Heilsa okkar er verðmæt, bæði andleg og líkamleg. Gott er að minna sig reglulega á að við sjálf erum að stórum hluta ábyrg fyrir eigin heilsu.
Í sveitinni ólst ég upp við „gamlan og góðan íslenskan mat“. Ógerilsneydda mjólk og mjólkurvörur, kjöt og fisk. Ferskt, reykt, saltað og súrsað. Kaffimeðlæti var allt bakað heima og lítið um annað grænmeti en kartöflur. Að alast upp í sveit kallaði á mikla hreyfingu og þátttöku í daglegum störfum. Ábyrgð var lögð á okkur systkinin frá unga aldri, ýmis verkefni sem þóttu sjálfsögð í þá daga eru alls ekki jafnsjálfsögð í dag. Þannig hef ég keyrt dráttarvél svo að segja frá því ég man eftir mér og þegar ég fór í fyrsta ökutímann sagði kennarinn: „Það er nú greinilegt að þú ert ekki að keyra í fyrsta skipti.“
Útiveran var endalaus, orkan eftir því og brennslan mikil. Þótt ekki væri um að ræða skipulagðar íþróttaæfingar vorum við öll í góðu formi við leik og störf hversdagsins. Það má með sanni segja að ég var bæði heilsuhraust barn og matheill svo eftir því var tekið – barn sem tók hraustlega til matar síns og allar konur elskuðu að gefa að borða.
Þetta ætti að vera uppskrift að heilbrigðu lífi. Það eina sem angraði voru blóðnasir sem ég átti til að fá af minnsta tilefni. Læknar brenndu fyrir aftur og aftur en allt kom fyrir ekki. Áfram fossaði blóð úr nefi mínu af minnsta tilefni. Þannig var þetta fyrstu þrjá áratugina eða svo. Það var ekki fyrr en ég fór að skoða mataræðið að blóðnasirnar hættu. Mjólkurneysla minnkaði og meira var snætt af jurtafæði en áður. Fagfólk sagði mér að lítil grænmetisneysla hefði síður en svo styrkt æðaveggina. Þetta hefði verið gott að vita fyrr.
Í framhaldi af þessari reynslu minni hef ég ætíð lagt við hlustir þegar ég heyri sögur af fólki sem gerir breytingar á mataræði sínu með það að markmiði að líða betur eða draga úr einkennum sjúkdóma. Margir af lífsstílssjúkdómum nútímans eru matartengdir eða réttara sagt tengjast skorti á alvöru mat. Margt er hægt að gera með því einu að tileinka sér „betra“ mataræði. Hinn ofnotaði frasi að hlusta á líkamann á alltaf við, það getur verið erfitt að greina hvaða matur fer illa í okkur og stundum þarf aðstoð fagfólks til þess. Þó að ekkert sérstakt sé að plaga mig hitti ég reglulega næringarfræðing sem tekur stöðuna með mér.
Auk góðs mataræðis eru hreyfing og góður svefn lykilatriði til að lifa góðu lífi. Allt þarf þetta að vera í ákveðnu jafnvægi. Ef við tökum okkur til, finnum við á eigin skinni hvað aukin hreyfing gerir okkur gott. Það er mikilvægt að hver og einn finni þá hreyfingu sem hentar best. Ekki má gleyma að við breytumst ár frá ári, það sem hentaði okkur fyrir tíu árum hentar kannski ekki í dag. Aðalmálið er að hreyfa sig, stunda líkamsrækt af einhverju tagi. Göngutúrar á jafnsléttu með góðu fólki geta gert mikið gagn, ekki síður en önnur og erfiðari hreyfing. Svo má bæta við að það getur haft mikil áhrif að kosta kapps um að umgangast fólk sem hefur góð, jákvæð og uppbyggjandi áhrif á okkur, en sniðganga þau sem gera okkur lífið leitt, eins og hægt er.
Já já, OK, OK, OK, er ekki alltaf verið að hamra á þessu?!
Vissulega, en ekkert okkar er fullkomið og þó að það sé kannski ekki einu sinni eftirsóknarvert, getum við öll gert aðeins betur. Borðað aðeins hollari mat og hreyft okkur aðeins meira. Þetta virkar einfalt, en getur auðvitað verið snúið. Alls staðar eru freistingar sem garga á okkur. Við förum í „gott kaffiboð“ og gerum öllum sortum góð skil. Þá er kunnara en frá þurfi að segja að það er ekkert alltaf gaman að hreyfa sig – langt frá því.
„Markmið okkar ætti ekki að verða elstu karlar og kerlingar í heimi, miklu frekar að leggja okkar af mörkum til að lífið verði eins gott og kostur er
Að lokum:
Markmið okkar ætti ekki að verða elstu karlar og kerlingar í heimi, miklu frekar að leggja okkar af mörkum til að lífið verði eins gott og kostur er. Fjölmörg dæmi eru um að fólk hafi bætt heilsu sína og líðan með því að hlusta á líkamann, taka til í mataræðinu – taka til og upplifa í framhaldinu aukna vellíðan og betri áhrif á samferðafólkið.
En þó að gott sé að hlusta á líkamann, er ekki alltaf ljóst hver vandinn er og hvað sé til ráða. Regluleg allsherjar læknisskoðun með ítarlegri blóðrannsókn er mikilvæg. Með því móti er hægt að grípa inn í ef eitthvað bjátar á eða fá staðfestingu á að við séum í góðum málum. Við fáum ekki skoðun á bílinn, nema hann sé í lagi, en við sjálf verðum að ganga eftir því hvort heilsa okkar sé í lagi. Þess vegna verðum við að taka málin í okkar hendur og fylgjast með.
Njótum þess að borða hollan og góðan mat og vörumst að borða það sem telst minna hollt með samviskubiti. Við stjórnum ferðinni og ráðum miklu um eigin heilsu og líðan í daglegu lífi.
Athugasemdir