Um allan heim keppast ríki við að skapa betri aðstæður til að unnt sé að auka framleiðslu á grænni orku svo draga megi úr þörfinni á jarðefnaeldsneyti. Hér á Íslandi horfir þessi áskorun nokkuð öðruvísi við en víðast hvar annars staðar. Við Íslendingar erum jú svo heppnir að búa í landi með gnægð af grænum orkuauðlindum og lengi hefur mest allt rafmagn á Íslandi verið framleitt með nýtingu endurnýjanlegra og hagkvæmra orkuauðlinda.
Orkan sú hefur komið frá vatnsföllum og jarðvarma og nú er vindorkan að bætast þar við. Þetta er staða sem flestar aðrar þjóðir öfunda okkur Íslendinga af. Og það ekki síst nú á tímum þegar bæði loftslagsmál og óvissa um aðgang að orku vegna stríðsátaka sýna vel mikilvægi þess fyrir þjóðir að geta verið sjálfri sér nægar um orku.
Því miður er staðan allt önnur og verri hér þegar kemur að orkunni sem við notum fyrir bílana okkar, trukkana, skipin og flugvélarnar. Til að knýja þann stóra flota höfum við þurft að flytja inn alla orkuna og það um langan veg í formi mengandi og kolefnislosandi jarðefnaeldsneytis. Að auki hefur á síðustu rúmlega tíu árum bæst þar við gífurleg eldsneytisþörf vegna hratt vaxandi ferðaþjónustu.
Með hliðsjón af hinum geysimikla eldsneytisinnflutningi Íslands er afar jákvætt að nú er unnið að ýmsum tæknilausnum sem munu gera okkur Íslendingum kleift að geta sjálf nýtt endurnýjanlega orkugjafa til að framleiða vistvænt eldsneyti á farartækin eða a.m.k. hluta þeirra. Þar er um að ræða vegferð sem felst í orkuskiptum; að skipta sem allra mestu jarðefnaeldsneyti, sem notað er í samgöngum og útgerð, út fyrir endurnýjanlega orku.
„Nú er komið að þriðja stóra skrefinu í orkuskiptunum“
Við Íslendingar höfum áður farið farsællega gegnum stórfelld orkuskipti, sbr. þegar við tókum að nýta jarðvarma og losuðum okkur þannig undan því að þurfa að hita húsnæði með innfluttum kolum og olíu. Og þegar við að mestu losuðum okkur undan olíu sem orkugjafa til rafmagnsframleiðslu víða um land, með því að nýta vatnsföll og jarðgufu þess í stað. Til að ná fram meiri hagkvæmni og hagvexti var um leið virkjað fyrir stóriðju og þannig skapaðist tækifæri til að byggja upp öflugt raforkuflutningskerfi um landið og stórefla raforkuöryggi. Nú er komið að þriðja stóra skrefinu í orkuskiptunum, sem er að losa okkur undan a.m.k. hluta þess jarðefnaeldsneytis sem notað er í samgöngum á landi og skipaútgerð og kannski líka síðar meir í fluginu.
Þessi vegferð til orkuskipta í samgöngum og útgerð er bara rétt að byrja og ekki er útséð um það hvernig eða hversu hratt þau skipti munu ganga. Þó svo rafmagnsbílar hafi selst býsna vel hér undanfarin ár, þá er það einungis smáræði þegar horft er til bílaflotans í heild. Til að raunveruleg orkuskipti verði í samgöngum og útgerð þarf miklu meira að gerast. Þar að auki mun raforkunotkun vegna samfélagsþróunar og ýmissa tækniframfara aukast hratt. Það er því augljóslega þörf á meiri raforku og þá er mikilvægt að áherslan verði á græna og hagkvæma orku.
Öllum ætti að vera augljóst hversu jákvætt það yrði fyrir þjóðina, bæði út frá umhverfissjónarmiðum, mengunarsjónarmiðum og efnahagslegum sjónarmiðum, að geta nýtt græna íslenska orku í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Þar að auki er vert að muna að jarðefnaeldsneyti heimsins er helsta útflutningsvara og tekjulind margra spilltustu og ömurlegustu ríkisstjórna veraldarinnar. Það eru því margvísleg rök fyrir því að framleiða sem allra mest af grænni orku.
Til að svo megi verða þarf markvisst átak um að virkja umtalsvert meiri endurnýjanlega orku á komandi árum. Þar stendur ekki á tækni eða fjármagni. Það sem skort hefur er fyrst og fremst skilvirkari vinnubrögð af hálfu hins opinbera, sem með óheyrilegu flækjustigi hefur gert uppbyggingu í orkugeiranum á Íslandi fádæma seinvirka.
„Síðustu ríkisstjórnum hér hefur ekki tekist nægilega vel að koma orkuverkefnum á skrið og hægagangurinn í styrkingu flutningskerfis raforku er með ólíkindum“
Nú er svo komið að hryggjarstykkið í íslenska orkugeiranum, sem eru miðlunarlón og virkjanir Landsvirkjunar, ráða vart lengur við að halda því orkuöryggi og þeim stöðugleika í raforkuverði sem við höfum verið vön um langt skeið. Í dag er raforka á Íslandi svo gott sem uppseld í fyrsta sinn í næstum sex áratuga sögu Landsvirkjunar. Það er því tómt mál að stjórnvöld kynni metnaðarfulla sókn gegn notkun jarðefnaeldsneytis nema að um leið fylgi raunverulegur vilji. Þ.e. vilji til að auka hratt aflgetuna í raforkukerfinu og bæta flutningskerfi raforku.
Síðustu ríkisstjórnum hér hefur ekki tekist nægilega vel að koma orkuverkefnum á skrið og hægagangurinn í styrkingu flutningskerfis raforku er með ólíkindum. Að vísu hafa verið sett fram ýmis metnaðarfull markmið í stefnuyfirlýsingum stjórnvalda og allskonar nefndir og starfshópar hafa verið skipaðir í því skyni að koma orkumálunum í betra horf. En öfluga eftirfylgni hefur skort og ekki hefur heldur verið raunverulegur samhljómur innan ríkisstjórna til að ná þarna markverðum árangri.
„Stundum er engu líkara en það sé markmið sumra opinberra stofnana að hægja á orkuverkefnum og/eða auka flækjustigið sem mest“
Á sama tíma hefur afgreiðsla nýrra, raunhæfra og hagkvæmra verkefna í nýtingarflokk Rammaáætlunar gengið afskaplega hægt, sveitarfélög hafa sum haft uppi afar sérkennilega og mismunandi túlkun á löggjöf sem snýr að leyfisveitingum og óeðlilegar tafir hafa orðið á afgreiðslu jafnvel einföldustu erinda hjá bæði Orkustofnun og sveitarstjórnum. Að auki hefur mat á umhverfisáhrifum orkuverkefna verið gert sífellt flóknara af hálfu stjórnsýslustofnana án nokkurs tilefnis og stundum er engu líkara en það sé markmið sumra opinberra stofnana að hægja á orkuverkefnum og/eða auka flækjustigið sem mest.
Fyrir vikið erum við Íslendingar nú í þeirri furðulegu og um leið nokkuð svo döpru stöðu að vera á barmi þess að raforku vanti og rafmagnsverð taki að hækka og sveiflast mun meira en við erum vön. Það ástand er líklegt til að valda okkur efnahagslegu tjóni. Mikilvægt er að gerðar verði breytingar á laga- og stjórnsýsluumhverfinu til að flýta þróun nýrra orkuverkefna. Verði ekki hugað að bættu lagaumhverfi orkumála og meiri skilvirkni í stjórnsýslunni, er sennilegt að óvissa um framboð raforku muni hafa neikvæð áhrif á efnahagslífið og að áætlanir um orkuskipti verði að mestu blaðrið eitt.
Komi slík staða upp er það á ábyrgð þingmanna og ríkisstjórnar. Engum öðrum yrði um að kenna. Þingmenn bera ábyrgð á lagasetningu og ráðherrar bera ábyrgð á ráðuneytum sínum og stofnunum þar undir. Mikilvægt er að þingmenn og ríkisstjórn axli ábyrgð og sjái til þess að lagaumhverfi orkumála og framkvæmd stjórnsýslunnar á þar að lútandi löggjöf verði með nægilega skilvirkum hætti, svo hér verði nóg af grænni orku til að mæta þörfum heimila og atvinnulífs og að þar verði jafnframt sýndur raunverulegur metnaður til að unnt verði að taka mikilvæg og eðlileg skref í átt til orkuskipta.
Ný ríkisstjórn undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur hefur birt stefnuyfirlýsingu sína og þar er m.a. fjallað um orkumál. Í stefnunni er að finna ýmis nokkuð almennt orðuð markmið, en ekki er þar mikið sagt um leiðir að þeim. Markmiðin í orku- og loftslagsmálum eru sett fram í texta sem í meginatriðum felur í sér eftirfarandi sjö grundvallaratriði (flokkunin, fyrirsagnirnar og leturbreytingar eru greinarhöfundar; skáletraði textinn er beint úr stefnuyfirlýsingunni):
-
Næg orka tryggð og hvatt til betri orkunýtni:
Í fyrsta lagi hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til þess að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi raforku og bæta orkunýtni, þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land. Þetta verður varla túlkað öðruvísi en að gera eigi lagabreytingar sem flýta fyrir uppbyggingu nýrra virkjana og framkvæmdum Landsnets og þannig stuðla að því að raforka í landinu verði sem tryggust og að afhendingargeta virkjana verði hámörkuð. Að mati greinarhöfundar á að vera unnt að undirbúa og samþykkja slíkar lagabreytingar nokkuð hratt og sérkennilegt ef það næðist ekki fyrir árslok 2025. Meiri tafir þar á væru til marks um að í reynd sé ekki nægur vilji eða samhljómur hjá ríkisstjórninni til að framkvæma þetta. -
Auka skilvirkni í undirbúningsferli hins opinbera í raforkumálum:
Í öðru lagi hyggst ríkisstjórnin einfalda ferli leyfisveitinga og gera tímafresti lögbundna. Þó svo óvíst sé hvað þarna er nákvæmlega átt við, má gera ráð fyrir að þetta merki t.a.m. að einfalda eigi og flýta ferli Rammaáætlunar og mæla fyrir um skyldu stjórnvalda til að standa við tímafresti og þá væntanlega gegn viðurlögum af einhverju tagi ef tímafrestir eru ekki uppfylltir. Þarna eru mikil tækifæri til að auka skilvirkni og með hnitmiðaðri vinnu ættu lagabreytingar um þetta að vera orðnar að veruleika ekki síðar en í árslok 2025. -
Verkefni í nýtingarflokki fái stjórnsýsluforgang.
Í þriðja lagi hyggst ríkisstjórnin sjá til þess að orkuverkefni í nýtingarflokki Rammaáætlunar verði látin njóta forgangs í stjórnsýslu orkumála. Það er reyndar svolítið óljóst hvað átt er við með þessu markmiði ríkisstjórnarinnar. Helstu dæmin um tafir í stjórnsýslunni gagnvart verkefnum í nýtingarflokki stafa nefnilega ekki af skorti á forgangsröðun af þessu tagi, heldur almennum seinagangi hjá opinberum stofnunum. Þess vegna skiptir hér í reynd mestu að auka skilvirkni í stjórnsýslu orkumála almennt, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, og að koma fleiri orkuverkefnum sem eru raunverulega hagkvæm og gerleg í nýtingarflokk. Til að svo megi veri þarf bæði að gera breytingar á ferli Rammaáætlunar og setja stjórnvöldum skýra lögbundna tímafresti likt og einnig er lýst í lið nr. 2 hér að framan. -
Sátt um vindorku.
Í fjórða lagi hyggst ríkisstjórnin vinna að breiðri sátt um lagaumgjörð vindorkunýtingar. Í þessu sambandi hlýtur að skipta máli að á tíma (næst)síðustu ríkisstjórnar fór fram umtalsverð vinna um þetta málefni sem sjálfsagt er að nýta. Þar að auki er mikilvægt að hafa í huga að eitt vindorkuverkefni er nú þegar komið með öll tilskilin leyfi viðeigandi ríkisstofnana, en þar er um að ræða 120 MW verkefni Landsvirkjunar ofan við Búrfell (s.k. Búrfellslundur). Sá vindorkugarður mun væntanlega rísa fljótlega. Ekki verður betur séð en að býsna breið sátt hafi verið um lagaumgjörð þess verkefnis, nema hvað óánægja er hjá sveitarfélögum um fasteignaskatta vegna viðkomandi mannvirkja. Óánægja af því tagi nær vel að merkja líka til vatnsafls- og jarðvarmavirkjana. Og staðreyndin er sú að það er og verður ágreiningur um hvert einasta umtalsverða virkjunarverkefni í landinu, hvort sem um er að ræða vatnsaflsvirkjun, jarðvarmavirkjun eða vindorkuvirkjun. Til að leysa úr slíkum ágreiningi með sem bestum hætti höfum við skipulagslöggjöfina, náttúruverndarlöggjöfina og löggjöf um mat á umhverfisáhrifum og það er fyllilega nægur grunnur að farsælli framkvæmd orkumála. Sérlög um vindorku eru óþörf. Öll vindorkuverkefni 10 MW eða stærri þurfa að sæta mati á umhverfisáhrifum rétt eins og öll önnur orkuverkefni. Ætli ný ríkisstjórn að endurtaka vegferð síðustu ríkisstjórna með langvarandi starfshópum sem eigi að skapa s.k. sátt um vindorku, er slíkt fyrst of fremst fallið til þess að þæfa vindorkumálin enn meira. Því er eðlilegast að umrædd sátt snúist fyrst og fremst um nýja löggjöf um fasteignaskatt vegna orkumannvirkja. Þar mætti mögulega leita fyrirmynda t.d. í Noregi þar sem sveitarfélög og nærsamfélög hafa um langt skeið borið miklu meira úr býtum vegna orkuverkefna en verið hefur hér á Íslandi. -
Sanngjarnari tekjuskipting á grundvelli skattalaga.
Í fimmta lagi hyggst ríkisstjórnin sjá til þess að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags. Í þessu skyni væri, að mati greinarhöfundar, nærtækast að drífa í að leggja fram lagafrumvarp sem fyrst um það hvaða fasteignaskatt eigi að greiða af orkumannvirkjum, sbr. einnig liður fjögur hér að framan. Vinna starfshóps sem verið hefur að skoða þetta undanfarin misseri ætti að geta nýst í þessu sambandi og frumvarp um þetta mál ætti því að geta komið fram mjög fljótlega hjá hinni nýju ríkisstjórn og vera orðið að lögum fyrir árslok 2025. -
Koma í veg fyrir raforkuskort heimila og almennra notenda.
Í sjötta lagi hyggst ríkisstjórnin breyta lögum til að tryggja forgang heimila og almennra notenda að raforku. Það er í reynd svolítið undarlegt, eftir ítrekaðar ábendingar t.a.m. Landsvirkjunar á liðnum árum, að ekki skuli nú þegar búið að lögfesta slíkan forgang í einhverju skynsamlegu formi. Raforkunotkun heimila og almennra notenda er einungis lítill hluti af öllu því rafmagni sem hér er framleitt og ekki ætti að vera mjög flókið að búa svo um hnútana að tryggja umræddan forgang. Til að forðast að sú staða komi upp að raforku skorti í landinu er þó um leið mikilvægt að ríkisstjórnin leggi höfuðáherslu á það stefnumál sitt að grípa til aðgerða til þess að auka orkuöflun, sbr. liður eitt hér að ofan. Meiri rafmagnsframleiðsla er besta og eðlilegasta tryggingin fyrir því að ekki verði raforkuskortur. -
Kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040.
Í sjöunda lagi hyggst ríkisstjórnin grípa til markvissra loftslagsaðgerða svo að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og verði áfram í fremstu röð í baráttu gegn hnattrænni hlýnun. Í þessu skyni ætlar ríkisstjórnin að ýta undir orkuskipti í samgöngum og iðnaði. Hér er um risavaxið mál að ræða. Til að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040 þurfa stórfelldar breytingar að verða hér á því hvernig bifreiðar, skip og flugvélar eru knúin. Þar er algert lykilatriði að græn raforkuframleiðsla verði aukin mjög verulega og það býsna hratt. Því dugir t.a.m. ekki lengur sá seinagangur sem hér hefur ríkt í framkvæmd Rammaáætlunar. Fróðlegt verður að sjá hvaða efndir fylgja munu þessum loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Þar þarf að vinna hratt og vel, eigi viðunandi árangur að nást.
Þetta eru að flestu leyti prýðileg markmið hjá hinni nýju ríkisstjórn og þau eru til þess fallin að auka hér verðmætasköpun, tryggja hóflegt og stöðugt raforkuverð til framtíðar og eru í góðu samræmi við alþjóðleg markmið og samstarf sem Ísland tekur þátt í. Enn er þó mjög óljóst hvernig verður með útfærsluna - sem er þó það sem skiptir hvað mestu máli. Þarna hræða sporin og læðist eflaust sá grunur að mörgum að kjörtímabilið fari að mestu í starfshópa og nefndaþjas og að raunverulegur árangur í orkumálum verði lítill sem enginn.
Kannski ætti greinarhöfundur, fremur en að vera að viðra þessar áhyggjur, að koma hér sjálfur með skýrar hugmyndir um það hvernig best megi vinna að framgangi umræddra markmiða hinnar nýju ríkisstjórnar. Það bíður þó betri tíma, enda hyggst ríkisstjórnin sjálf væntanlega sem fyrst móta þessar hugmyndir sínar og markmið nánar og sýna það og sanna að um öfluga verkstjórn sé að ræða. Vonandi dregst þetta ekki úr hófi fram og vonandi reynist stefnan ekki vera innantómt málskrúð. Tækifæri Íslands í orkumálum eru gríðarleg og afar mikilvægt að þarna verði gengið rösklega til verks.
KAPPHLAUPIÐ UM ORKUAUÐLINDIRNAR.
Átökin um orkuauðlindir Íslands sem Ketill lýsti í Orkublogginu fyrir nokkrum árum eru smámunir einir miðað við það kapphlaup um orkuauðlindir Íslands sem nú er í uppsiglingu.
Nú endurtekur sig auðlindakapphlaup líkt því sem hefur geisað um sjávarauðlindina allt frá því kvótakerfi var komið á í sjávarútvegi fyrir næstum hálfri öld. Fer hægt af stað í byrjun með “gjafakvóta” en verðmætið vex síðan hratt.
HRATT VAXANDI VERÐMÆTI AUÐLINDAR.
Þegar fram líða stundir er næsta víst að hagnaður af nýtingu orkuauðlindarinnar verði margfalt meiri en er af sjávarauðlindinni í dag og því ákaflega mikilvægt að stefna að sátt um nýtinguna.
Fyrirséð er hratt vaxandi raforkunotkun og eftirspurn í Evrópu á komandi árum (orkuskipti, gagnaver, hagvöxtur o.fl.). Rafeldsneytis framleiðslu og t.d. gagnaver, geta eigendur auðveldlega valið að staðsetja allt eins á Íslandi eins og t.d. í Skandinavíu. Ísland verður þannig óbeint sífellt nátengdara raforkumarkaði meginlands Evrópu og til lengri tíma mun því raforkuverð hér hækka verulega í áttina að Evrópuverðum. Þetta skilar sér síðan í mikilli hækkun hagnaðar af raforkuvinnslu.
ÞJÓÐARHAGSMUNIR.
Ísland framleiðir margfalt meiri raforku miðað við íbúafjölda en nokkuð annað land í heiminum. Í landi þar sem orkuauðlindir til verðmætrar raforkuframleiðslu eru þetta ríkulegar, þá verður megináherslan að vera að fá sem mest fyrir auðlindina - raforkuna. Ef heildar þjóðarhagsmunir ríkis og íbúa eru skoðaðir þá skilar það margfalt meiru en að horfa eingöngu til þess að lágmarka raforkuverð til almennings. Skattar og gjöld af raforkuvinnslunni ættu að skila þjóðinni margfalt meiru gegnum samneysluna heldur en ábatinn af lágu raforkuverði sem jafngildir í raun niðurgreiðslu á miklum verðmætum.
NOREGUR.
Hér má t.d. benda á Noreg. Stefna Norðmanna er að raforkuvinnslan skili sem mestu til samfélagsins með mjög ábatasamri raforkuvinnslu sem skapar mikil verðmæti og með sem lægstum tilkostnaði. Um þessa stefnu er þverpólitísk sátt í norska þinginu. Þetta er hvati fyrir bæði eigendur virkjana og ríkið til að stefna að hámörkun arðs af raforkuvinnslunni m.a. gegnum hátt raforkuverð. Þegar vel text til þá verður til veruleg auðlindarenta eða umframhagnaður. Auðlindarentan er sá virðisauki sem auðlindin skapar umfram allan framleiðslukostnað og eðlilega ávöxtun fjármagns að teknu tilliti til áhættu. Vel hannaðir auðlindaskattar og gjaldtaka letur ekki til fjárfestingar í arðbærum verkefnum. Við sjáum það víða í kringum okkur, t.d. í Noregi að þar eru auðlindagjöld og skattar eru mjög veruleg, en fyrirtæki standa samt í röðum að komast að til að nýta auðlindirnar.
STJÓRNLAUS NÝTING TAKMARKAÐRAR ORKUAUÐLINDAR ER GALIN.
En nú leggja hagsmunaaðilar hérlendis sem vilja virkja ofuráherslu á að mikilvægast sé að virkja sem hraðast og mest í þeim tilgangi að halda orkuverði lágu og forða orkuskorti. Þessi málflutningur er með miklum ólíkindum. Trúir því í alvöru einhver að fjárfestar sem hyggja á byggingu virkjana sækist eftir því að fá sem lægst verð fyrir raforkuna? Of lágt verð leiðir líka óhjákvæmilega til hörmulegrar auðlindastýringar því eftirspurn eftir ódýrri grænni orku er og verður óendanleg og leiðir því til eilífs orkuskorts fyrir utan gríðarlegs efnahagslegs tjóns raforkuframleiðenda og ríkis vegna orku sem er seld á undirveðri. Mikið verk er óunnið hérlendis við löggjöf er snýr að auðlindagjöldum og sköttum af orkuauðlindum og þar með grundvelli stýringar auðlindanýtingarinnar. Þar erum við áratugum á eftir t.d. Noregi. Stjórnlaus nýting takmarkaðra orkuauðlinda, eins og hagsmunaaðilar hvetja í raun til, er fullkomlega galin og líkt og sjávarútvegur væri án fiskveiðistjórnkerfis.
Norska móðurfyrirtækið Zephyr AS hefur mikla reynslu af því hleypa öllu í bál og brand. Það er í fararbroddi norskra fyrirtækja sem malbika lyngmóa, spilla útsýni, rjúfa kyrrðina, og slátra í leiðinni fuglum á válista.
„Náttúruunnendur“ af sama sauðahúsi og Ketill má sjálfsagt víða finna í sveitastjórnum og á Alþingi Íslendinga en við hin verðum að standa saman og stöðva þá áður en ósköpin dynja á okkur.