Hin viðurstyggilega nasistakveðja Elons Musks daginn sem Donald Trump var settur í embætti hefur að vonum vakið mikla athygli.
Kannski ekki síst vegna þess að kveðjuna lét Musk flakka úr ræðustól sem var rækilega merktur forseta Bandaríkjanna.
Hin fasíska tilhneiging margra áhangenda Trumps hefur aldrei fyrr birst á jafn augljósan hátt — enda lét Musk sér ekki nægja að heilsa að nasistasið einu sinni, heldur gerði það tvisvar.
Sumir þeirra sem reynt hafa að bera blak af Musk hafa þvaðrað um að þessi kveðja væri nú ekki komin upphaflega frá fasistum eða nasistum, heldur væri þetta forn rómversk kveðja sem ítalskir fasistar hefðu svo að vísu tekið upp frá Rómverjum en ekki fyrr en löngu, löngu síðar.
Þetta er bull.
Engar heimildir, nákvæmlega engar, eru um að kveðja í þessa áttina hafi verið notuð af Rómverjum hinum fornu.
Sögusagnir sem tengja kveðjuna við Rómverja eru einfaldlega sprottnar af málverkinu Eiður Hóras-bræðranna eftir franska málarann David en það var málað 1784.
Málverkið er sprottið af frásögn úr riti rómverska söguritarans Liviusar þar sem fjallað er um allra fyrstu ár Rómaveldis aftur á sjöundu öld FT, fyrir upphaf tímatals okkar.
Rómverjar áttu þá í erjum við íbúa nágrannaborgarinnar Alba Longa og í stað þess að etja öllum íbúum borganna út í stríð var ákveðið að þrír kappar frá hvorri borg skyldu mætast í bardaga og útkljá deilurnar þannig.
Fyrir valinu af hálfu Rómar urðu þrír bræður sem báru ættarnafnið Horatius. Mynd Davids sýnir þá rétt fyrir bardagann þegar þeir vinna eið að því að þeir séu tilbúnir að fórna lífinu fyrir borg sína.
Svo fór að tveir þeirra féllu en einn lifði af og drap alla þrjá fulltrúa Alba Longa.
Þannig hafði Rómaveldi unnið sigur í deilunni.
Það sem skiptir máli hér er hins vegar að sá sperrti hægri armur og hönd er snýr niður með útrétta fingur sem bræðurnir sverja með eiðinn er algjörlega uppfinning Davids. Ég ítreka að engar heimildir eru í rómverskum ritum um slíka kveðju.
Málverk Davids olli því hins vegar að ýmsir fóru að ímynda sér að kveðjan væri forn og rómversk.
Þannig birtist hún til dæmis í ýmsum seinni málverkum og teikningum af Rómverjum og ekki síst þegar farið var að gera kvikmyndir í byrjun 20. aldar.
Þannig barst hún til þjóðernisofstopamannsins og skáldsins Gabriele D'Annunzio og þaðan til ítalskra fasista og síðan þýskra nasista. Í hópi nasistanna varð kveðjan beinlínis skylda og svo útbreidd að hún hefur gjarnan verið nefnd Hitlers-kveðja síðan.
Rétt fyrir 1900 var reyndar farið að nota kveðjuna í Bandaríkjunum þegar börn voru látin vinna eið að hollustu sinni við ættjörðina. Þá var hún kölluð Bellamy-kveðjan eftir manninum sem skrifaði hollustueiðinn fyrir unga fólkið.
Þegar fólk var farið að rugla saman Bellamy-kveðjunni og Hitlers-kveðjunni um 1930 var Bellamy-kveðjan lögð á hilluna og börnin í staðinn látin leggja hönd á hjartastað.
En sem sé, vilji menn afsaka framferði Musks með Hitlers-kveðjunni þannig að þar hafi verið um að ræða ævaforna rómverska kveðju, þá er það úr lausu lofti gripið.
Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað.
Og hefur ekki þótt brúkleg í siðuðu samfélagi í 80 ár — fyrr en þá núna.
En fróðlegt væri að vita hvort þessi háttur er hafður á enn þann dag í dag.