Fjölmiðlar gegna aðhaldshlutverki en það þarf einnig að spyrja spurninga um hverjir veita þeim aðhald og sinna eftirliti gagnvart þeim.“ Að þessu spurði Vilhjálmur Árnason, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, þegar hann staðfesti við Morgunblaðið að hann myndi leggja það fyrir nefndina að skoða hvernig gögn um „skæruliðadeild“ Samherja bárust fjölmiðlum. Morgunblaðið hefur á undanförnum vikum flutt ítrekaðar fréttir af ásökunum starfsmanns Samherja í garð blaðafólks. Margt í fréttaflutningnum er rangt og annað gefur villandi mynd af staðreyndum málsins. Þessi fréttaflutningur hefur hins vegar stutt dyggilega við samsæriskenningu, sem lengst af átti sér helst heimili á Moggablogginu, um víðtækt samsæri blaðamanna um að komast í síma sjómanns í von um að finna þar eitthvað bitastætt.
Þær útgáfur samsæriskenningarinnar sem ganga lengst fjalla í stuttu máli um það að blaðamennirnir hafi narrað andlega veika konu til þess að eitra fyrir eiginmanni sínum, með lyfjum sem hann útvegaði henni, til þess að hún gæti skoðað símann hans og afhent hann Ríkisútvarpinu þar sem hann hafi í heilu lagi verið afritaður. Það er ekkert sem styður þessa kenningu, enda er hún ekki rétt. Það hefur þó ekki flækst fyrir þeim sem hafa haldið henni á lofti í bráðum fjögur ár. En þó það sé ekki satt, hefur samsæriskenningin gefið þeim sem vilja ná einhvers konar höggi á blaðamenn sem spyrja gagnrýninna og erfiðra spurninga, og afhjúpa það sem aðrir vilja fela, færi á því. Þar hefur Morgunblaðið, elsta dagblað landsins, gegnt lykilhlutverki í að færa kenningunni einhvers konar lögmæti.
„Fjölmiðlar gegna aðhaldshlutverki en það þarf einnig að spyrja spurninga um hverjir veita þeim aðhald og sinna eftirliti gagnvart þeim
Vilhjálmur þingmaður veit vel hver hefur eftirlit með fjölmiðlum. Og hann veit að það er ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, né þingið sjálft. Dómstólar skera úr um hvort fjölmiðlar haldi sig innan ramma laganna en ekki stjórnmálamenn. Til er sérstök eftirlitsstofnun, Fjölmiðlanefnd, sem hefur svo mjög víðtækt eftirlitshlutverk um starfsemi fjölmiðla. Í lýðræðisríkjum sem við viljum bera okkur saman við hefur verið lögð áhersla á að tryggja sjálfstæði fjölmiðla og koma í veg fyrir að stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á störf þeirra. Hugmyndir um pólitískt eftirlit með fjölmiðlum þekkjast helst í einræðisríkjum og geta haft kælingaráhrif á fjölmiðlaumfjöllun. Það er kannski freistandi fyrir valdhafa að horfa frekar í þá átt, sem auðveldar þeim að beita valdi sínu, en það er ekki síst þá sem mikilvægi fjölmiðla og lýðræðislegrar umræðu sannar sig.
Það mál sem Vilhjálmur ætlar sér nú að taka upp í þingnefnd hefur lögreglan á Norðurlandi eystra líka þegar rannsakað í þaula. Niðurstöður þeirrar rannsóknar er afdráttarlaus, jafnvel þó að lögreglan sjálf hafi viljað gefa annað til kynna í fordæmalausri yfirlýsingu þegar hún felldi málið niður. Allt sem haft var eftir starfsmönnum og ráðgjöfum Samherja í fréttum um „skæruliðadeildina“ var satt og rétt haft eftir. Líklega er umfjöllun Stundarinnar og Kjarnans, fyrirrennara Heimildarinnar, sú eina sem lögregla hefur staðfest með ítarlegri og áralangri rannsókn að sé sannleikanum samkvæm.
En hvað var það sem var sagt í þessum samtölum, sem lögreglu þótti ástæða til að rannsaka? „Er búin að vera stöðnun og allt of mikið fum og fátt [sic] í þessu hjá okkur en vonandi brýnir ÞMB hnífana og fer í að slátra Jóhannesi,“ skrifaði sjómaðurinn til innanhússlögmanns Samherja, og átti við að forstjóri fyrirtækisins, Þorsteinn Már Baldvinsson, myndi brýna hnífana og slátra Jóhannesi Stefánssyni, sem uppljóstraði um mútugreiðslur fyrirtækisins til áhrifafólks í Namibíu í skiptum fyrir aðgengi að verðmætum fiskveiðikvóta landsins. Það er óumdeilt að útgerðin greiddi fjármuni inn á aflandsreikning leynifélags stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar. Við þessu hefur útgerðin gengist í yfirlýsingum sínum. Talsmenn fyrirtækisins vilja bara ekki kalla það mútur. Engar efnislegar athugasemdir hafa verið gerðar við fréttir af Samherjamálinu né af „skæruliðadeild“ Samherja.
„Þú ert svo blóðþyrst 🤣🤣“ skrifaði sjómaðurinn einnig til lögmannsins, sem svaraði: „Hehe já ég veit. Ég vil stinga, snúa og strá salti í sárið.“
Engar vísbendingar koma fram í lögreglurannsókninni um að sími annars þeirra, sjómannsins Páls Steingrímssonar, hafi verið afritaður. Enginn botn fékkst í það, þrátt fyrir margra ára lögreglurannsókn, hvernig gögnin bárust blaðamönnum. Eðlilega svöruðu blaðamenn því engu hvernig gögn rötuðu til þeirra, enda hvílir á blaðamönnum lagaskylda til að vernda heimildarmenn sína. Það breytir því engu þótt lögreglan haldi að hún viti hver heimildarmaðurinn sé. Þrátt fyrir að lögreglan hafi sett fram tilgátu um að sími sjómannsins hefði verið afritaður í heilu lagi, tókst henni ekki að sýna fram á hvernig það gæti mögulega hafa átt sér stað.
Í raun tókst lögreglu snemma í ferlinu að staðfesta að engin leið er að sú kenning þeirra fáist staðist. Það reyndi lögreglan að leika eftir en tókst ekki. Ástæðan er sú að samskiptin sem umfjallanir Stundarinnar og Kjarnans, fyrirrennara Heimildarinnar, byggðu á samtölum í dulkóðuðu spjallforriti sem ekki er hægt að afrita. Því var heldur aldrei svarað hvort gögnin gætu átt uppruna sinn annars staðar en í síma sjómannsins.
„Hehe já ég veit. Ég vil stinga, snúa og strá salti í sárið.
Hvað það er nákvæmlega sem Vilhjálmur telur að þingið og þeir pólitísku fulltrúar sem þar sitja eigi að rannsaka er enn óljóst. Vilhjálmur lét hafa eftir sér að til greina kæmi að skipa sérstaka rannsóknarnefnd Alþingis til að skoða málið. Frá því að lög um rannsóknarnefndir Alþingis tóku gildi hefur þingið skipað fimm slíkar nefndir. Fjórar þeirra fjölluðu um málefni tengd bankahruninu 2008 og ein, sem er tiltölulega nýtekin til starfa, fjallar um aðdraganda og eftirmál snjóflóðs sem varð fjórtán manns að bana í Súðavík árið 1995. Valdheimildir rannsóknarnefnda þingsins eru víðtækar og hefur ríkt pólitísk eining um að rík ástæða þurfi að vera til staðar, til að gripið sé til þessa úrræðis.
Vilhjálmur virðist vilja skipa sér í hóp þeirra sem telja nauðsynlegt að beita öllum tiltækum ráðum til að varpa ljósi á hvernig blaðamenn gátu fjallað um samfélagslega mikilvægar fréttir. Þetta gerist þrátt fyrir að fyrir liggi fordæmalaus og ítarleg rannsókn lögreglunnar á því hvort blaðamenn hafi gert nokkuð rangt. Niðurstaða lögreglu var skýr: Engar vísbendingar fundust um að blaðamenn hafi farið út fyrir hlutverk sitt, hvað þá brotið lög.
Það er mikilvægt að muna að blaðamennirnir voru aldrei grunaðir um að hafa eitrað fyrir sjómanninum, þrátt fyrir það hafi ýmist verið fullyrt eða gert að því skóna í opinberri umræðu. Blaðamennirnir voru aldrei grunaðir um að hafa dreift myndefni af kynferðislegum toga, jafnvel þó að saksóknari embættisins hafi nær fullyrt það opinberlega. Þegar allt kom til alls viðurkenndi lögregluembættið á Norðurlandi eystra að lokum að það eina sem sneri að blaðamönnum í rannsókninni hafi verið fréttaskrif. Sakarefnið var langur listi af fyrirsögnum frétta sem birst höfðu í Stundinni og á Kjarnanum.
Það kemur að lokum í ljós hvað Vilhjálmur vill að þingið rannsaki, vinnubrögð fjölmiðla. Hugmyndin ein og sér er þó hins vegar til þess fallin að skaða sjálfstæði fjölmiðla, á tímum þar sem þingmenn tala gjarnan um mikilvægi þeirra í baráttu við falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Það er þó sem betur fer ekki einn maður sem getur beitt löggjafarvaldinu með þeim hætti sem Vilhjálmur virðist vilja. Þó að skaðinn af rannsóknum yfirvalda og óbilgjörnum árásum Samherja á blaðamenn sé þegar skeður, eru enn tækifæri í stöðunni.
Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman til að ræða rannsóknarhugmyndir Vilhjálms, gefst öðrum þingmönnum nefndarinnar tækifæri til að rækta það hlutverk sem þeim er ætlað: að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Þetta færir þeim tækifæri til að skoða hvernig stjórnvöld brugðust við þegar lögregluembættið á Norðurlandi eystra hóf rannsókn á blaðamönnum – eingöngu fyrir að fjalla um fréttir sem þóttu óþægilegar fyrir stórfyrirtæki í þeirra heimabyggð. Hvernig þáverandi forsætisráðherra gróf undan frjálsum fjölmiðlum með yfirlýsingum sínum og hvernig pólitískur aðstoðarmaður þáverandi dómsmálaráðherra beitti sér í umræðu um málið.
Fyrst og fremst er þetta tækifæri fyrir nefndina til að skoða af alvöru hvers vegna framkvæmdarvaldið lét hjá líða að bregðast við þegar svokölluð „skæruliðadeild“ Samherja stóð í skipulögðum aðgerðum gegn uppljóstraranum í Samherjamálinu, með það fyrir augum að hræða hann frá því að ferðast til Namibíu og bera þar vitni í dómsmáli sem höfðað hefur verið á hendur þeim sem tóku við mútum frá Samherja. Sú frétt er sú eina sem lögreglan lét vera að fjalla um í rannsókn sinni á blaðamönnum.
Þetta er tækifæri til að varpa ljósi á hvort stjórnvöld hafi vísvitandi horft undan og hvort kerfið sé nægilega vel búið til að vernda tjáningarfrelsi og lýðræðisleg gildi og tryggja raunverulega vernd uppljóstrara.
Þarf eitthvað að rannsaka þetta ? Málið er augljóst... stjórnvöld vildu málið dautt. Varðandi raunverulega vernd uppljóstrara þá man ég ekki betur en Katrín hefði komið eitthverju málarmyndadæmi í gegn... sem var auðvitað sýndarmennska sem fjölmiðlar hefðu átt að sjá í gegnum. En allt frá hruni hafa allar nefndir og "rannsakendur" snúist um að tala málin niður og forðast rannsóknir. Sem dæmi sem þá var öllum ráðuneytum og öllum fjölmiðlum sent sannanir að Burlington Loan ... einn mest umræddi kröfuhafinn... væri stofnaður af Deutsche Bank í þeim tilgangi einum að hafa sem mest fé út úr hruninu... hvað sem það kostaði.. og ef enginn hirti um sannleikann... þar á meðal þið... þá liggur dæmið ljóst fyrir. Og þetta var 2013 sem þið fenguð þessar staðfestingar. Hrunið var ekki shit happens... heldur vísvitandi fórn stjórnvalda til að fela getuleysið og samstarfið við kröfuhafa. Our man in Iceland eins og þeir sögðu.Og innflutningur snjóhengjunnar eins og Seðló kallaði það var án upprunarvottorða... aka... peningarþvætti.
Varðandi Samherja þá hefur spillingin séð um sína og nú er Arna ekki lengur lögmaður Samherja og Samherji siglir lygnan sjó... í boði ykkar.... því þið eydduð púðrinu í að fjalla um aumingja varnarlausu fjölmiðlana... í stað þess að skoða kerfið og reyndar snúninga Samherja.
Karma is a bitch. Vitið enn ekki hverjir voru á bak við..... hvað var falið né af hverjum..... hvað var í raun í gangi og hverjir í ríkiststjórn og kerfinu sinntu ekki lögboðinni skyldu sinni og sitja enn drýgingarlegir og tala um lög og reglur...án sjálfhverfra fjölmiðlamanna þá væri þetta ekki hægt.
Sérstakur var fake... rannsóknir voru feik og sjálfhverf umræðan var byggð á skoðunum og mati... ekki staðreyndum. Og markaðsmisnotkun er þegar fjármálafyrirtæki lánar aðila sem er ekki borgunarmaður fyrir láninu pening til að fjárfesta í lánaveitenda.. en allir sluppu nema Al thani... sem var auðvitað borgunarmaður fyrir því. Í íslandsbankaútboðinu voru allir dubbaðir upp sem fagfjárfestar en fagfjárfestir er ábyrgur þegar hann tekur við eða veitir upplýsingar sem öðrum eru huldar eða nýtur sérstakra kjara... en allir sluppu.... með peninginnn líka og bankastjórinn fékk gilda sjóðinn fyrir að axla ábyrgðina... en smælkið verður kannski látið axla ábyrgðina... svo hvar er rannsóknin ?
Að því leyti er ég sammála saksóknaranum fyrir norðan... hættið þessu væli og farið að vinna... getið byrjað á að rannsaka kerfið með nafnalista og gerningum sem verndar Samherja. Nefndir eru bara til að fela.
Ísland er spillt... fjölmiðlar líka.