Klisjan kveður á um að það séu forréttindi að eldast. Fáir fyllast þó þakklæti þegar þeir horfa á hrukkurnar og gráu hárin í speglinum.
Mér varð nýverið ljóst að í ár er liðinn aldarfjórðungur frá því að ég hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu í sumarafleysingum. Flest þeirra sem byrjuðu í blaðamennskunni á sama tíma eru löngu útskrifuð yfir í störf talsmanna og upplýsingafulltrúa og flytja nú sannleik þess sem borgar best. Því hver hefur efni á prinsippum þegar bílalán og börn eru komin í spilið? Réttsýni er forréttindi æskunnar.
Í síðustu viku kvarnaðist enn úr blaðamannastéttinni þegar hinn knái fréttamaður Stöðvar 2, Heimir Már Pétursson, tók við starfi framkvæmdastjóra og upplýsingafulltrúa þingflokks Flokks fólksins.
Skiljanlegt er að Heimir söðli um. Það þarf stáltaugar til að halda það út í atvinnugrein þar sem vænlegasta leiðin að kjarabót er að kaupa sér Happaþrennu. Það er krefjandi að lifa við þá mótsögn að líða eins og gamlingja í vinnunni innan um fólk sem er orðið svo ungt að það heldur að Helmut Kohl sé nýjasti rakspírinn frá Prada og Nirvana sé hugarástand sem fólk öðlist eftir jógatíma yfir súrdeigsbrauði með avókadó, en eins og óábyrgum unglingi innan um miðaldra vini sem sýndu af sér tilskilda fórnfýsi fullorðins fólks og uppskera nú raðhús í Garðabæ, golf í Flórída og bestu sætin í Hörpu.
Erfiðara er hins vegar að skilja hversu hratt sumum tekst að snúa baki við sínu gamla sjálfi.
Að hafa uppi hótanir
Heimir Már hóf nýtt starf með hvelli. Í aðsendri grein á Vísi bar hann fyrrum kollega þungum sökum. Kallaði hann blaðamenn Morgunblaðsins „eiturpenna án siðgæðis“ fyrir að fjalla um styrki sem Flokkur fólksins fékk frá ríkinu án þess að uppfylla til þess skilyrði.
Skrifin taldi Heimir hafa átt að vera til hagsbóta Sjálfstæðisflokknum sem ræki upp „væl og öskur“ úr „hrútakofa biturra manna sem kunna tungu sinni ekki forráð vegna þeirra miklu vonbrigða sem þeir urðu fyrir að afloknum síðustu alþingiskosningum“. Í stað þess að „viðurkenna ósigur sinn í auðmýkt“ sagði Heimir flokksmenn sökkva sér í „sjálfsvorkunn og afneitun“ og gera „eins og menn gera stundum í þeim aðstæðum; þeir fóru að kenna öðrum en sjálfum sér um hvernig komið var fyrir þeim.“
Hafi umfjöllun Morgunblaðsins átt að vera Sjálfstæðisflokknum til framdráttar gekk það ekki eftir, þar sem skömmu síðar svipti fréttastofa Vísis hulunni af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði einnig fengið styrki frá ríkinu án þess að uppfylla þar til gerð skilyrði.
Heimir hefur vissulega á réttu að standa; líklega reyndist það Sjálfstæðisflokknum betur að mæta ósigri sínum af meiri auðmýkt. Það sama mætti hins vegar segja um Flokk fólksins og kosningasigur hans.
Í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um málefni Flokks fólksins sagði þingmaður flokksins og nýskipaður formaður atvinnuveganefndar, Sigurjón Þórðarson, ástæðu til að endurskoða fjölmiðlastyrki sem veittir væru blaðinu.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, kvaðst afar ósátt við ummælin. „Það er mjög alvarlegt að stjórnmálamaður, sérstaklega í þeirri stöðu sem Sigurjón er ... skuli hafa uppi beinar hótanir um að svipta fjölmiðil sem honum er ekki þóknanlegur ríkisstyrkjum sem eru til þess gerðir að auka fjölmiðlafrelsi.“
Stuttu fyrr hafði Vísir flutt fréttir af því að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra, hefði hellt sér yfir skólastjóra Borgarholtsskóla vegna týnds skópars barnabarns hennar og sagst hafa ítök í lögreglunni. Þegar fréttakona Vísis spurði hana út í málið kvað hún það ekki koma fjölmiðlinum við.
Það er ekki aðeins Sjálfstæðisflokkinn sem skortir auðmýkt. Flokk fólksins skortir auðmýkt gagnvart nýfengnu valdi sínu. Í stað þess að líta í eigin barm kennir flokkurinn „öðrum en sjálfum sér um hvernig komið er fyrir þeim“ og skýtur sendiboðann – fjölmiðla.
Vel má vera að Sjálfstæðisflokkurinn hafi Flokk fólksins í sigtinu því Sjálfstæðismenn telji hann veikasta hlekkinn í ríkisstjórnarkeðjunni. Sú staða ætti þó að verða Flokki fólksins hvatning til að vanda til verka frekar en að senda út á vígvöllinn talsmenn og PR fulltrúa til að bauna á blaðamenn.
Athugasemdir (1)