Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mun ekki sækjast eftir embætti formanns né öðru embætti á landsfundi flokksins í næsta mánuði.
Þessu greinir hún frá í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Í pólitískri dægurmálaumræðu gera flestir ráð fyrir því að ég hljóti að vilja verða formaður í Sjálfstæðisflokknum þar sem ég hef ítrekað sagst telja mig vera færa um að gegna embættinu enda getur formennska í Sjálfstæðisflokknum verið verkfæri til að ná markmiðum fyrir Ísland.
En það hefur ekki verið markmið í sjálfu sér; að það sem keyri mann áfram sé að „vinna leikinn“. Það er ekki sami hluturinn. Ég hef ætíð haft metnað til að sinna þeim verkefnum sem mér er treyst fyrir en ekki sérstaklega upptekin af því að ná tilteknum metorðum,“ skrifar hún.
Raddir sem hafi kallað hæst á endurnýjun fái að reyna sig
Þórdís Kolbrún segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gott af innanflokksátökum eða „hatrömmum flokkadráttum“ og að hún sé stolt af því að hafa verið varaformaður hans síðustu sjö árin. Á þeim tímamótum sem flokkurinn sé nú á sé eðlilegt að þær raddir sem kallað hafi hæst á endurnýjun fái tækifæri til að reyna sig og flokkurinn fái að velja nýja forystu.
„Ég mun með stolti gera hvað ég get sem þingmaður í sterku liði undir nýrri forystu. Ég hlakka til að vera óbreyttur þingmaður á eigin forsendum - og hluti af liði,“ skrifar Þórdís Kolbrún.
Þá segist hún munu rækta það að hafa skynbragð og skilning „á því sem er að gerast í kringum okkur, og veldur mér raunverulegum áhyggjum. Því miður grunar mig að það sé allt miklu stærra en einstaka innanlandsmál, hvað þá innanflokksmál.“
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins mun fara fram 28. febrúar - 2. mars næstkomandi. Bjarni Benediktsson, núverandi formaður flokksins, tilkynnti þann 6. janúar að hann hyggðist ekki sækjast eftir endurkjöri, né þiggja þingsæti á Alþingi. Þrátt fyrir að aðeins séu fimm vikur til stefnu fram að landsfundi hefur enginn tilkynnt um framboð sitt til formanns.
Af þeim sem orðuð hafa verið við möguleg framboð eru fyrrverandi ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir