Nýr samgönguráðherra sagði að það væri draumur allra samgönguráðherra að vera mættur með skóflu á verkstað, þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að Fossvogsbrú ásamt borgarstjóra Reykjavíkur, bæjarstjóra Kópavogs, forstjóra Vegagerðarinnar og framkvæmdastjóra Betri samgangna í hádeginu í dag.
Eyjólfur Ármannsson var hinsvegar bjartsýnni á framgang verkefnisins en tilefni eru til, en hann sagði „vonandi að framkvæmdir gangi vel fyrir sig þannig að við getum klippt á borða líka, á næsta eða þarnæsta ári,“ þegar reyndin er sú að ekki er gert ráð fyrir að Fossvogsbrú verði tekin til notkunar fyrr en árið 2028.
Eyjólfur bætti svo við að reyndar vissi hann ekki alveg hvenær brúin ætti að verða tilbúin, en klykkti svo út með því að segja aftur að það væri „draumur allra samgönguráðherra, að vera á verkstað“ og sjá framkvæmdir fara af stað.
Keyra eða ekki keyra
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi skrikaði einnig ögn á skötunni í ræðu sinni fyrir skóflustunguna, er hún sagði að áætlanir gerðu ráð fyrir því að tíu þúsund manns myndu „keyra“ yfir brúnna á degi hverjum eftir að hún yrði tekin í notkun.
„Nei, ekki keyra – hjóla, ganga og fara með Borgarlínunni í gegnum brúna,“ bætti bæjarstjórinn svo við í leiðréttingartón, en Fossvogsbrúin mun sem kunnugt er eingöngu þjóna gangandi, hjólandi og almenningssamgöngum, auk þess sem ráðgert er að neyðarbílar; sjúkrabílar og slökkvilið, geti nýtt sér hana eins og aðrar akreinar Borgarlínu til að komast hraðar yfir í umferðarkássunni sem höfuðborgarsvæðið er flesta morgna og síðdegi á virkum vetrardögum.
Brúarbygging í margvíslegum skilningi
Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði að það væri „viðeigandi að fyrsta framkvæmdin í borgarlínuverkefninu sé brú“ því hún væri ákveðið tákn um þær brýr sem hafi verið byggðar milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og svo sveitarfélaga og ríkisins hins vegar um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
„Til hamingju með daginn,“ sagði Einar og í sama streng tóku þau Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.
„Þetta er fyrsta framkvæmdin í Borgarlínu, og markar upphaf að vegferð sem við erum búin að vera að undirbúa í langan tíma. Það er bara stór dagur og til hamingju með það, sem standið hérna nötrandi á beinunum,“ sagði Bergþóra, en fyrirmennin fimm reyndu að halda ræðum sínum stuttum vegna kulda, áður en hafist var handa við að moka.
Athugasemdir