Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna boðar að hreyfingin muni veita nýrri ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins aðhald í lykilmálaflokkum; umhverfis- og náttúruverndarmálum, friðarmálum og í málum sem snerta jöfnuð, þrátt fyrir að flokkurinn eigi enga kjörna kjörna fulltrúa á Alþingi lengur. Þetta er á meðal þess sem Svandís ritaði í áramótagrein sem birt var á vefsvæði VG á gamlársdag.
Þar gerir Svandís upp árið í stjórnmálum og fjallar um dapurt gengi VG í þingkosningunum 1. desember. Hún segir að henni hafi verið ljóst þegar hún tók við formannsembættinu á landsfundi flokksins í október að staða flokksins væri alvarleg, en að landsfundurinn hafi þó verið sterkur, grasrótin styrkst og gamlir félagar komið aftur að starfinu.
Þegar boðað var til kosninga hafi hins vegar legið fyrir að Vinstri græn hefðu skamman tíma til að stilla saman strengi og byggja upp skýran valkost fyrir kjósendur.
„Fylgið hafði verið lágt allt frá vordögum og undir 5% frá í mars og náði aldrei að rétta úr kútnum. Ástæðurnar eru margar og ólíkar. Ríkisstjórnin var orðin afar óvinsæl og allir flokkarnir þrír í þröngri stöðu. Mikið var fjallað um 5% mörkin í fjölmiðlum og ítrekað vorum við reiknuð út af þingi auk þess sem röddum sem fjölluðu um taktíska kosningu og hættu á að sóa atkvæði sínu óx ásmegin,“ skrifar Svandís.
Formaðurinn slær þannig svipaðan tón og heyrðist frá einstaklingum innan Vinstri grænna í kosningabaráttunni, að áhersla fjölmiðla og álitsgjafa þeirra á fimm prósent mörkin, eða það hlutfall atkvæða sem þarf að ná á landsvísu til að fá úthlutað jöfnunarþingmönnum, gæti orðið til þess að kjósendur fældust frá flokknum, jafnvel þrátt fyrir að einhver von væri um að flokkurinn gæti náð inn kjördæmakjörnum þingmönnum í sínum sterkustu kjördæmum.
VG líti í eigin barm en minnist ekkert á starfsstjórnina
Svandís segir flokkinn hins vegar einnig þurfa að líta í eigin barm. „Var samstarfið okkur of dýrkeypt? Tiltekin mál höfðu haft áhrif; salan á Íslandsbanka, breytingar á útlendingalögum og undir það síðasta einfaldlega samstarfið sem slíkt. Málefnalegur ágreiningur varð tíðari, óyndið hlóðst upp og hafði í raun verið vaxandi allan tímann og sífellt sýnilegra öllum. Ytri áskoranir höfðu líka áhrif; heimsfaraldur, eldhræringar, forsetaframboð, veikindi,“ skrifar Svandís í áramótakveðju sinni.
Í þessari upptalningu á mögulegum ástæðum fyrir löku gengi Vinstri grænna nefnir Svandís hins vegar ekki það sem margir álitsgjafar hafa talað um sem veigamikla ástæðu fyrir hruni flokksins út af þingi, þá ákvörðun að taka ekki sæti í starfsstjórn fram að kosningum og hefja þannig kosningabaráttuna á því að virðast á harðahlaupum undan ábyrgð á stjórn landsins.
Segir hreyfinguna með skýra framtíðarsýn
Nokkuð hefur verið fjallað um það hvaða framtíð bíði Vinstri grænna, í ljósi þess að flokkurinn fékk ekki einu sinni nægilegt atkvæðamagn í kosningunum til að fá smávegis framlög úr ríkissjóði inn í starfið á kjörtímabilinu. Gamlir áhrifamenn í flokknum hafa sumir talað með þeim hætti að vinstri vængurinn í stjórnmálum þurfi að endurskipuleggja sig.
Í grein Svandísar segir hins vegar að áfangar sem VG hafi náð í sögu sinni, og tiltekur þar auk annars endurreisnarstarfið eftir efnahagshrunið 2008 og þungunarrofslögin frá 2019, sýni að VG sé nauðsynlegur hluti af íslenskri stjórnmálasögu og „hvers vegna okkar hlutverk verður enn mikilvægara á komandi árum“
Svandís segir einnig að kosningaúrslitin hafi verið „sár vonbrigði og áminnig um að VGE þarf að endurnýja tengsl sín við fólkið í landinu“.
„Við heyrðum skýra kröfu um meiri nálægð við fólk, sterkari grasrót og skýrari framtíðarsýn. Þetta er verkefni sem við tökum alvarlega. Við munum efla tengsl við sveitarstjórnarfólkið okkar, skerpa á skilaboðunum og tryggja að stefna VG endurspegli þörf almennings fyrir breytingar. VG hefur aldrei haft það að meginmarkmiði að afla sér vinsælda heldur að taka ábyrgð og hafa áhrif – og sú hreyfing mun halda áfram að breyta samfélaginu til betri vegar með kjarki, samstöðu og framsýni,“ skrifar Svandís Svavarsdóttir.
Hvað kom fyrir þessa stjórnmálakonu sem er svo verulega hokin af reynslu í pólitík og þeim refskákum sem henni fylgja? Það er eins og hún hafi bara gefist upp og pakkað saman. Furðulegt!
Vg á þetta brotthvarf að alþingi skuldlaust. Sjálfsvinnan hefst á því að viðurkenna þessi, og önnur, afdrifaríku afglöp.
Hún bara virðist ekki skilja það.