Þegar ég var að alast upp var enginn rasismi á Íslandi. Seinna áttaði ég mig á ástæðunni: Það voru eiginlega engir útlendingar hér. Með auknum fjölda innflytjenda varð rasisminn hins vegar áþreifanlegur, sérstaklega gagnvart/í garð innflytjenda sem eru ekki hvítir á hörund. Íslendingar höfðu bara ekki fengið nægjanleg tækifæri til að kenna öðrum um allt sem aflaga fer í samfélaginu, um að stela störfunum okkar, fremja alla glæpina og stela konunum okkar.
Raunar var erlendum hermönnum í hernáminu um miðja síðustu öld kennt um að stela konunum, og þær konur sem féllu fyrir þokka þessara erlendu karlmanna voru niðurlægðar, jaðarsettar sem samfélagsþegnar.
Hvað störfin varðar þá eru útlendingar ekki að stela neinum störfum, þeir eru að vinna störfin sem Íslendingar vilja ekki sinna. Síðasta vor birti Morgunblaðið viðtal við fulltrúa dekkjaverkstæðis í Reykjavík sem sagði Íslendinga hætta að nenna að vinna erfiða líkamlega vinnu. „Ég ætla bara að segja það hreint út. Þetta er erfiðisvinna og þeir eru yfirleitt ekki tilbúnir að gera neitt sem er erfitt. Pólverjarnir og flestir aðrir eru yfirleitt komnir til að vinna og eru tilbúnir að gera hvað sem er,“ sagði maðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni. Tilbúnir til að gera hvað sem er.
Viðhorfið sem ég mætti
Auðvitað er fullt af Íslendingum sem vinna líkamlega erfiða vinnu. Ég er hins vegar ekki ein af þeim. Eina líkamlega vinnan sem ég man eftir að hafa sinnt var þegar ég skúraði reglulega stigagang í bílastæðahúsi. Ég var alveg meðvituð um að þetta þótti ekki fín vinna en hún hentaði mér ágætlega á þessum tíma, var eitt af þremur hlutastörfum sem ég sinnti meðfram háskólagöngu.
Ég man samt að ég kveið oft fyrir því að mæta. Ekki því vinnan væri svo líkamlega erfið heldur af því ég kveið því hvað ókunnugt fólk sem væri að fara um stigaganginn myndi segja við mig þann daginn. „Það er ógeðsleg lykt af sápunni sem þú ert með,“ sagði einn sem var eflaust að fara að sækja bílinn sinn. Þetta var bara hefðbundin gólfsápa sem beið eftir mér frá vinnuveitandanum, rétt eins og skúringagræjan.
„Konan sem þrífur hjá okkur veit ekkert hvað hún er að gera,“ sagði pirruð kona sem bjó í íbúðakjarna fyrir eldri borgara þarna rétt hjá. Þessi íbúðakjarni tengdist hvorki mér né fyrirtækinu sem ég vann hjá, og þess heldur þrifin þar. „Þú þarft að vanda þig svo þú gerir þetta almennilega,“ bætti hún við.
Og síðan var það allt fólkið sem fannst ég vera fyrir sér þarna í tröppunum á milli hæða í bílastæðahúsinu. Stundum langaði mig að segja við fólk að það ætti ekki að tala við mig eins og einhvern aumingja sem það mætti hreyta hverju sem er í. En ég gerði það ekki því ég vildi halda vinnunni, vildi ekki að það yrði kvartað yfir mér, yfir því að ég hefði verið með einhvern dónaskap. Ég er líka fullkomlega meðvituð um að þarna var fólk að tala við hvíta unga konu sem talaði reiprennandi íslensku.
Störfin mikilvægari en fólkið sem sinnir þeim
„Í hvert sinn sem fólk spurði mig við hvað ég ynni skammaðist ég mín,“ skrifaði Diljá Sigurðardóttir í Stundina árið 2018 þar sem hún rifjar upp að hafa byrjað að vinna við ræstingar þegar hún var 18 ára eftir að henni var sagt upp á pitsustað. Diljá segir frá því þegar maður spurði hana hvar maður lærir svona góða íslensku þegar hún spurði hvort hún mætti skúra þar sem skrifborðið hans stóð, og fékk til baka spurningu sem hún hafði heyrt svo oft: „Nú, ertu íslensk?“ Hún skrifar um hvernig ræstingar falli undir líkamleg skítverk, líkt og sorphirða, útfararstjórn, slátrun og allt annað sem snúi að rusli, dauða og óhreinindum.
Diljá skrifaði: „Flest þessara starfa eru nauðsynleg svo að samfélagið fari ekki á hliðina, en þrátt fyrir það verða þeir sem vinna við þessi störf oft fyrir fordómum innan samfélagsins, þar sem störfin eiga það öll sameiginlegt að þykja á einhvern hátt skítug og/eða niðurlægjandi. Það er meðal annars af þeim sökum sem þau eru gjarnan illa launuð og ekki metin að verðleikum, það er líkt og samfélagið telji störfin sjálf mikilvæg en fólkið ekki.“
Betri nýting fjármagns
Staða fólks sem starfar við ræstingar er mun verri en annarra á vinnumarkaði ef litið er til fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði, líkamlegrar og andlegrar heilsu, kulnunar og réttindabrota á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í skýrslunni Staða og lífsskilyrði fólks sem starfar við ræstingar sem Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins birti árið 2023. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, sagði þá í samtali við Heimildina að niðurstöðurnar komi ekki beint á óvart: „En það kemur mér á óvart hversu slæm staðan er.“
Í skýrslunni kemur fram að á seinni árum hafi endurskipulagning, niðurskurður, einkavæðing og útvistun orðin algengt stef í rekstri skipulagsheilda. Slíkar breytingar séu oft gerðar í nafni betri nýtingar fjármagns en þær kalla hins vegar um leið á starfstengt óöryggi starfsfólks. Margt bendi líka til að einkavæðing opinberrar þjónustu dragi úr vellíðan starfsfólks. Þá er vakin athygli á erlendri samantektarrannsókn á ólíkum rekstarformum hjúkrunarheimila sem sýndi að fjárhagsleg frammistaða hagnaðardrifinna heimila sé að jafnaði betri en þeirra sem eru óhagnaðardrifin en um leið að líðan hvoru tveggja starfsfólks og heimilisfólks sé almennt verri.
Þegar skýrslan birtist voru ræstingar þegar bornar uppi af innflytjendum, 78%, og alls fjórðungur starfsfólksins karlar. „Þannig að konur og innflytjendur bera uppi ræstingar í okkar landi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við RÚV.
Virðingin minnkað
Diljá ræddi við íslenska konu sem hefur áratuga reynslu af ræstingum en að hennar mati hafði aukið útboð þá og þegar valdið launalækkun og minnkandi virðingu fyrir starfsgreininni: „Það eru margir núna í þessum störfum sem eru útlendingar og þetta er fólk sem því miður er allt of mikið litið niður á. Ég hef grun um að þetta sé ekki nógu vel borgað miðað við það sem áður var. Mér finnst það sorglegt og mér þykir virðingin fyrir starfinu hafa minnkað.“
„Mér þykir virðingin fyrir starfinu hafa minnkað
Fleiri viðmælendur hennar tóku í sama streng; einn hafði lent í því að prósentuhlutfallið var lækkað en fleiri verkefnum bætt við – með öðrum orðum átti hann að vinna meira en á styttri tíma.
Metoo-byltingin hófst þennan vetur. Konur af erlendum uppruna skrifuðu undir áskorun þar sem þær kröfðust þess að samfélagið viðurkenndi að konur af erlendum uppruna hafi mismunandi þarfir sem þarf að mæta á vinnustöðum þeirra, í samfélaginu og af hálfu þeirra sem veita samfélagslega þjónustu. Um leið skoruðu þær á samfélagið að viðurkenna að konur af erlendum uppruna séu viðkvæmur hópur sem er útsettur fyrir kerfisbundinni mismunun, ofbeldi og niðurbroti. Margar þeirra sem skrifuðu undir deildu reynslu sinni af ofbeldi, áreitni eða mismunun.
Að prófa útlenska konu
Hátt í hundrað konur af erlendum uppruna skrifuðu undir áskorunina, og margar þeirra deildu reynslu sinni af ofbeldi, áreitni eða mismunun. Ein frásögnin kom frá konu sem var nauðgað þar sem hún var við störf við ræstingar. Hún lýsti því hvernig hún var alltaf ein á staðnum, seint um kvöld og sá almennt ekki annað fólk. Þá sjaldan sem annað fólk varð á vegi hennar voru samskiptin engin. Enginn talaði við hana nema þessi maður sem sýndi henni áhuga, áður en hann nauðgaði henni á gólfinu sem hún skúraði á hverju kvöldi, og sagðist maðurinn hafa viljað „prófa útlenska konu“.
Í kjölfarið steig fram Nicole Leigh Mosty, sem þá var nýlega hætt sem þingmaður Bjartrar framtíðar, og sagði mikilvægt að rjúfa félagslega einangrun kvenna af erlendum uppruna hér á landi. Hún sagðist sjálf hafa upplifað það að sem útlensk kona fengi hún hvorki sama traust né sömu tækifæri og aðrir hér á landi. „Þú getur ímyndað þér að upplifa það í ræstingum. Það er eitt að upplifa þetta sem þingkona en hvað með að vera í ræstingum?“ en Nicole starfaði við ræstingar fyrst eftir að hún flutti til landsins, eina starfið sem henni þá bauðst.
Talað um reynslu kvenna sem upplifun þeirra
Andreina Edwards frá Venesúela sagði í viðtali við RÚV fyrr í þessum mánuði að viðmót stjórnenda ræstingafyrirtækisins sem hún vann hjá, Ræstitækni, hafi versnað eftir að hún varð trúnaðarmaður og enn frekar eftir að hún varð barnshafandi. Vegna þessa sagði Þórir Gunnarsson, eigandi Ræstitækni: „Mér þykir auðvitað mjög leitt að hún hafi haft þessa upplifun en ég held að við höfum lagt okkur alla fram um að koma vel fram við þessa konu og við fögnuðum því að fá trúnaðarmann á vinnustaðinn því að við höfðum ekki haft trúnaðarmann áður og okkur fannst þetta til mikilla bóta. Ég veit ekki alveg hvers vegna hún hefur fengið þessa upplifun.“
„Mér þykir auðvitað mjög leitt að hún hafi haft þessa upplifun
Þórir viðurkennir sumsé það sem Andreina segir ekki sem staðreyndir heldur kallar það hennar „upplifun“. Þá segir hann fyrirtækið hafa fagnað því að fá trúnaðarmann í fyrsta skipti. Á vef Ræstitækni segir að fyrirtækið hafi starfað frá árinu 2002, eða í 23 ár.
Sláandi úttekt á starfsaðstæðum
Í vinnuverndarúttekt sem gerð var hjá Ræstitækni vegna Andreinu eftir að hún varð ófrísk segir að hún hafi „sjaldan tryggan aðgang að salerni“ og sé „því með einhvers konar skál út í bíl sem hún notar til þvagláta“. Þórir sagði á RÚV þann 14. febrúar að lýsingar hennar kæmu á óvart: „Okkar starfsfólk er að vinna úti um allan bæ og fólk hefur auðvitað aðgang að salernum víða. … Ég hef ekki heyrt þetta frá neinum öðrum starfsmanni áður.“
Í tilkynningu frá Ræstitækni eftir viðtalið við Andreina segir síðan að „fyrirtækið hafði ítrekað boðið henni að skipta um plan þar sem styttra var í salerni …“ sem getur varla þýtt annað en að hún hafi haft takmarkaðan aðgang að salerni.
Fimm dögum síðar ræddi RÚV við aðra konu frá Venesúela, Leidy Teran, sem einnig starfaði hjá Ræstitækni yfir fjögurra ára tímabil áður en hún sagði upp í ágústmánuði. Hún segir að eins og Andreina hafi hún þurft að pissa í fötu í vinnunni vegna þess að hraðinn og tímapressan hafi verið svo mikil. „Þær Andreina hafi ekki haft aðgang að klósetti þegar þær voru í vinnunni og tíminn sem þeim var skammtaður til að vinna hvert verk hafi verið svo stuttur. Þær segjast hafa þurft að þrífa 12 til 14 staði á dag og fengið afmarkaðan tíma til að klára hvert verk,“ segir í greininni.
Útvistun ræstingarstarfa
Haustið 2023 lýsti miðstjórn ASÍ því yfir að hún „fordæmir þá útvistun starfa ræstingafólks bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði sem skapað hefur eins konar þrælastétt í íslensku samfélagi“.
Að útvista ræstingastörfum þýðir að fyrirtæki eða stofnun ræður utanaðkomandi þjónustuaðila til að sjá um ræstingar í stað þess að hafa ræstingafólk á eigin launaskrá. Þetta felur í sér að verktakinn tekur ábyrgð á framkvæmd ræstinga og starfsmannahaldi. Ræstingafólkið er því ekki hluti af starfsmannahópnum á vinnustaðnum, þekkir varla neinn þar með nafni og tekur ekki þátt í neinum viðburðum á vegum vinnustaðarins. Það bara kemur og þrífur.
Ein helsta ástæðan fyrir því að ræstingum er útvistað er að minnka útgjöld, að spara. Forseti ASÍ segir ríki og sveitarfélög hafa forystu um útvistun starfa láglaunafólks.
Stéttarfélögum víðs vegar um land bárust þær fregnir á haustmánuðum 2024 að fyrirtækið Dagar hf., sem hefur tæplega helmingshlutdeild á ræstingamarkaði, væri tekið að lækka laun starfsfólks síns um 20%. Í framhaldinu bárust fregnir um að fleiri fyrirtæki hefðu farið, eða væru að fara, í þessa átt.
ASÍ, Starfsgreinasamband Íslands og Efling sendu á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem framganga Daga og annarra fyrirtækja „sem ákveðið hafa að auka enn hagnað sinn með því að níðast á þeim hópum launafólks sem fullyrða má að eru í erfiðustu stöðu hér á landi“. Þar kemur fram að langstærsti hluti launakrafna stéttarfélaga vegna vangreiddra launa sé fyrir hönd innflytjenda „og verður ekki annað ályktað en margir atvinnurekendur telji sjálfsagt að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart þessu aðflutta launafólki“.
Athugasemdir (1)