Jens Garðar Helgason gefur kost á sér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hann er sá fyrsti til að bjóða sig fram tið embættisins fyrir landsfund flokksins sem haldinn verður um mánaðamótin. Önnur sem orðuð hafa verið við embættið erum Diljá Mist Einarsdóttir og Jón Gunnarsson. Ljóst er að mikil endurnýjun verður á forystu flokksins en þá verður einnig kjörinn nýr formaður þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir eru báðar í framboði.
Jens Garðar er nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins og er oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann er fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og varaformaður Samtaka atvinnulífsins.
Hann greinir frá framboði sínu á Facebooksíðu sinni þar sem hann greinir frá því að hafa verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins frá unga aldri: „Framundan eru mikilvæg verkefni sem skipta landið allt máli. Við þurfum að stíga stór skref í þá átt að leysa betur úr læðingi þá krafta sem búa í þjóðinni. Einkaframtakið, öflugur atvinnurekstur um allt land og frelsi til að framkvæma, leggja grunninn að allri farsæld okkar sem þjóðar. Kraftinn má ekki tjóðra niður með vantrú, óþarfa hindrunum, þunglamalegu regluverki eða með því að líta á atvinnulífið sem mjólkurkú fyrir hið opinbera,“ skrifar Jens á Facebook.
Þá segir hann að einstaklingsframtakið þurfi að eiga sér málsvara: „Með því að tryggja fólki um land allt tækifæri og gott umhverfi til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd, leggjum við grunninn að farsæld alls samfélagsins,“ skrifar Jens.
Athugasemdir