Þrír læknar báru vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag við aðalmeðferð málsins gegn Alfreð Erling Þórðarsyni. Hann er ákærður fyrir að hafa ráðið hjónunum Björgvini Ólafi Sveinssyni og Rósu G. Benediktsdóttur bana á heimili þeirra í Neskaupstað í ágúst síðastliðnum.
Geðlæknir á Landspítala sem ræddi við Alfreð að kvöldi 22. ágúst, daginn eftir að hjónin létust, bar meðal annars vitni fyrir dómnum. „Þá var hann í geðrofi, að mínu mati,“ segir hún. „Það var varla heil brú í því sem hann sagði. Hugmyndir um Jesú, djöfla, vísindamenn.“
Hún sagði að Alfreð hefði átt erfitt með að tjá sig í heilum setningum og að erfitt hefði verið að eiga gott samtal við hann. Þá hefði hann glott og brosað á óviðeigandi stöðum og þegar ekki tilefni var til. „Mitt mat er að hann var í geðrofi og hugsanatruflaður.“
Athugasemdir