Í lok sérhvers árs er alltaf gott að líta aðeins tilbaka. Því miður geisar ennþá hræðilegt stríð víða um heim og þar með talið í Úkraínu eins og allir vita. Það var einmitt í öðru stríði á þessu sama svæði fyrir um 170 árum sem rúmlega þrítug kona tók að sér brautryðjandastarf í nútímahjúkrun. Þessi kona var bresk en þó fædd á Ítalíu, og var skírð eftir fæðingarborg sinni Flórence, fyrir hartnær 200 árum. Þetta er að sjálfsögðu Florence Nightingale.
Florence Nightingale skipulagði starf hjúkrunar í þessu ægilega stríði í Úkraínu og lagði hún mikla áherslu á hreinlæti við alla meðferð. Slík aðferðarfræði og fagmennska bjargaði mörgum. En á þessum tíma dóu tíu sinnum fleiri hermenn vegna sjúkdóma og skorts á hreinlæti heldur en á sjálfum vígvellinum. Hún var frumkvöðull í því að koma skipulagi og vísindalegri nálgun inn í umönnun sjúklinga, sem áður hafði víða einkennst af óskipulögðu og oft heilsuspillandi umhverfi. Með starfi sínu sýndi hún fram á ómetanlegt gildi hreinsunar, sótthreinsunar, hollrar næringar og skipulegra vinnubrags í hjúkrun.
Það kemur kannski sumum á óvart en Florence Nightingale var tölfræðingur og notaði hún þá kunnáttu óspart í sínu starfi. Hún nýtti tölfræðilega greiningu til að sanna að með skipulegum breytingum í sjúkrahúsrekstri, eins og betri loftræstingu, bættum umbúnaði um sár, og skipulagðari umönnun, var unnt að draga verulega úr dánartíðni. Hún var einnig brautryðjandi í notkun skífurita og línurita. Já, hún hefði verið góð í Excel. Okkur sjúkraliðum þykir vænt um Florence Nightingale enda er margt sem hún stóð fyrir í starfinu sem líkist okkar störfum nú, þar sem áherslan er á nærhjúkrun, hreinlæti, umönnun og virka hlustun. Það er alltaf gott að rifja aðeins upp söguna, ekki síst svona í lok árs.
Framfarir í læknavísundum
Árið 2024 færði okkur ekki einungis fregnir af stríðum, heldur einnig umtalsverðar framfarir í læknavísindum sem hafa bein áhrif á lífsgæði fólks og styrkir heilbrigðiskerfin til að takast á við vaxandi álag. Þróun á sviði erfða- og líftækni hefur leitt til nýrra og sérhæfðra meðferðarúrræða, sérstaklega við flóknum sjúkdómum eins og ákveðnum tegundum krabbameins, sjálfsofnæmissjúkdómum og sjaldgæfum erfðasjúkdómum.
Ný lyf, nákvæmari greiningartæki og ítarlegar prófanir gera læknum kleift að veita meðferðir sem eru einstaklingsmiðaðar og falla betur að þörfum hvers sjúklings. Auk þess hefur tækni á borð við gervigreind og forspárgreiningar stuðlað að skilvirkari notkun heilbrigðisgagna og betra skipulagi innan heilbrigðisstofnana. Þetta hefur leitt til markvissari nýtingar fjármuna, aukið öryggi sjúklinga og betri nýtingu á tíma heilbrigðisstarfsfólks, sem styrkir bæði gæði þjónustunnar og afkastagetu kerfisins.
Hjartað í velferðarkerfinu
Árið hefur verið viðburðaríkt og krefjandi, en það endurspeglar þá fjölbreyttu vinnu sem sjúkraliðar og annað heilbrigðisstarfsfólk takast á við daglega. Sjúkraliðar eru hjartað í velferðarkerfinu, traust undirstaða sem heldur heilbrigðisþjónustunni gangandi. Þeir sinna fjölbreyttum og krefjandi verkefnum allan sólarhringinn, alla daga ársins, og tryggja að þeir sem glíma við veikindi, slys eða skerta heilsu fái þá umönnun og stuðning sem þeir þurfa.
Breiðfylking heilbrigðisstétta, sem myndaðist fyrir alþingiskosningar, er dæmi um kraft sem við þurfum að byggja á.
Án þessarar öflugu og faglegu stéttar væri velferðarsamfélagið ekki sjálfbært. Sjúkraliðar veita ómetanlega þjónustu sem er ekki aðeins mikilvæg, heldur grundvöllur fyrir öryggi, stöðugleika og gæðaheilbrigðisþjónustu. Þeir eru burðarásar heilbrigðiskerfisins og lykilpersónur í að tryggja velferð og lífsgæði þeirra sem treysta á aðstoð.
Aukið samstarf heilbrigðisstétta
Álag á heilbrigðisstofnunum er viðvarandi vandamál sem kallar á tafarlausar lausnir. Mönnunarvandi, ófullnægjandi vinnuaðstæður og skortur á heilbrigðisstarfsfólki má ekki viðgangast lengur. Þreytt og úrvinda starfsfólk getur ekki veitt þá þjónustu sem samfélagið á rétt á. Við höfum ítrekað bent á að mönnunarvandi heilbrigðiskerfisins verður ekki leystur nema raunhæfar breytingar komi fram í kjarasamningum, stofnanasamningum og menntastefnu stjórnvalda. Þetta er lykilatriði, ef heilbrigðisstarfsfólk fær ekki sæmilegar vinnuaðstæður og kjör, versnar ástandið enn frekar.
Á þessu ári höfum við eflt samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir til að ná fram kerfisbreytingum. Reglulegt samstarf við lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður hefur sýnt að sameiginleg markmið geta skapað raunverulegar framfarir. Breiðfylking heilbrigðisstétta, sem myndaðist fyrir alþingiskosningar, er dæmi um kraft sem við þurfum að byggja á. Samstaða fagfólks er leiðin til að knýja fram breytingar á heilbrigðiskerfinu.
Á árinu höfum við ítrekað fundað með stjórnvöldum, þar á meðal heilbrigðisráðherra. Á þeim fundum lögðum við mikla áherslu á nauðsynlegar breytingar á reglugerð um sjúkraliða, sem við náðum í gegn. Við höfum líka krafist þess að stjórnvöld taki tillit til stéttarinnar og bregðist við kröfum okkar um bætt kjör og betri vinnuaðstæður. Það verður að vera skýrt – sjúkraliðar láta ekki sitt eftir liggja þegar kemur að baráttunni fyrir réttindum sínum.
Nýir kjarasamningar til 4 ára
Einn af hápunktum stéttarfélaga á þessu ári var einmitt undirritun nýrra kjarasamninga til fjögurra ára. Meginlínurnar voru lagðar á hinum almenna vinnumarkaði en hinn opinberi fylgdi í kjölfarið með sín sérmál. Í kjarasamningum sjúkraliða lögðum við m.a. áherslu á að sýnileiki stéttarinnar endurspeglist í kjörum og starfsaðstæðum, ekki síst þeirra sem lokið hafa diplómanámi við Háskólann á Akureyri sem er nýlegt nám á háskólastigi fyrir sjúkraliða. Við náðum ýmsum málefnum okkar í gegn og var þar það ánægjulegt að sjúkraliðar samþykktu nýja kjarasamninga með góðum meirihluta. Þarna kom glöggt fram að við getum náð árangri þegar við stöndum saman, ræðum það sem skiptir okkur máli og sækjum einbeitt fram.
Að útrýma kynskiptum vinnumarkaði felur í sér að leiðrétta sögulegt misrétti sem hefur verið viðvarandi.
Áhersla okkar í kjarabaráttunni hefur einkum beinst að því að berjast gegn kyrrstöðu í málum sem varðar kynbundinn launamun á kynskiptu vinnumarkaði. Það er nauðsynlegt að vinna gegn þeim rótgrónu venjum sem halda þessari mismunun við. Vinnumarkaðurinn er enn litaður af hefðbundnum hugmyndum um „kvennastörf“ og „karlastörf,“ þar sem störf sem oft eru unnin af konum eru gjarnan vanmetin og launin lægri en í störfum tengdum karlastéttum. Þetta er ekki aðeins óréttlæti gagnvart starfsfólki í þessum greinum, heldur bitnar það einnig á gæðum þjónustunnar og hæfni heilbrigðiskerfisins til að laða að og halda í hæft starfsfólk.
Að útrýma kynskiptum vinnumarkaði felur í sér að leiðrétta sögulegt misrétti sem hefur verið viðvarandi. Þetta krefst markvissra aðgerða frá stjórnvöldum, launþegasamtökum og atvinnurekendum, aðgerða sem hingað til hafa skort. Með því að jafna laun og bæta stöðu kvennastétta stuðlum við ekki aðeins að auknu réttlæti, heldur einnig að betri gæðum í þjónustunni og meiri stöðugleika, þar sem meirihluti starfsfólks eru konur.
Við höfum ítrekað bent á að „þjóðarsátt“ er orðin tóm ef opinberir starfsmenn fá ekki fulla aðkomu að henni. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að um 30% vinnandi fólks á Íslandi starfar hjá hinu opinbera. Opinberi geirinn, sérstaklega heilbrigðisþjónustan, er grunnstoð samfélagsins, og án starfsfólks eins og sjúkraliða hættir samfélagið einfaldlega að virka. Það er kominn tími til að viðurkenna og meta störf þeirra að fullu.
Staða efnahagsmála erfið
Á árinu var staða efnahagsmála ein helsta áskorunin. Háir vextir og mikil verðbólga hafa dregið verulega úr ráðstöfunartekjum margra, sem kallar á að við séum á tánum. Fyrir launafólk skiptir sköpum að hagkerfið sé stöðugt. Þegar verðbólga og vextir eru há, hefur það bein áhrif á kjör fólks. Verðbólga grefur undan kaupmætti, gerir hverja krónu minna virði og neyðir fólk til að verja stærri hluta tekna sinna í grunnnauðsynjar. Háir vextir gera lán og húsnæðiskaup óaðgengilegri, sérstaklega fyrir ungt fólk og tekjulægri hópa.
Til að tryggja stöðugleika í samfélaginu er nauðsynlegt að ná niður bæði vöxtum og verðbólgu. Stöðugt verðlag er hagsmunamál allra launþega, óháð starfsstétt, og styrkir grunnstoðir velferðarkerfisins. Þessi markmið voru á meðal þeirra sem nýgerðir kjarasamningar lögðu sérstaka áherslu á að ná fram.
Fram á veginn með von
Þrátt fyrir áskoranir eins og flóknar kjaraviðræður, stöðuga umræðu um mönnunarvanda og óvissu í efnahagsmálum, lítum við vongóð fram á veginn. Við höfum sýnt að samstaða og seigla eru lykillinn að því að nálgast markmið okkar. Sjúkraliðar eru stétt sem sinnir vöktum, við vinnum þegar aðrir sofa eða njóta frídaga. Framlag sjúkraliða er ómetanlegt og á það að endurspeglast í launakjörum, virðingu og samstarfi við stjórnendur heilbrigðiskerfisins.
Á þessum tímamótum vil ég þakka sjúkraliðum fyrir ómetanlegt framlag og óbilandi seiglu. Án ykkar væri ekki hægt að halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Við höfum sannað að með samhug og staðfestu er hægt að knýja fram umbætur sem gagnast öllum launþegum og styrkja öfluga heilbrigðisþjónustu.
Megum við sameiginlega stíga inn í nýtt ár með bjartsýni og viljastyrk. Baráttan heldur áfram fyrir bættum kjörum, betri vinnuaðstæðum og réttlátara samfélagi fyrir alla.
Athugasemdir