Viðræðunefnd Kennarasambands Íslands skrifaði á tólfta tímanum í gær undir sameiginlegan kjarasamning aðildarfélaga KÍ við ríki og sveitarfélög. Verkföllum sambandsins er þar með aflýst.
Samningurinn gildir til fjögurra ára og felur í sér um 24% launahækkun á tímabilinu. Í samningnum er einnig forsenduákvæði sem kennarar höfðu lagt áherslu á en nokkrar deilur höfðu staðið um.
Kjarasamningur verður kynntur félagsfólki á næstu dögum og hann borinn undir atkvæði félagsfólks. Nánara fyrirkomulag verður kynnt innan skamms. Niðurstaða atkvæðagreiðslu þarf að liggja fyrir 4. mars næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KÍ.
Vegna þessa hefur öllum fyrirhuguðum og yfirstandandi verkföllum Kennarasambandsins verið aflýst. Félagsmenn KÍ sem starfa í Borgarholtsskóla, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Tónlistarskóla Akureyrar hafa verið í verkfalli frá 21. febrúar. Félagsmenn KÍ í Leikskóla Snæfellsbæjar hafa verið í verkfalli frá 1. febrúar.
Einnig höfðu verið boðuð ótímabundin verkföll í leikskólum í sveitarfélögunum Kópavogi, frá 3. mars, Hafnarfjarðarkaupstað, frá 17. mars og Fjarðabyggð frá 24. mars og tímabundin verkföll í grunnskólum í sveitarfélögunum Akraneskaupstað, Hveragerðisbæ og Ölfusi, 3. mars, sem einnig er aflýst
Athugasemdir