Myndskeið, sem greinilega er búið til af gervigreind og sýnir framtíðarsýn fyrir Gaza-svæðið, birtist á opinberum Instagram-reikningi Donalds Trump Bandaríkjaforseta í nótt.
Myndbandið byrjar á því að sýna fólk og hermenn á stríðshrjáðu svæðinu, sem hefur verið vettvangur gríðarlegra átaka og árása frá Ísraelsher frá því í október 2023. Fyrir ofan birtast orðin: „Gaza 2025. Hvað er næst?“
Það sem virðist vera næst, að mati forsetans, eru fagrar strandlengjur, glæsisnekkjur, skýjaklúfar og breiðgötur. Á þeim keyra Teslur og einhver sem líkist mjög Elon Musk situr og borðar brauð með hummus.
Myndskeiðið sýnir barn sem heldur á gylltri blöðru sem lítur út eins og höfuðið á Donald Trump og risavaxin gyllt stytta af forsetanum stendur á miðri götu. Forsetanum bregður sjálfum fyrir í myndbandinu dansandi við konu á skemmtistað og þar sem hann liggur á sólarströnd ásamt Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og drekkur svaladrykk.
Peningum rignir niður á börn sem hoppa á ströndinni og hús eru merkt með orðunum „Trump Gaza“.
Undir myndskeiðinu spilast tónlist. Textinn er eftirfarandi: „Donald Trump will set you free, bringing the life for all to see, no more tunnels, no more fear, Trump Gaza is finally here.“
Trump hefur á síðastliðnum vikum látið í ljós áætlanir sínar um að Bandaríkin slái mögulega eign sinni á Gaza og geri svæðið að rivíeru, eða baðströnd, Mið-Austurlanda.
Þá hefur forsetinn stungið upp á því að þær tvær milljónir Palestínumanna sem búa á svæðinu yrðu reknar burt. En sú hugmynd hefur mætt gríðarlegri gagnrýni frá alþóðasamfélaginu.
Á Gaza hafa yfir 46 þúsund manns, þar af um 18 þúsund börn, látist í 15 mánaða átökum milli Ísraels og Hamas-samtakanna. Vopnahlé tók gildi þann 20. janúar en það mun taka endi á laugardag. Enn er óljóst hvað mun þá taka við.
Athugasemdir (1)