Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, talaði með afdráttarlausum hætti gegn stefnu Bandaríkjanna í ræðu sinni á landsfundi flokksins í hádeginu.
„Tími alvörunnar er runninn upp. Ég segi það með djúpri sorg í hjarta, og ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að segja það. Núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum eru ekki málsvarar raunverulegis frelsis. Þau eru að leika sér að eldinum og eru jafnvel þegar farin að brenna niður mikilvæga þætti af þeirri heimsmynd sem er grundvöllur friðar og frelsis. Fyrir okkur, fyrir Evrópu og fyrir Bandaríkin sjálf,“ sagði hún. Þórdís Kolbrún sagðist þó hafa trú á Bandaríkjunum og Bandaríkjamönnum en að landið stefndi í ranga átt.
Síðustu daga hefur mikið gengið á í utanríkisstefnu Bandaríkjanna þar sem þau hafa tekið afgerandi afstöðu með Rússlandi. Í gær gerði forsetinn Donald Trump lítið úr Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta í heimsókn hans í Hvíta húsinu í gær og fullyrti að Úkraína myndi ekki sigra stríðið við Rússa.
„Látið ekki blekkjast. Það sem er að gerast núna er ekki gott fyrir heiminn, það er ekki gott fyrir Evrópu og það er ekki gott fyrir Ísland. Og ekki gott fyrir Bandaríkin sjálf.
Það mun vonandi ekki líða langur tími þangað til Bandaríkin skipta um kúrs því þau stefna svo sannarlega í ranga átt. Ég er handviss um að sagan muni fara óblíðum höndum um þau sem munu blekkjast af því sem er raunverulega að gerast og við horfum upp á.“
Athugasemdir