Amma Ása, nafna mín og klettur lést frekar skyndilega á fyrstu dögum þessa árs. Hún hafði mikinn áhuga á samfélagsmálum, pólitík og var mikill femínisti, án þess kannski að gera sér grein fyrir því sjálf. Þess vegna hef ég svo oft viljað geta glaðst með ömmu yfir sigrum kvenna á þessu ári. Þegar kona var kjörin biskup í annað sinn á Íslandi, þegar kona varð forseti Íslands í annað sinn og þegar konurnar sigruðu Alþingiskosningar og mynda nú ríkisstjórn.
„Fráfall hennar varð á einhvern fallegan hátt hvatning fyrir mig til að klára þessa baráttu, að standa áfram með sjálfri mér og minni sannfæringu þrátt fyrir mótlætið og vesenið sem fylgdi því.“
Hún hefði líka fagnað þegar íbúar í Ölfusi höfnuðu á afgerandi hátt grjótmulningsverksmiðju Heidelberg í íbúakosningu eftir tveggja ára baráttu nöfnu sinnar og félaga í minnihluta bæjarstjórnar Ölfuss. Enda deildum við áhuga á náttúrunni og framtíð Þorlákshafnar sem amma átti hlut í að byggja upp ásamt fleira fólki sem öllu jafna gengur undir nafninu frumbyggjar hér í þessum rúmlega 70 ára gamla bæ. Fráfall hennar varð á einhvern fallegan hátt hvatning fyrir mig til að klára þessa baráttu, að standa áfram með sjálfri mér og minni sannfæringu þrátt fyrir mótlætið og vesenið sem fylgdi því.
Baráttumálin í Ölfusi
Margir hafa ruglað saman málunum um grjótmulningsverksmiðju Heidelberg og landfyllinguna við hafnarsvæðið í Þorlákshöfn. Landfyllingu sem á að fara yfir brimbrettasvæði sem er algjörlega einstakt til brimbrettaiðkunar á Íslandi og á heimsvísu. Þetta eru tvö óskyld mál og nú er búið að samþykkja aðal- og deiliskipulag um landfyllingu og því fátt sem getur komið í veg fyrir að hún verði að veruleika.
Ég hef spurt sjálfa mig að því hvernig sveitarfélag, sem er þekkt fyrir að standa vel að allri umgjörð þegar kemur að íþróttum og íþróttamannvirkjum, geti tekið ákvörðun um að eyðileggja annað íþróttasvæði? Íþróttasvæði sem kostar ekki krónu að viðhalda því náttúran sér um það. Þá má spyrja sig, hvers virði er að varðveita svæðið? Það er samtal sem meirihlutinn í Ölfusi hefur ekki áhuga á að taka, hvorki við hagaðila, inn í bæjarstjórn og alls ekki við íbúa.
Þetta mál er dæmi um það þegar sveitarfélög taka ákvarðanir um skipulagsmál sem snerta ekki aðeins hagsmuni sveitarfélagsins heldur hagsmuni heildarinnar, landsins alls. Hvað myndu landsmenn segja ef Reykjavíkurborg myndi ákveða að fara í fasteignaverkefni í Bláfjöllum og byggja yfir skíðabrekkurnar sem eru þar í boði náttúrunnar?
„Það er ekki alltaf auðvelt að búa í litlu samfélagi og synda á móti straumnum, en stundum er það nauðsynlegt ef maður metur það sem svo að þörf sé á að breyta straumnum“
Þessi tvö baráttumál einkenndu árið 2024 hjá mér og reyndar líka 2023 ef út í það er farið. Það er ekki alltaf auðvelt að búa í litlu samfélagi og synda á móti straumnum, en stundum er það nauðsynlegt ef maður metur það sem svo að þörf sé á að breyta straumnum. Stundum tekst það, stundum ekki.
Það hefur margt lygilegt komið upp í þessu ferli, sem er í sjálfu sér kannski efni í bók. Það var til dæmis ótrúlegt að sjá hvernig aðilar reyndu að koma í veg fyrir það að íbúar fengu upplýsingar í málinu um grjótmulningsverksmiðjuna. Eins og þegar Heidelberg gerði tilraun til að koma í veg fyrir að sérfræðingar Hafró héldu erindi á íbúafundi sem fulltrúar úr minnihluta stóðu fyrir í vor. Sama má segja um afstöðu meirihlutans í bæjarstjórn Ölfuss um að láta stórfyrirtækið sjá alfarið um upplýsingagjöf til almennings. Hlutverk kjörinna fulltrúa er meðal annars að upplýsa íbúa um mál sem snerta hagi þeirra og það er ábyrgðarhlutverk. Því má spyrja sig hvort það sé ásættanlegt í máli af þessari stærðargráðu að skilja mörg hundruð blaðsíður af skipulagsgögnum eftir inn á vef sem fáir heimsækja og kalla það upplýsingagjöf?
Landið sem við erum með að láni
Það er nauðsynlegt að skoða hvernig við getum verndað auðlindir landsins fyrir ágangi erlendra fjársterka aðila og öðrum stórkarlalegum hugmyndum. Fjöllin, hreina vatnið, ræktarlandið, sjávarbotninn og hrygningarsvæði fiskistofnanna. Allt þetta sem við fáum að láni hjá framtíðarkynslóðum. Náttúruvernd er ekki tabú, hún er eðlilegur hluti af ákvarðanatöku þegar kemur að því að ákveða hvernig við byggjum upp landið. Við þurfum alltaf að vega og meta, hver er fórnarkostnaðurinn og er hann þess virði?
Tími til að horfa inn á við - og fram á við
Nú árið er liðið og aldrei það kemur til baka, engu er við það að bæta það rennur sitt skeið. En við sem að stöndum hér eftir og svörum til saka, sjáum á eftir því, fylgjum því þögul á leið.
Svona orti Bragi Valdimar Skúlason í lagi sínu Nýársmorgunn sem Sigurður Guðmundsson syngur svo listavel. Þetta lag vekur mig alltaf til umhugsunar um lífið og tilveruna. Jól og áramót er tími þar sem við horfum gjarnan til baka, meltum fortíðina og veltum fyrir okkur framtíðinni. Eins og segir á öðrum stað í ljóðinu:
Nýársmorgun, nýr og fagur, á næturhimni kviknar dagur. Nýársmorgun þegar örlög sín enginn veit, allt er á byrjunarreit.
Ekki óraði mig fyrir því í byrjun árs, að ég yrði orðin þingkona áður en árið væri á enda. En ég geng rösklega inn í nýja árið í mínum nýja raunveruleika full af auðmýkt og ábyrgðartilfinningu. Ég kveð árið 2024 með þakklæti fyrir fólkið sem stóð með framtíð Þorlákshafnar og leyfði náttúrunni að njóta vafans í íbúakosningunum og til allra þeirra sem studdu mig í baráttum þessa árs. Ég hef sjaldan verið eins spennt fyrir nýju ári og hlakka til að taka á móti verkefnum sem árið 2025 mun færa mér. Allt er á byrjunarreit.
óhugnanlega Heidelberg máli! Einstaklega vel að þessu farið. Til hamingju öll.