Fréttirnar gerðust ekki mikið verri í vikunni. „Mjaðmagallabuxur eru komnar aftur í tísku,“ kvað í fyrirsögn í dagblaðinu The Times.
„Lest we forget“ – við megum aldrei gleyma – eru varnaðarorð sem höfð hafa verið um hinar ýmsu misgerðir í mannkynssögunni í von um að þær endurtaki sig ekki.
En hópminnið virðist brigðult. Erum við búin að gleyma „múffutoppnum“, holdinu sem lekur undantekningarlaust yfir strenginn á mjaðmabuxum? Erum við búin að gleyma þrýstingnum á mjaðmabeinið og áreynslunni við að hífa buxurnar upp þegar þær síga ítrekað niður? Erum við búin að gleyma múrararassinum?
Þar sem ég sat og las um endurkomu mjaðmagallabuxnanna í lífsstílsfréttunum í von um að leiða hjá mér endurkomu hins pólitíska múrararass Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta rakst ég á frétt um endurkomu sem ekki varð.
Michelle Obama, eiginkona fyrrverandi forseta Baracks Obama, mætti ekki á innsetningarathöfn Trumps því hún hafði að eigin sögn ekki gaman af þeirri síðustu. Sagði ónafngreindur heimildarmaður Michelle „ekki týpu sem er til í að setja upp gervibros og vera með leikaraskap þótt einhver prótókóll kveði á um það“.
„It's my party, and I'll cry if I want to,“ söng Lesley Gore árið 1963, aðeins 16 ára að aldri. „Þetta er ekki partíið mitt en samt ætla ég að fara í frekjukast,“ syngur Michelle Obama, sem samkvæmt lífsstílssíðunum varð 61 árs í síðustu viku.
Fýla Michelle Obama er hverjum frjálslyndum lýðræðissinna skiljanleg. Framferði hennar er hins vegar langt frá því að vera málstaðnum til framdráttar.
Meira að segja Hillary Clinton
Í janúar 2021, þegar Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta kosningasigur Joes Biden, neitaði fráfarandi forseti, Donald Trump, að viðurkenna ósigur. Stuðningsmenn hans réðust inn í þinghúsið í Washington í von um að hnekkja niðurstöðunni.
Í aðdraganda forsetakosninganna þreyttust Demókratar ekki á að minna á atvikið sem þeir töldu sýna fram á lýðræðislega yfirburði sína. Sem það og gerði. Því framgangur lýðræðisins hvílir á þeirri grunnstoð að sá sem tapar kosningum viðurkenni ósigur og láti þeim eftir völdin sem sigraði.
Það þótti hneisa þegar Donald Trump og eiginkona hans, Melania, neituðu að vera viðstödd innsetningarathöfn eftirmanns Trumps, Joes Biden. Joanne Freeman, prófessor í sagnfræði við Yale-háskóla, sagði um að ræða mikilvæga táknræna hefð þegar fyrrum forsetar sæjust með nýjum forseta, sem stæði fyrir „gangverk lýðræðisins“.
Allir núlifandi forsetar Bandaríkjanna og makar þeirra voru viðstaddir innsetningu Trumps síðastliðinn mánudag að undanskilinni Michelle Obama. Meira að segja Hillary Clinton, sem tapaði naumt fyrir Trump í forsetakosningum árið 2016, sá sér fært að mæta.
Skömmu fyrir innsetningu Trumps birti Michelle Obama á samfélagsmiðlinum Instagram tilvitnun í Martin Luther King: „Það er alltaf rétti tíminn til að breyta rétt.“
Það getur virst sem sá „breyti rétt“ sem sniðgengur lýðræðislegan sigur manns sem margir álíta popúlískan tækifærissinna, karlrembu og rasista. Þegar betur er að gáð blasir þó við að eins og í tilfelli mjaðmagallabuxnanna er minnið að bregðast okkur.
Hornsteinn að harðræði
Sé litið yfir mannkynssöguna sést að lýðræðið – „versta stjórnskipan sem völ er á fyrir utan allar hinar“ – er undantekningin en ekki reglan. Að Trump kæri sig kollóttan um afdrif lýðræðisins kemur fáum á óvart. En að áhrifamikill demókrati, með milljónir aðdáenda, láti sér fátt um finnast um leikreglur lýðræðissamfélagsins slær ógnvekjandi tón.
„Sagan endurtekur sig kannski ekki en hún rímar,“ er haft eftir rithöfundinum Mark Twain. Hvort sem um ræðir mjaðmabuxur eða harðstjórnir skjóta slæmir hlutir alltaf aftur upp kollinum.
Það sem við töldum heilagt – kvenréttindi, alþjóðasamvinna, borgararéttindi – reynist brothætt; hverfult það sem við töldum eilíft. Það er aðeins tímaspursmál hvenær kjörinn leiðtogi reynir næst að stöðva framgang lýðræðisins og gerast einvaldur. Freistumst við til að fetta fingur út í niðurstöðu lýðræðiskosninga í hvert sinn sem okkur líkar hún ekki leggjum við hornstein að næsta einræðisríki.
Stigsmunur er á framgöngu Donalds Trump í kjölfar ósigurs hans í forsetakosningunum 2020 og framgöngu Michelle Obama nú. Á henni er þó ekki eðlismunur.
Í veröld þar sem mjaðmabuxurnar ráða ríkjum er það áhættuíþrótt að setjast niður á stól. Um leið og það rifjast upp fyrir okkur að slíkar buxur eru ekki annað en sjálfshíðing í boði tískuiðnaðarins munum við henda þeim beint í fatagáminn. En ef við umgöngumst ekki lýðræðið af virðingu munum við sitja uppi með múrararassinn.
Athugasemdir