Blue Origin, geimfyrirtæki Jeffs Bezos, stofnanda Amazon, sendi sína fyrstu eldflaug á braut um jörðu á fimmtudag. New Glenn-eldflauginni var skotið á loft frá Cape Canaveral í Flórída kl. 07.02 að íslenskum tíma og markar þetta stórt skref í samkeppni auðugustu manna heims í geimferðaiðnaði. Geimskotið markar upphaf eiginlegrar samkeppni við SpaceX Elons Musk.
Báðir vilja fjölga gervihnöttum á braut um jörðu, reka einkareknar geimstöðvar og bjóða ferðalög til tunglsins. „Til hamingju með að ná á braut í fyrstu tilraun!“ skrifaði Musk til Bezos á samfélagsmiðli sínum X.
Þrátt fyrir að hafa glímt við tæknileg vandamál fyrr í vikunni tókst skotið, en mótor eldflaugarinnar, sem átti að vera endurnýtanlegur, týndist í Atlantshafi eftir um 20 mínútna flug. Áfanginn er þó mikill, fyrir Blue Origin.
Eldflaugin er stærri og öflugri en algengasta eldflaug SpaceX, Falcon 9. Bezos ætlar að nýta hana til að koma á laggirnar Project Kuiper, sem felur í sér þúsundir lágbrautargervihnatta til að veita internetþjónustu. Það verður bein samkeppni við Starlink-þjónustu SpaceX.
New Glenn er nefnd eftir John Glenn, fyrsta bandaríska geimfaranum til að fara á braut um jörðu.
Athugasemdir (1)