Ágreiningur er um tré í aðflugslínu við Reykjavíkurflugvöll. Það verður eiginlega að teljast ansi merkilegt að slíkt geti orðið að deiluefni, að ekki megi fella tré til að tryggja öryggi flugfarþega. Ekki síst þegar rök fyrir plöntun hávaxinna erlendra trjátegunda fylgir iðulega mantran: „þetta er endurkræf aðgerð, alltaf er hægt að fella skóginn aftur.“ Þegar svo er komið að ekki megi hrófla við trjám á röngum stað – þá er skógrækt á Íslandi komin á vondan stað. Og svo má geta þess að það er þannig með þessar tegundir að þær hætta ekkert að vaxa á þessum tímapunkti – þær verða bara hærri með hverju árinu og vandinn eykst.
Vissulega geta aspir og hávaxin barrtré skilað verðmætum viði í þjóðarbúið, sem og skjóli þar sem það á við. En ég held að það sé nú ekki gáfuleg iðja að rækta timburskóg í aðflugslínum að flugbrautum. Ástæða fyrir skóginum við flugbrautarendann hlýtur að vera önnur – kannski til skjóls og útivistar? Margir sjá ekki sólina fyrir svona trjám og segja má að sums staðar örli á trúarlegum viðhorfum er varðar ræktun á innfluttum hávöxnum trjám – eiginlega „af því bara“ að manni virðist. Kolefnisbinding er oft nefnd til sögunnar en þá er skemmst frá því að segja að ræktun innfluttra tegunda í einrækt (monoculture), tegunda sem oft reynast ágengar, er afar umdeild og í vaxandi mæli ekki viðurkennd sem leið til að binda kolefni sem mótvægisaðgerð vegna loftslagsbreytinga. Alþjóðlegir sáttmálar kveða skýrt á um það, meðal annars samningurinn um verndun lífbreytileikans og það er hreinn óþarfi fyrir borgina að taka upp aðra og sérviskulega, jafnvel trúarlega, stefnu í þeim efnum.
Það er ekkert eðlilegt við það að hluti Öskjuhlíðarinnar skuli lögð undir myrkviði barrviðarskógar. Þessi tré eru auðvitað ekki heilög – þau hafa engin bréf upp á það frá Vatíkaninu eða öðrum þar til bærum aðilum. Hér þarf nýja hugsun – fólk með aðra sýn en timburskógrækt þegar kemur að útvistarsvæðum borgarinnar. Á svæðinu er hægt að skapa fjölbreyttan, bjartan, skjólríkan reit, þar sem birkiskógur veitti skjólið (hann verður ekki of hár) – svæðið yrði opnara og aðgengilegra. Það má m.a. benda á Ullarnesbrekkur með Varmá í Mosfellsbæ sem dæmi um aðra og betri nálgun. Kæri borgarstjóri, núverandi tré mega alveg fara og um leið skapast ómetanleg tækifæri til að gera betur.
Athugasemdir