítrekað um ásakanir starfsmanns Samherja í garð blaðafólks. Sautján færslur hafa birst undir merkjum Spursmála á vef Mbl.is, af þeim byggja sex þeirra beint á viðtali við Pál, og þrjár sem byggja beint á viðtali við lögmann Páls. Fleiri fréttir snúast svo um að reyna að sýna fram á að fullyrðingar Páls séu réttar. Mikið af þeim gögnum sem rötuðu inn í lögregluskýrslu og Morgunblaðið vann upp úr eiga uppruna hjá Páli, svo sem tímalína sem hann vann, ítrekaðar yfirlýsingar hans hjá lögreglu, og fleira í þeim dúr.
- Það eina sem liggur fyrir er að einn af sakborningum í málinu segist hafa farið með síma Páls í Efstaleiti. Ekkert liggur fyrir um hvort síminn hafi verið afritaður þar, eða annarsstaðar, og gerði lögreglan enga tilraun til að útskýra hvernig gögn kunna að hafa farið af símtækinu og ratað til blaðamanna. Raunar, eins og kemur fram í greininni, staðfesti lögreglan með rannsóknaraðgerð að ekki er hægt að afrita símtæki með þeim hætti sem lýst hefur verið.
-
Því hefur aldrei verið haldið fram að lög hafi verið brotin. Lögreglan rannsakaði þó ekki ein ummæli sem gæfu þó tilefni til, sem fjölluðu um hvernig koma ætti í veg fyrir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar fyrir dómi í Namibíu. Svo virðist sem lögregla hafi annað hvort horft framhjá þeim ummælum eða að búið hafi verið að fjarlægja þau ummæli úr WhatsApp þegar símtæki Páls var afhent lögreglu.
-
Sakborningar fylgdu öllum lögum og reglum sem gilda, mættu til skýrslutöku þegar úr því hafði verið skorið að heimilt væri samkvæmt lögum að kalla þá til yfirheyrslu vegna fréttaskrifa. Á blaðamönnum hvílir lagaleg skylda að svara ekki spurningum um heimildarmenn og það var ekki gert. Það getur ekki verið túlkað sem svo að blaðamenn séu ósamvinnuþýðir eða torveldi rannsókn mála.
-
Sakarefni, eins og það var kynnt í skýrslutökum og þegar málinu var lokað, voru fréttaskrif.
-
Þetta er frjálsleg túlkun á niðurstöðu ríkissaksóknara, sem fjallaði ekki sérstaklega um efnisatriði málsins, heldur aðeins ástæður þess að lögreglan lokaði því. Það hefur lengi legið fyrir að starfsmenn lögreglunnar á Norðurlandi Eystra telur það ekki koma almenningi við hvernig Samherji beitt starfsfólki sínu fyrir sig og skipulagði rógsherferðir gegn uppljóstrara Samherjamálsins, blaðamönnum og öðrum þeim sem hafa tjáð sig um það opinberlega. Meginþorri almennings virðist þó á annari skoðun og sá Samherji ástæðu til að biðjast opinberlega afsökunar á framferði sínu í kjölfar uppjóstrunarinnar.
-
Aftur: Þetta er frjálsleg túlkun á niðurstöðu ríkissaksóknara, sem fjallaði ekki sérstaklega um efnisatriði málsins, heldur aðeins ástæður þess að lögreglan lokaði því. Það hefur lengi legið fyrir að starfsmenn lögreglunnar á Norðurlandi Eystra telur það ekki koma almenningi við hvernig Samherji beitt starfsfólki sínu fyrir sig og skipulagði rógsherferðir gegn uppljóstrara Samherjamálsins, blaðamönnum og öðrum þeim sem hafa tjáð sig um það opinberlega. Meginþorri almennings virðist þó á annari skoðun og sá Samherji ástæðu til að biðjast opinberlega afsökunar á framferði sínu í kjölfar uppjóstrunarinnar.
-
Lögreglan rannsakaði ekki ein ummæli sem gæfu þó tilefni til, sem fjölluðu um hvernig koma ætti í veg fyrir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar fyrir dómi í Namibíu. Svo virðist sem lögregla hafi annað hvort horft framhjá þeim ummælum eða að búið hafi verið að fjarlægja þau ummæli úr WhatsApp þegar símtæki Páls var afhent lögreglu.
-
Aðalsteinn hefur ekki „margsinnis“ átt „orðastað“ við Pál. Undanfarin ár hefur Páll hins vegar birt ítrekaðar athugasemdir og greinar, fyrst og fremst á Vísi og í Morgunblaðinu, þar sem hann beinir orðum sínum að Aðalsteini. Hvorki hefur verið um samtal að ræða né skoðanaskipti.
-
Því hefur aldrei verið haldið fram. Í umfjöllun um Samherjamálið kom fram að norski bankinn DNB taldi að Cape Cod væri í eigu Samherja, þar sem starfsmaður útgerðarinnar hafi bæði verið stofnandi prókúruhafi reiknings Cape Cod í DNB.
-
Í janúar árið 2023 gerði Samherji sátt við Skattinn sem fól í sér að útgerðin greiddi 60 milljónir króna í viðbótarskatta vegna þess að félagið stóð ekki rétt að staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds af sjómönnum á erlendum skipum. Þar var um að ræða áhafnir sem störfuðu sem verktakar á vegum félagsins Cape Cod FS.
Athugasemdir