1. Það sem var skrítið við áramótaskaupið
Pistill eftir Jón Trausta Reynisson
Sú grein sem var mest lesin á vef Heimildarinnar á árinu sem er að líða er pistill Jóns Trausta Reynissonar um áramótaskaupið 2023. Þar vakti Jón Trausti Reynisson máls á því hvernig þátturinn hefði hverfst um upplifun frægs fólks og peningadýrkun, í stað þess að taka upp sjónarhorn almennings.
2. Læstur inni í íbúðinni sinni í fimmtán ár
Viðtal eftir Erlu Hlynsdóttur
Næst mest lesna grein ársins var viðtal við Ásdísi Snjólfsdóttur, móður Sveins Bjarnasonar, fatlaðs manns sem þarf aðstoð við allar athafnir dagslegs lífs. En Sveinn bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á vegum velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Mál hans varpar ljósi á alvarlegar brotalamir í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi og sýnir hvernig mannréttindi hafa verið virt að vettugi árum saman.
3. „Krýsuvík er komin í gang“
Skýring eftir Sunnu Ósk Logadóttur
Í ljósi sögunnar má ætla að eldgosin verði stærri og fleiri eldstöðvakerfi vakna þegar líða tekur á það gostímabil sem nú er hafið á Reykjanesskaga. Hraunrennsli og sprunguhreyfingar munu þá ógna íbúabyggð og innviðum á höfuðborgarsvæðinu.
4. „Kom mér á óvart hve hratt ég gat hlaupið“
Frétt eftir Helga Seljan, Georg Gylfason og Ragnhildi Helgadóttur
Sigfúsi Öfjörð ýtustjóra tókst að bjarga jarðýtu sinni með miklum naumindum frá hraunflæði við Grindavík um miðjan janúar 2024. Eftir að gos hófst flæddi hraunið í átt að vinnuvélum verktaka sem unnið höfðu að gerð varnargarða. Þegar Sigfús fékk leyfi til þess að forða ýtunni frá hrauninu var ein rúðan þegar sprungin vegna hitans. Slík var nálægðin.
5. Vitni lýsir aðstæðum á vettvangi í Neskaupstað
Frétt eftir Ragnhildi Helgadóttur
Kona í Neskaupstað sá mann ganga inn til hjóna sem fundust látin á heimili sínu í ágúst. Þegar hún heyrði dynk hlustaði hún eftir skýringum. „Ég heyrði aldrei nein óp eða öskur. Þannig að mér datt aldrei til hugar að það væri eitthvað alvarlegt að gerast.“
6. „Fáránleikinn“ tekur sviðið í Eurovision
Pistill eftir Jón Trausta Reynisson
Í kjölfar Söngvakeppninnar árið 2024 skrifaði Jón Trausti um þær brotalínur menningarstríðs sem lágu í gegnum keppnina vegna stríðsreksturs Ísraels í Palestínu. „Því var áður spáð að hatrið myndi sigra, en það var í ár sem hræðslan við að sýna kærleika sigraði,“ skrifaði hann um það að hinn palestínski Bashar Murad hefði lotið í lægra haldi fyrir Heru Björk.
7. „Bryndís Klara er dóttir mín“
Frétt eftir Erlu Hlynsdóttur
Birgir Karl Óskarsson, faðir Bryndísar Klöru sem lést eftir árás á menningarnótt, minntist hennar með hlýju: „Hún var hjartahlýjasta og saklausasta mannveran sem hefur stigið á þessari jörð.“
8. Þið eruð óvitar! – hlustið á okkur
Auður Jónsdóttir skrifaði um þann „anda elítisma“ sem henni þótti einkenna kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra. Þar kæmu saman menningarlegt vald, vald fjármagnsins og vald sjálfs valdakerfisins og leituðust við að styðja sinn frambjóðanda til sigurs.
9. Sökktu kurli og seldu syndaaflausn
Rannsókn Bjartmars Odds Þeys Alexanderssonar og Sunnu Óskar Logadóttur
„Ýttu á takkann og bjargaðu heiminum,“ skrifar vísindamaður af kaldhæðni er hann bendir umhverfisráðuneytinu á varúðarorð utan úr heimi um aðferðir sem fyrirtækið Running Tide fékk leyfi stjórnvalda til að prófa í þágu loftslags í Íslandshöfum. Aðgerðirnar umbreyttust í allt annað en lagt var upp með.
10. Hjúkkan sem reyndi að bjarga mér á bráðamóttökunni – og sagði svo upp
Reynsla Erlu Maríu Markúsdóttur
„Fyrir tveimur árum, upp á dag, dvaldi ég á biðstofu á bráðamóttökunni í rúmar fimm klukkustundir án þess að hitta lækni. Hjúkrunarfræðingurinn sem reyndi að koma mér inn í kerfið gat það ekki. Hún gaf sjálf upp vonina og sagði upp.“
Athugasemdir