Dómur er fallinn í máli Norðfirðingsins Alfreðs Erlings Þórðarsonar. Héraðsdómur Austurlands komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði framið tvöfalt manndráp í Neskaupstað í ágúst í fyrra en að hann væri ósakhæfur vegna alvarlegs geðrofs.
Í dómnum segir að gögn málsins sýni fram á að enginn annar en sá ákærði hefði getað verið að verki þegar hjónin Rósa G. Benediktsdóttir og Björgvin Ólafur Sveinsson voru svipt lífi á heimili sínu þann 21. ágúst. Sannað væri að hann hefði veist að hjónunum líkt og lýst væri í ákæru.
Þar segir þó að Alfreð hefði verið í djúpu geðrofi við verknaðinn og ekkert hafi bent til þess að hann hefði skipulagt að ráða hjónunum bana.
Alfreð var því talinn ósakhæfur og sýknaður af kröfu ákæruvaldsins um refsingu í málinu. Honum verður þó gert að sæta öryggisvistun á viðeigandi stofnun til ófyrirséðrar framtíðar og verður ekki látinn laus nema geðlæknar meti hann hæfan til þess.
Þá var Alfreð sakfelldur fyrir vopnalagabrot en hann hafði í för með sér hníf með 15 sm blaðlengd á opinberum stað án lögmætrar ástæðu í maí 2024, vorið áður en hann svipti hjónin lífi.
Börn hjónanna fóru fram á skaðabótakröfu við aðalmeðferð málsins í síðasta mánuði. Dæmdi héraðsdómur þeim í vil og Alfreð verður því gert að greiða aðstandendum samtals um 31 milljón króna í miskabætur. Þá var allur sakarkostnaður lagður á Alfreð – þar með talin málsvarnarlaun lögmanna og kostnaður vegna rannsóknar og geðmats.
Athugasemdir (1)